Noregur Óskar Hrafn Þorvaldsson er kominn til Haugesund.
Noregur Óskar Hrafn Þorvaldsson er kominn til Haugesund. — Morgunblaðið/Eggert
xxxxxx

Óskar Hrafn Þorvaldsson var í gær ráðinn þjálfari norska knattspyrnuliðsins Haugesund til loka tímabilsins 2026 en hann tekur við liðinu um næstu mánaðamót, 1. nóvember.

Óskar hætti störfum sem þjálfari Breiðabliks fyrir rúmri viku eftir að hafa stýrt Kópavogsliðinu í fjögur ár.

Hans fyrsta verkefni í Noregi verður að reyna að forða sínu nýja félagi frá falli. Haugesund er sem stendur í 13. sæti af sextán liðum í norsku úrvalsdeildinni í karlaflokki þegar sex umferðum er ólokið. Liðið er stigi á undan Stabæk sem er í umspilssæti og þremur stigum á undan Sandefjord sem er í fimmtánda og fallsæti ásamt Aalesund sem er langneðst.

Þegar Óskar tekur við verður fjórum umferðum ólokið. Haugesund mætir Lilleström á útivelli 5. nóvember í fyrsta leiknum undir hans stjórn, leikur gegn Brann á heimavelli 11. nóvember, Tromsö á útivelli 26. nóvember og mætir loks Stabæk á heimavelli í lokaumferðinni 3. desember.

Mótherjarnir í þremur fyrstu leikjunum eru allir í efri hluta deildarinnar og úrslitin gætu því hæglega ráðist í lokaleiknum.

Ef Haugesund endar í 14. sæti og þarf að fara í umspil gegn liði úr B-deildinni lengist tímabilið fram yfir miðjan desember.