Baksvið
Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segir flesta sammála um að nýjar vegatengingar yfir Miklubraut og í Vatnsmýri haldist í hendur við vígslu nýs Landspítala. Þá bendi kannanir til að æskilegt sé að endastöð fyrirhugaðrar fluglestar verði nærri miðborginni.
Tilefnið er að Valur hefur óskað eftir leyfi til að breyta hluta æfingasvæðis í lóð undir 245 íbúðir. Sú lóð yrði vestan við vestasta gervigrasvöll félagsins og nærri fyrirhugaðri akstursleið borgarlínu.
Því vakna spurningar um hvernig verkefnið stendur en ætlunin er að Snorrabrautin haldi áfram á mörkum Hringbrautar og Miklubrautar og yfir í Arnarhlíð, á milli tveggja gervigrasvalla, í hinu nýja Valshverfi.
Verður mikið notuð stöð
„Við eigum í góðum viðræðum við Valsmenn um Arnarhlíðina og það skiptir miklu máli að tryggja öruggar gönguleiðir krakka sem eru að æfa báðum megin við vellina. Við teljum okkur vera með góðar lausnir á því. Síðan varðar þetta í raun vesturhluta Miklubrautarstokks en ofan á honum mun myndast svæði sem stundum hefur verið kallað Miklatorg. Það verður mikið notuð skiptistöð í nýju leiðakerfi strætó og borgarlínunnar en stærsti vinnustaður landsins, Landspítalinn, er þar við hlið og verður líka tengdur við borgarlínu. Þannig að allt er þetta hluti af heildarhugsun og sú hugsun gerir ráð fyrir borgarlínustöð sem tengir saman Hlíðarendahverfið og Loftleiðasvæðið, ef við getum kallað það svo,“ segir Dagur.
– Hvenær sérðu fyrir þér að það verði farið í þessar framkvæmdir þannig að það myndist tenging yfir í Vatnsmýrina?
„Það tengist bæði borgarlínunni og vesturhluta stokksins. Þannig að það er undir í þeim viðræðum sem við eigum við ríkið varðandi uppfærslu á samgöngusáttmálanum.“
Haldist í hendur við verklokin
– Verður það fyrir 2030 eða síðar?
„Það liggur auðvitað ekki fyrir fyrr en það er komin niðurstaða varðandi uppfærslu á [samgöngu]sáttmálanum. Ég held hins vegar að flestir séu sammála um að það sé mjög mikilvægt að þessi vesturhluti stokksins, og það sem snýr að borgarlínunni, haldist svolítið í hendur við verklokin við nýjan Landspítala. Þannig að það verði ekki þannig að daginn sem framkvæmdum lýkur við Landspítalann þá hefjist hinar.“
– Það má þá skilja á þér að það er hugsanlega verið að miða við árið 2030?
„Ég ætla svo sem ekki að nefna neitt ártal. Þetta er bara hluti af þeim umræðum sem eru um uppfærsluna. En það liggur auðvitað fyrir mjög mikill metnaður af hálfu ríkisins í fjármögnun á Landspítalaverkefninu og það er unnið að því næstu árin af mjög miklum þrótti að klára það og ég held að það hljóti að vera sameiginlegur vilji að huga að nánasta umhverfi í leiðinni.“
Hluti af sáttmálanum
Spurður hvort sala byggingarlóða verði nýtt til að fjármagna uppbyggingu Miklatorgs og vestasta hluta stokksins áréttar Dagur að stokkurinn og borgarlínan séu hluti af samgöngusáttmálanum.
Fram kom í Morgunblaðinu á laugardag að starfshópur sé að kanna leiðir til að bæta samgöngur milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins. Staða málsins var kynnt á opnum fundi í Salnum og var fluglest meðal hugmynda sem nefndar voru.
Hafa þegar ræst
Spurður hvar áform um fluglest eru stödd segir Dagur að umferð til og frá Keflavíkurflugvelli hafi aukist hraðar en spáð var.
„Framtíðarspárnar sem sumum fannst brattar árið 2014, og fulltrúar fluglestarverkefnisins og aðrir settu fram, eru þegar orðnar að veruleika. Fjöldi ferðamanna er orðinn sá sem þá var spáð en jafnframt hefur orðið miklu meiri fólksfjölgun, bæði á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu, en við vorum að spá.
Þannig að hágæðaalmenningssamgöngur milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar eru orðnar enn brýnni en áður. Og búið er að eyða óvissu um hvort bjartsýnar farþegaspár Isavia myndu ganga eftir. Þær hafa þegar gert það. Íbúafjölgunin er jafnframt umfram mannfjöldaspár. Árið 2013 vorum við að spá því að íbúum höfuðborgarsvæðisins myndi fjölga um 70 þúsund fram til 2040 en okkur sýnist að fyrir lok þessa árs verði okkur búið að fjölga um 50 þúsund.“
Finni bestu leiðirnar
– Sérðu fyrir þér að endastöð fluglestarinnar verði í Kringlunni?
„Ég sé fyrir mér að allir þessir aðilar sem eru að halda þennan fund saman – Reykjavíkurborg, innviðaráðuneytið, Kadeco, svæðisskipulagsnefndirnar á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu – einhendi sér nú í það sameiginlega verkefni að greina þá valkosti sem eru í stöðunni og þau skipulagsmál sem eru undir varðandi leiðaval og annað og að við gefum okkur ekki einhverja eina lausn fyrirfram heldur förum í það sameiginlega að velja bestu leiðir, bæði til skamms og lengri tíma, því að veruleikinn kallar á að við bregðumst við ákveðnum þáttum strax. Eins og bættum almenningssamgöngum.“
– Viltu endastöð við miðborgina eða væri nóg að hún væri í Kringlunni?
„Allar greiningar hafa bent til þess að þeir sem mundu greiða hæsta verðið í svona fluglest væru ferðamenn en að heimamenn fengju kannski eitthvað lægra verð og aðgangspassa. Jafnframt að stór hluti farþega sé á leið á hótelin sem eru miðsvæðis. Þess vegna hefur endastöðin gjarnan verið á BSÍ-svæðinu og þar höfum við haldið frá lóð sem gæti nýst fyrir þetta. Þannig að ég held að það sé enn þá skynsamlegasta lendingin.“
– Hvernig á að fjármagna fluglestina? Það má skilja á því sem sagt var hér [á fundinum í Salnum] að horft sé til einkaframkvæmdar. Er það rétt skilið?
„Það hefur verið sýnt fram á að slíkt verkefni gæti staðið undir sér með einkaframkvæmd. Það er slíkur metnaður og áhugi á stórum samgönguframkvæmdum í landinu öllu á næstu 15, 20 og jafnvel 30 árum að ég held, ef það reynist raunhæft, að einkaframkvæmd geti verið álitlegur kostur fyrir þessa tilteknu framkvæmd,“ segir Dagur.