Sigrún Haraldsdóttir orti á fimmtudag á Boðnarmiði: Kvalin er af kulda megnum, kvíða að mér setur, nenni varla að nuddast gegnum nýjan myrkan vetur. Ásta Sverrisdóttir bætti við: Víst er væta og drulla Og vont í krapa að sulla En að lesa góð kvæði í kúri og næði, af kæti hellir mig fulla

Sigrún Haraldsdóttir orti á fimmtudag á Boðnarmiði:

Kvalin er af kulda megnum,

kvíða að mér setur,

nenni varla að nuddast gegnum

nýjan myrkan vetur.

Ásta Sverrisdóttir bætti við:

Víst er væta og drulla

Og vont í krapa að sulla

En að lesa góð kvæði

í kúri og næði,

af kæti hellir mig fulla.

Og Hallmundur Guðmundsson:

Ef hryssingstíðin gremur geð

þá góðu ráði ég að bý.

Þú hressir sál og huga með;

- heilsudrykk á Kanarí.

Síðan kvað Hólmfríður Bjartmarsdóttir: Ja hérna, þú sem ert svo ung.

Ef þér er á kjúkum kalt

og kvartar eins og gamalt hró.

mun brennivínið bæta allt

bara það sé drukkið nóg.

Sigrún Haraldsdóttir svaraði: Fer strax að þínum ráðum, Fía:

Greiðu renni í gegn um strý,

gríp í flýti tösku,

raunamædd nú ráfa í

Ríkið eftir flösku.

Ólafur Stefánsson skrifar: Langfrægt er kvæði Hannesar um storminn sem á að blása okkur kjarki í brjóst á framfarabraut: „Ég elska þig stormur sem geisar um grund“. Benedikt Gröndal var ekki eins hrifinn og yrkir lofkvæði um lognið:

Ég elska þig logn er við ylríka sól,

hið ilmandi blóm prýðir grænkandi
hól.

Þegar speglandi sjórinn er
spenntur og þaninn

og spóinn í heiðinni talar við
svaninn.

Þetta er aldrei sungið.

„Jósk“ verður Guðmundi Arnfinnssyni að yrkisefni: Sighvatur Björgvinsson fyrrv. ráðherra vill íslenskulegan framburð á verslunarheitinu Jysk:

Í Jysk fer hún Jófríður Ósk,

sem jafnan er sérlega þrjósk,

þangað sækir hún allt,

sem þar er falt,

en Sighvatur verslar í Jósk.

Þorgeir Magnússon yrkir:

Á Selsíusi sólartetur

sýnir aðeins fáar gráður,

nálgast hægan næsti vetur,

nóttin ríkir þá sem áður.