Alþingi 73 umsagnir höfðu í gær borist þinginu við fjárlagafrumvarpið.
Alþingi 73 umsagnir höfðu í gær borist þinginu við fjárlagafrumvarpið. — Morgunblaðið/Eggert
Hjúkrunarheimili og samtök og stofnanir sem veita velferðar- og endurhæfingarþjónustu þurfa á meiri fjárframlögum ríkisins að halda á næsta ári en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi næsta árs að mati forsvarsmanna. Þetta kemur fram í umsögnum sem borist hafa fjárlaganefnd Alþingis.

Hjúkrunarheimili og samtök og stofnanir sem veita velferðar- og endurhæfingarþjónustu þurfa á meiri fjárframlögum ríkisins að halda á næsta ári en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi næsta árs að mati forsvarsmanna. Þetta kemur fram í umsögnum sem borist hafa fjárlaganefnd Alþingis.

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónusu (SFV) hvetja til að mynda nefndina til að bæta 150 milljónum við vegna svonefndrar hjúkrunarþyngdar, sem felst í að styrkja hjúkrunarheimilin í að þjónusta eldra fólk sem þarf á umfangsmestri umönnun að halda vegna alvarlegra veikinda. Einnig þurfi að bæta við 150 milljóna fjárveitingu með svonefndu smæðarálagi til að styðja við rekstur minnstu hjúkrunarheimila landsins.

Einnig benda SFV á að það vanti a.m.k. 71 milljón kr. í frumvarpið til að styrkja rekstrargrunn dagdvalar á hjúkrunarheimilunum á næsta ári. Þetta stafar bæði af launahækkunum sem samið hefur verið um fyrr á þessu ári og hækkandi verðlagi, sem veldur því að rekstrargrunnur dagdvalar á næsta ári ætti að vera 3.327 milljónir kr., auk þess sem ný dagdvalarrými hafa verið opnuð á árinu og sú þróun haldi líklega áfram.

Fjárframlög ríkisins til hjúkrunarheimila byggjast á skuldbindingum þess í þjónustusamningum og að mati SFV er heildarfjármögnunarþörf hjúkrunarheimilanna á næsta ári tæpir 50 milljarðar króna.

Í fjárlagafrumvarpinu eru tæplega 42,7 milljarðar á rekstrargrunni til heimilanna en fleira kemur til. Eru t.a.m. hækkanir á ársgrundvelli vegna launahækkana í kjarasamningum sem gerðir hafa verið á þessu ári metnar á um 3,1 milljarð króna en launaliður heimilanna hækkaði um rúm níu prósent á yfirstandandi ári vegna kjarasamninga. Fjármagn sem þarf að koma í rekstrargrunn heimilanna á næsta ári vegna verðlagshækkana er auk þess metið á 683 milljónir kr. miðað við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins um 8% verðbólgu. Þá eru ótalin 1,2 milljarða kr. framlög sem samþykkt voru við afgreiðslu fjárlaga yfirstandandi árs til að mæta hækkun daggjalda í tengslum við styttingu vinnuvikunnar í vaktavinnu o.fl. Ákaflega mikilvægt sé að þetta framlag sé tryggt til framtíðar.

Í umfjöllun SFV um einstaka þætti segir að gríðarlega mikilvægt sé að smæðarálagið verði áfram tryggt og jafnframt hækkað m.a. vegna verðlags- og launahækkana. Minnstu hjúkrunarheimilin sem fá þessa fjármuni séu mörg hver í smærri byggðum og rekstur þeirra oft erfiður. Hafa sveitarfélög sem að þeim standa jafnan þurft að leggja þeim til viðbótarfjármagn. „Ef þetta fjármagn verður ekki tryggt áfram mun það leggjast gríðarlega hart á minnstu hjúkrunarheimilin og ógna rekstrarhæfi þeirra,“ segir í greinargerð SFV.

Heildarfjárheimild til endurhæfingarþjónustu í fjárlagafrumvarpinu er tæpir 7,2 milljarðar kr. Fram kemur á yfirliti yfir fjárþörf nokkurra aðildarfélaga SFV að þau þurfi á viðbótarframlögum að halda á næsta ári. Talið er að bæta þurfi 20 milljónum inn í rekstur Seiglunnar, þjónustumiðstöðvar fyrir einstaklinga með heilabilun. Alzheimersamtökin benda á að til að sinna þessari þjónustu þurfi 96 milljónir kr. til reksturs Seiglunnar yfir árið. „Myndast hefur biðlisti í Seigluna sem sýnir hversu mikil þörfin er, í dag eru um 55 einstaklingar á biðlista eftir plássi í Seiglunni,“ segir í umsögn samtakanna.

Stefnir í 520 milljóna halla á rekstri SÁÁ á næsta ári

SÁÁ segja í umsögn að með skerðingu á framlögum á næsta ári stefni í að hallinn á rekstri heilbrigðisþjónustu SÁÁ verði 520 milljónir kr. Það geti að óbreyttu ekki leitt til annars en umfangsmikillar skerðingar á þjónustu. Brýnt sé að 120 millj. kr. tímabundið framlag á yfirstandandi ári verði framlengt.

SFV benda einnig á að 52 milljónir vanti í rekstrargrunn Reykjalundar á næsta ári og Heilsustofnun NLFÍ vanti 29,4 milljónir í reksturinn umfram tillögur frumvarpsins. Að mati SFV þarf sambýlið Hlein a.m.k. sjö milljónir til viðbótar á næsta ári. Þá sé ekki að sjá í frumvarpinu að orðið sé við beiðni Samhjálpar frá í sumar um að framlag til rekstrar Hlaðgerðarkots verði hækkað upp í 300 milljónir á árinu 2024. omfr@mbl.is