Stefán E. Stefánsson
ses@mbl.is
Á fimmta áratug síðustu aldar setti Albert Einstein, ásamt samstarfsmanni sínum að nafni Nathan Rosen, fram þá kenningu að svarthol gætu myndað tengingu í annan alheim en þann sem við tilheyrum. Með sömu rökum hefur því verið haldið fram að með svokölluðum ormagöngum megi tengja saman tvo staði innan okkar eigin alheims. Standist kenningin má hugsa sér að fara inn í svarthol á einum stað og koma út á fjarlægum stað í alheiminum á örskotsstundu og jafnvel aftur í tímann um leið.
Á miðvikudaginn síðasta tókst mér, á ónefndum vegarspotta, að sanna tilvist ormaganga. Ég sver það. Á örskotsstundu ferðaðist ég milli staða og færðist til í tíma og rúmi um leið. Tilfinningin var í senn óhugnanleg og stórkostleg.
Og nei. Þessi upplifun tengist ekki sveppanotkun. Hef aldrei lagt mér slíkt til munns, nema bara Flúðakúlurnar og einstaka kantarellasvepp, sem mér finnst alltaf jafn ólystugir. Það er hins vegar von að þú spyrjir, lesandi góður.
Upplifunin tengist hins vegar bíl sem ég hef fengið að máta mig við síðustu tvær vikurnar. Hann kemur úr smiðju Elons Musk og félaga hjá Tesla og nefnist S Plaid. Hann er í grunninn byggður á hinni upprunalegu hönnun frá árinu 2012 en á þrátt fyrir það lítið skylt við fyrirrennara sína. Fyrir því eru ýmsar ástæður.
Þríforkur
Sú helsta er aflið sem bíllinn býr yfir. Það á sér í raun ekki hliðstæðu á almennum bílamarkaði. Það helgast af þremur mótorum sem ég kýs að kalla þríforkinn. Þannig er bíllinn knúinn áfram með einum mótor sem leiðir afl sitt út í framdekkin og tvo sem vinna með aftari hlutann. Að framan gefur mótorinn 421 hestafl en þeir að aftan eru litlu aflminni með 414 hestöfl hvor. Samanlagt skila þessir mótorar 1.020 hestöflum. Það er sturluð staðreynd og veldur því að bíllinn, sem vegur ríflega 2,6 tonn, minnir fremur á geimflaug en bíl þegar honum er gefið hressilega inn. Tölurnar tala enda sínu máli. Hann er aðeins 2,1 sekúndu í 100. Til samanburðar er Porsche Taycan Turbo S 2,6 sekúndur að leysa sama verkefni. Hljómar ekki sem stórkostlegur munur en sé það sett upp í prósentureikningi er munurinn þó 24%!
En hafa menn eitthvað við allt þetta afl að gera? Að sjálfsögðu ekki. Enda á spurningin ekki að snúast um það. Þegar hröðunin er komin undir 4-5 sekúndur snýst þetta miklu fremur um töfra eða ólýsanlega tilfinningu. Fram til þessa hef ég getað yljað mér við tilfinninguna sem hríslaðist um líkamann þegar ég tók fyrrnefndan Porsche af fullu afli með „Launch Control“-aðferðinni og sló í 100 á 2,6 sekúndum. Og það er ógleymanlegt. En hröðunin á S Plaid er af öðrum toga. Eiginlega þannig að það er ekki hægt að lýsa henni. Kannski verður það þó best gert með því að undirstrika að líffærin verða eftir þegar tekið er í „gikkinn“ – þau beinlínis þrýstast aftur í bakið og seytla svo rólega í átt að sínum rétta stað þegar hröðunarferlinu er lokið.
Slógum heimsmet með kókómjólk
Sonur minn einn hefur mikið gaman af hraðskreiðum bílum og vill gjarnan prófa þá með pabba sínum þegar færi gefst. Það er sjálfsagt að verða við því en að þessu sinni vildi hann gæða sér á kókómjólk á meðan við reyndum bílinn. Þar slógum við heimsmet. Barnið drakk heila fernu (250 ml) á 2,4 sekúndum og sagðist varla hafa fundið bragð af henni. Hann var alsæll og veit að það er fágætari lífsreynsla að upplifa 1.020 hestöfl en að drekka mjólkina hans Kela.
En bíll er ekki bara hraðinn sem hann nær eða hröðunin að settu marki. Síst af öllu á landi þar sem hámarkshraðinn er 90 og allir aka á vinstri akrein þar sem tvær eða fleiri eru í boði. Hraðinn skiptir máli, snerpan gerir það víðast hvar, en svo eru það aðrir þættir sem hafa áhrif á akstursupplifunina og það að ferðast milli staða á skemmtilegan hátt. Hér eru nokkur dæmi sem mig langar að tiltaka.
Innanstokkurinn
Sætin í Plaid S eru afar þægileg og þótt þau hafi ákveðinn „körfueinkenni“ þá eru þau fyrst og síðast mjúk um leið og þau halda vel við. Það tekur dálítinn tíma að venjast höfuðpúðanum sem er kúptur og heldur því mjög ákveðið við hnakkann þar sem hann þrýstist út, en gefur ekki heildarviðnám. Hann er því sportlegur og öðruvísi. Innanstokkurinn er annars klæddur í leður og grátt og svart karbon-fíberefni. Allt er það stílhreint og mínimalískt eins og Musk og félögum er best lagið.
Skjárinn – hið eiginlega stjórnborð þar sem skipanir eru gefnar um hvort aka skuli fram eða aftur, eða leggja bílnum er stór og bjartur og heldur áfram að gefa eins og í fyrri útfærslum. Honum er hægt að beina beint fram eða í átt að bílstjóra eða farþega í framsæti. Allt í umgengni við skjáinn er úthugsað og þægilegt, hvort sem það tengist tengingu við síma, leiðsögukerfi (sem styðst við Google) eða aðrar hagnýtar (og ekki) upplýsingar. Úr þessum skjá, sem er 17 tommur, má svo stýra skjá í millistokki framan við aftursæti og hann er dýrðlegur – að mati sumra. Í gegnum YouTube, Disney eða Netflix, svo dæmi séu tekin má tryggja farþegunum aftur í frábæra afþreyingu sem haldið getur yngstu meðlimum fjölskyldunnar vakandi eftir langan skóladag eða stytt stundir á lengri ferðalögum. Þessir skjáir eru að verða alkunna hjá Tesla (meira að segja í Þristinum) og hljóta að verða staðalbúnaður í flestum ef ekki öllum bílum áður en langt um líður. – Þá þarf fólk ekki að punga út milljónum á milljónum ofan fyrir skjái í höfuðpúða framsætanna. Slíkur þankagangur bílaframleiðenda minnir helst á afþreyingarkerfi ónefndra flugfélaga þar sem helst má frétta af Rick Blaine í Casablanca eða hinni hugprúðu og ráðagóðu Stellu í orlofi.
Skottið á bílnum er drjúgt og ekki. Það er djúpt og nýtist vel sem síkt en hinn ofurstraumlínulagaði afturhluti bílsins, sem er mjög fallegur og vel heppnaður, veldur því að erfitt gæti reynst að koma stærstu driverunum frá Titlest fyrir í skottinu, nema koma þeim sérstaklega haganlega fyrir. Lesendur athugi þetta.
Augljóslega dreki
Að utanverðu er bíllinn að sönnu afar sportlegur og að mínu mati miklu skemmtilegri en t.d. Þristurinn og Y. Hönnunin er flóknari og brotin upp með skörpum línum en í hinum týpunum og það gerir bílinn á einhvern hátt veglegri. Sem hann auðvitað er þegar litið er til vélarafls, lúxuss og … verðmiðans.
Það er unun af því að fást við Tesla þegar kemur að fjarstýringu búnaðarins. Snjallforritið í símanum er snilld og mér hefur m.a. tekist að bregða fjölskyldumeðlimum þar sem þeir væflast um bílastæðið en ég sit í sófanum inni. Það er nefnilega hægt að stýra flautunni í bílnum úr símanum. En meira er hægt. Auðvelt er að fylgjast með hleðslustöðu bílsins, kveikja á honum, koma innanrýminu í rétt hitastig og miðstöðin er reyndar frábær. Hún notar ekki aðeins loftdæluna til þess að koma hlutum í þægilegt horf. Stýrishitinn spilar þar eðlilega rullu og sætin öll í bílnum sem bæði geta kælt og hitað eftir þörfum.
Bíllinn er á loftpúðafjöðrun sem gerir hann að mjúkri dúnsæng þegar svo ber undir en fjöðrunina má stilla með tilliti til undirlags og akstursmarkmiðs á hverjum tíma. Fjöðrunin gerir það einnig mögulegt að hækka bílinn sem ekki er vanþörf á við íslenskar aðstæður. Ég bý reyndar í Urriðaholti í Garðabæ og þar hafa yfirvöld einsett sér að hraðahindranirnar verði eins og eyjarnar á Breiðafirði, vötnin á Arnarvatnsheiði og hólarnir í Vatnsdalnum – óteljandi! Það gæfi Garðabæ fyrsta og eina tækifærið til að komast í heimsmetabók Guinness.
Bíllinn snýr á aðstæður
Þessar hraðahindranir gera hins vegar gagn. Þær hægja á allri umferð en þar á S krók á móti bragði. Hægt er að stilla bílinn þannig að hann muni hvar hann skuli hækka sig á ákveðnum stöðum. Þannig er aksturinn hjá mér orðinn líkastur fimum grindahlaupara hér í hverfinu. Bíllinn hækkar sig og lækkar og étur hindranirnar nokkuð auðveldlega (án þess þó að maður sé að aka óvarlega – þetta snýst um þægindin og traust til þess að bíllinn rekist ekki upp undir).
Margt mætti fleira nefna til sögunnar, sem erfitt getur reynst í stuttri blaðagrein. Þó langar mig til að nefna glerþak bílsins sem er bæði með UV-vörn og vörn gegn infrarauðum geislum (maður verður sennilega ekki brúnn á því að sitja lengi inni í honum). Þakið er glæsilegt og setur skemmtilegan svip á bílinn að innan sem utan. En það sem er flottast við þetta þak er að regndropar sem leggjast yfir bílinn verða blóðrauðir og minna helst á Rosé de Saignée-kampavín áður en þeir fljúga af þegar tekið er af stað. Svona geta litlu hlutirnir glatt – og gert það óvænt.
Það finnast fáir veikleikar á Tesla S Plaid. Bíllinn er sannkallað yfirburðatæki. Þó verð ég að nefna, líkt og ég gerði í fyrri greinum um nýja Þristinn, að sú hugmynd að hafa stefnuljósastýringuna í stýrinu sjálfu er ekki aðeins brjálæðisleg heldur heimskuleg um leið. Hún mun valda slysum enda þegar eina raunverulega þörfin fyrir notkun stefnuljósa kemur upp (sem er í miðju hringtorgi) er búið að vinda upp á stýrið og þú veist ekkert hvorn takkann eigi að þrýsta á – og það kemur raunar ekki að sök því þú finnur ekki einu sinni takkana. Þú ert líklegri til að hækka eða lækka í útvarpinu en að geta gefið greinargóð svör um það hvort þú stefnir út úr torginu eða ætlir að halda þig þar áfram.
Niðurstaða
Enginn rafbíll stenst Tesla S Plaid með þríforkinn að vopni snúning. Enn á ný slær Elon Musk og liðið hans nýjan tón og færir okkur nær nýrri tækniöld í bílsmíði. Þegar krafturinn er orðinn slíkur að maður upplifi sig ferðast handan tímans þá hefur vel tekist til. Mikið hefði verið gaman að taka rúnt með Einstein á þessum bíl. Skemmtilegra en góðum félaga sem ég bauð í hádegisverð og bíltúr nýverið. Síðdegis hringdi hann og sagði: „Ég ætlaði að hringja og þakka þér fyrir matinn. En það tekur því ekki. Hann er löngu meltur eftir þessa svaðilför.“ Þetta var þó að minnsta kosti hádegisverður sem aldrei gleymist.
Tesla S Plaid Tri Motor AWD
1.033 hö. / 760 kW
Fjórhjóladrifinn
Stærð rafhlöðu: 100 kWst.
Drægni: 600 km (WLTP)
0-100 km/klst. á 2,1 sek.
Hámarkshraði: 282 km/klst.
Eigin þyngd: 2.629 kg
Farangursrými: 709 l/1828 l
Verð frá: 15,8 milljónir
Verð á prufuðum bíl: 16,7 milljónir
Bílaumboð: Tesla