Pálmi Stefánsson
Pálmi Stefánsson
Ofneyslu matarsalts, áti matarsykurs og neyslu drykkja með einsykrunni frúktósa, auk mjólkurþambs á fullorðinsárum, mætti breyta til að bæta mataræðið.

Pálmi Stefánsson

Við hættum að nota götusalt í matinn og enginn dó. Matarsalt er hreinsað NaCl og er unnið úr námum sem steinsalt eða eimaður sjór. Steinsalt er með hærra innihaldi og er íbætt joði og efnum sem hindra kekkjun. Sjávarsaltið er með minna NaCl en urmull annarra snefilsteinefna og talið betra. En það er magnið sem skiptir okkur máli. Yfir 15 g NaCl/dag getur valdið eitrun. Neyslan á Vesturlöndum er margföld þörfin og hefur áhrif á steinefnabúskap líkamans og blóðþrýsting. Það er mjög tilsett í mat, bæði til bragðbætis og rotvarnar. Nota mætti þaramjöl til þess arna og bragðbæta í stað salts.

Hinn heimsfrægi vísindamaður Linus Pauling sagði að maðurinn hefði melt um 300 g á dag af einsykrunni glúkósa í milljónir ára, aðallega úr matarsterkju. Hann taldi að fyrir rúmum 200 árum hefði neysla einsykrunnar frúktósa verið 8 g/dag en ætti ekki að fara yfir 60 g/dag en væri tvöfalt þetta í BNA þegar um 1980. Síðustu 40 árin hefur orðið bylting í ofneyslunni. Bæði frá matarsykri og ísetningu frúktósa í ávaxtasafa, orkudrykki og gos, sem sætuefni og stundum í stað glúkósans sem fer vaxandi. Frúktósi brennur upp í líkamanum sem orkuefni en umframmagn umbreytist í lifrinni í fitu fyrst. Þess vegna er mikilvægt að halda niðri neyslu frúktósa til að fitubrennsla sé eðlileg og fitna ekki.

Ávextir, grænmeti og korn er aðaluppspretta frúktósa. Best er að neyta glúkósans sem sterkju sem leysist upp í glúkósa í meltingunni. Hér hefur kolvetnaneyslan farið algjörlega út af sporinu og á matvælaiðnaðurinn stærsta sök á því hvernig komið er. Kornsíróp er t.d. til sem glúkósi. Hvíti sykurinn er unninn úr sykurreyr eða sykurrófum og er tvísykra og hefur jafnt af glúkósa og frúktósa. Í dag er erfitt að finna unnar vörur eða drykki þar sem honum hefur ekki verið bætt í. Forðast skyldi þessa tvísykru heilsunnar vegna og alls ekki nota hann í teið eða kaffið! Betra væri svart sykurlaust suðusúkkulaði.

Mjólk er vaxtardrykkur spendýra. Maðurinn er eina spendýrið sem fer aðrar leiðir. Fljótt er ungviði mannsins vanið á kúamjólk sem hefur gefist vel en oft haldið áfram mjólkurþambi eftir að það er hætt að vaxa, sem er ekki eins hollt. Um helmingur mannkyns hefur mjólkuróþol, neytir ekki mjólkur og vegnar vel. Það er mjólkurtvísykran laktósi sem klofnar í glúkósa og galaktósa. Síðastnefnda einsykran virðist hafa tilhneigingu til að bindast prótínum sem harðna síðan og valda öldrun og öðrum kvillum og niðurbroti efna. Gerjaðar mjólkurvörur eru hins vegar hollur matur.

Höfundur er efnaverkfræðingur.

Höf.: Pálmi Stefánsson