Ástgeir Þorsteinsson fæddist 6. september 1950. Hann lést 4. október 2023. Útför fór fram 13. október 2023.
Lífið er strax orðið hljóðlegra án ykkar ömmu. Það var ekkert betra en að fá að gista hjá ykkur. Drekka afa-safa, sitja í stólnum þínum, stelast í tölvuna þína og hlusta á þig segja sögur.
Þú hugsaðir alltaf um mig eins og prinsessu, kallaðir mig alltaf Arnbjörgu og sýndir mér alltaf skilning. Ég óska þess að ég gæti fengið að halda í höndina á þeir bara einu sinni enn og hlusta á lífslexíur frá þér.
Elska þig endalaust elsku afi.
Arnbjörg Ýr.
Kær og góður vinur okkar hjóna hefur nú kvatt og er kominn í Sumarlandið til elsku Öddu sinnar.
Þakklæti og væntumþykja eru okkur efst í huga þegar við minnumst hjónanna Geira og Öddu. Þau voru sem eitt, samstiga í öllu sem þau tóku sér fyrir hendur, skemmtileg, hreinskilin og hress. Þau höfðu hlýlega nærveru og það var virkilega notalegt og gaman að umgangast þau. Við áttum skemmtilegar samverustundir í útilegum, matarboðum, kaffisamsætum og óvæntum bíltúrum út úr bænum.
Við hringdumst oft á til að hittast í mat eða bjóða ýmist heim til okkar eða þeirra. Við gátum rætt um allt milli himins og jarðar og hlegið mikið. Geiri gat verið sérstaklega ráðagóður varðandi margt sem kemur upp í mannlegu lífi. Við áttum sinn smáhundinn hvor hjón og þeir voru einnig góðir leikfélagar og átu mat hvor frá öðrum. Við skiptumst á að passa hundana hvort fyrir annað á meðan Geiri og Adda eða við skruppum til útlanda. Það má segja að við höfum átt sannkallaða hveitibrauðsdaga saman í gegnum þann fjölda ára sem við þekktumst og umgengumst reglulega. Við höfðum öll gengið í gegnum veikindi og gættum þess vandlega að fylgjast með líðan allra.
Við áttum óskráðar skyldur gagnvart hvert öðru og hefðum aldrei brugðist þeim. Þegar við skrifum þessa minningargrein finnst okkur Geiri og Adda fylgjast með okkur og hlæja eða fussa yfir því sem við hripum niður á blaðið.
Kallið er komið,
komin er nú stundin,
vinaskilnaðar viðkvæm stund.
Vinirnir kveðja
vininn sinn látna,
er sefur hér hinn síðsta blund.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
(Valdimar Briem)
Mikið erum við heppin og þakklát fyrir að hafa eignast svona kæra og trygga vini sem Geiri og Adda voru.
Hugur okkar er núna hjá börnunum, elsku Sigurveigu, Línu og Sigga, og fjölskyldum þeirra. Missir ykkar er sár og mikill. Við sendum ykkur öllum innilegustu samúðarkveðjur og hlýja strauma.
Blessuð sé minning Geira og Öddu.
Guðmundur (Gummi) og Katrín (Kata) í Garðabæ.