Einkennandi útlit Alfa Romeo leynir sér ekki jafnvel þótt jepplingnum nýja sé ætlað að marka upphaf nýrra tíma hjá framleiðandanum.
Einkennandi útlit Alfa Romeo leynir sér ekki jafnvel þótt jepplingnum nýja sé ætlað að marka upphaf nýrra tíma hjá framleiðandanum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tonale skaust fyrst fram á sjónarsviðið sem hugmyndabíll á bílasýningunni í Genf árið 2019, þá með sama nafn og nú. Við afhjúpun bílsins sagði forstjóri Alfa Romeo, Tim Kuniskis, að markmiðið væri að bjóða upp á bestu akstursþægindin í…

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

Tonale skaust fyrst fram á sjónarsviðið sem hugmyndabíll á bílasýningunni í Genf árið 2019, þá með sama nafn og nú. Við afhjúpun bílsins sagði forstjóri Alfa Romeo, Tim Kuniskis, að markmiðið væri að bjóða upp á bestu akstursþægindin í stærðarflokknum, en einnig að innleiða rafknúnar drifrásir í bíla framleiðandans við Miðjarðarhafið.

Tonale er ögn smærri en Stelvio-sportjeppinn sem frumsýndur var árið 2016. Hann er því fyrsti smájeppi Alfa Romeo og um leið fyrsti tengiltvinnbíllinn til að koma frá Tórínó undir þessum merkjum.

Úti í heimi fæst gripurinn í þremur útgáfum, Sprint, Ti og Veloce, þar sem sú síðastnefnda er dýrari og betur búin. Að mati Ísbands, sem fer með umboðið hér á landi, á sú útgáfa best við íslenskan markað. Henni fylgja meðal annars ítalskar Brembo-bremsur, hiti og kæling í framsætum, þráðlaus hleðsla fyrir farsíma, regnskynjarar, 360 gráða myndavél, lagningaraðstoð og svo mætti lengi áfram telja.

Fer ekki á milli mála

Von er á fyrsta 100% rafbílnum af færibandinu þar syðra á næsta ári. Á sama tíma stefnir framleiðandinn á að bjóða allt úrval sitt að fullu rafmagnað árið 2027. Segja má að með Tonale sé þessari þróun hrint af stað.

Þungar byrðar eru því lagðar á herðar jepplingsins, enda á hann að marka upphaf mikils umbreytingaferlis fyrir bílaframleiðandann.

Það fer þó ekki á milli mála, þegar maður nálgast bílinn, að hann er frá Alfa Romeo. Umbreytingarnar ná þannig ekki til einkennandi smáa grillsins, sem klýfur framendann niður og ryður númeraplötunni frá þeim stað þar sem hana má yfirleitt finna á bílum annarra framleiðanda.

Framljósin og felgurnar

Því næst hvarfla augun ósjálfrátt að framljósunum, sem er skipt í þrennt sitt hvorum megin með einstaklega skemmtilegum hætti. Ásamt mörgu öðru gefa þau jepplingnum þetta sportlega útlit sem vonast er eftir. Álfelgurnar, með sínum fimm hringjum inni í einum stórum, leika þar einnig stórt hlutverk. Eru þær sagðar vísa í útlit skífusíma sem var þema bíla á árunum í kringum 1960.

Þegar inn er komið tekur þægilegt sæti á móti ökumanni, með stillanlegum mjóbaksstuðningi og sömuleiðis góðum stuðningi meðfram sætinu til að passa að maður fari ekki á flug við keyrsluna.

Bíllinn getur þó sjálfur farið á flug. Framhjóladrifið er knúið 1,3 lítra, fjögurra strokka bensínvél með forþjöppu sem gefur 180 hestöfl. Á hinum öxulnum er svo 121 hestafls, 90 kW rafmótor. Samanlagt fær ökumaður því 285 hestöfl til að notfæra sér.

Vilji hann til að mynda ná 100 kílómetra hraða úr kyrrstöðu þá tekur það einar 6,2 sekúndur. Rafhlaðan er 15,5 kWst og getur náð fullri hleðslu á 2,5 klukkustundum ef notuð er 7,4 kW hleðslustöð.

Akstursstillingarnar: DNA

Velja má úr nokkrum akstursstillingum með snúningshnappi hægra megin við stýrið. D fyrir Dynamic, N fyrir Natural og A fyrir Advanced Efficiency. DNA, sem sagt.

Natural-stillingin sér sjálfvirkt um að stýra jafnvægi bensíns og rafmagns. Rafmótorinn heldur jepplingnum á hægri ferð og bensínvélin bætist við þegar sjálfskiptingin fer í annan gír eða þegar þörf er á meira gripi.

í Advanced Efficiency-stillingu sleppir bíllinn því algjörlega að nota bensínvélina, þ.e. þar til gefið er í botn eða rafhlaðan tæmist. Þá tekur bensínvélin við og bíllinn hagar sér þá eins og venjulegur hybrid-bíll, en notar þó rafmótorinn ívið meira en ef stillt væri á Natural.

Þriðja stillingin, Dynamic, nýtir aflrásina að fullu. Hljóðið þegar gefið er inn minnir mann á, á góðan hátt, að rafvæðingunni er ekki alveg lokið. Mesti krafturinn fæst þegar rafhlaðan er með yfir 80% hleðslu, en Dyniamic-stillingin lætur bílinn hlaða rafhlöðuna þegar ekki er verið að nýta rafmótorinn.

Í gegnum svokallaðan eSave-takka má svo ýmist fyrirskipa bílnum að geyma rafhleðsluna þar til síðar eða láta hann hlaða rafhlöðuna í akstrinum.

Skemmtilegur í akstri

Aksturinn er mjög skemmtilegur. Tonale er afar lipur og aðlögunarfjöðrunin sem fylgir Veloce sér frábærlega um að draga úr þeim höggum sem fylgja holum og hindrunum á vegi. Þá er gaman að geta stillt aksturinn á Dynamic án þess þó að þurfa að færa fjöðrunina úr Comfort-stillingu. Stýrið er síðan einstaklega létt, svo létt að ég hef varla kynnst öðru eins á þó jafn stórum bíl. Brembo-bremsurnar gefa hemlunarvegalengd upp á rúmlega 30 metra þegar ekið er á nærri 100 kílómetra hraða, og skjóta þar helstu keppinautum ref fyrir rass um nokkra metra.

Auðvelt að slökkva á hjálpinni

Tonale er eins og aðrir nýir bílar búinn akreinavara, sem grípur inn í þegar hann telur ökumann nálgast veglínur um of. Sem betur fer þarf aðeins að styðja á einn takka í upphafi hvers aksturs til að slökkva á þessu hjálpartæki, sem að minni reynslu er oftar til trafala en aðstoðar.

Bak við stýrið er skýr og góður 12,3 tomma skjár með mælaborði, sem stilla má á þrjá vegu eftir því hvað reynist fegurra og hvaða upplýsingar viðkomandi telur nauðsynlegt að hafa við höndina.

Fyrir miðju er svo 10,3 tomma skjár sem tengja má þráðlaust við farsíma bæði með Android Auto og Apple CarPlay. Eiginleiki sem ég sakna fljótt þegar komið er í eldri bíla eða þá nýja bíla sem ekki eru enn búnir þessari tækni.

Valmyndin á skjánum er þó minni en ég hef átt að venjast, svo að stundum er þörf á að miða vel með fingrinum vilji maður eiga eitthvað við kerfið á ferð. Vel fer um alla í sætunum og ágætt pláss bæði frammi í og aftur í. Langt ferðalag með þrjá fullorðna aftur í kann þó ekki að reynast mjög þægilegt. Farangurshólfið rúmar svo 385 lítra, en að sjálfsögðu má fella sætin niður.

Eftirminnilegt hljóðkerfi

Ekki er hægt að ljúka þessari yfirferð án þess að nefna einn eftirminnilegasta kost bifreiðarinnar, en Veloce-útgáfunni fylgir fjórtán hátalara hljóðkerfi frá Harman Kardon, sem er hreint út sagt frábært.

Unnendur hvers kyns tónlistar ættu að geta notið sín virkilega vel í þessum bíl.

Alfa Romeo Tonale

285 hestöfl / 520 Nm

Fjórhjóladrifinn

0-100 km/klst. á 6,2 sek.

Eigin þyngd: 1.875 kg

Farangursrými: 385 lítrar

Verð: 10.940.000 kr.

Umboð: Ísband

Höf.: Skúli Halldórsson