Páll Björgvin Kristjánsson fæddist í Reykjavík 8. október 1951. Hann lést 30. september 2023 á Heilbrigðisstofnun Suðurlands eftir veikindi. Foreldrar eru Kristín Ólafsdóttir, f. 1931 og Kristján Árnason, f. 1929, d. 1993.

Páll Björgvin ólst upp í Reykjavík hjá móður sinni og stjúpföður, Guðjóni Heiðari Jónssyni, f. 1932. Systkini Páls Björgvins eru Ólafur Guðjónsson, f. 1957, Auður Heiða Guðjónsdóttir, f. 1959 og Drífa Guðjónsdóttir Plank, f. 1964. Eiginkona hans er Maria Rubiela Ruiz Arango, f. 1954. Börn Páls Björgvins og Rubielu eru Juan David, f. 1991, Yenny Lucia, f. 1993, Edy Tatiana, f. 1995, Mayra Alejandra, f. 1997 og Daniela, f. 1998.

Páll Björgvin, eða Palli eins og hann var alltaf kallaður, gekk í Hlíðaskóla og Lindargötuskóla og var auk þess veturinn 1969-1970 skiptinemi í Bandaríkjunum. Hann stundaði nám við öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð og flugnám í Flugskóla Helga Jónssonar og öðlaðist atvinnuflugmannsréttindi. Hann hóf störf hjá Flugleiðum í kringum 1977. Síðar fékk hann flugkennsluréttindi og einnig meirapróf.

Páll kynntist Rubielu árið 1995 á Hótel Örk. Þau hófu sambúð í Borgarheiði árið 1996 og gengu svo í hjónaband hjá Sýslumanninum á Selfossi árið 1998. Í mars 1999 giftu þau sig í kaþólskri kirkju í Kólumbíu.

Barnabörn hans eru Michael Daniel, León Angel, Natalía Ósk, Manel Páll, Camilla Luna og það sjötta er á leiðinni. Helsta áhugamál hans var sundið, en hann missti varla úr dag, árum og áratugum saman.

Útför hans fór fram 6. október 2023.

Elsku pabbi Palli, þakklæti er okkur efst í huga þegar við tölum um þig. Þú ert ástæðan fyrir því að við systkinin komum til Íslands.

Við erum svo þakklát fyrir þessar ófáu sundferðir okkar, þú kenndir okkur að synda, þú kenndir okkur að lesa, þú kenndir okkur að hjóla og þú kenndir okkur flestallt sem við kunnum í dag.

Þú gafst þér alltaf tíma til þess að sinna okkur og eyða tímanum þínum með okkur. Fyrir þig var þetta kannski eins og hver annar dagur en fyrir okkur var þetta barnæskan okkar.

Þú tókst okkur að þér eins og þín eigin börn, sem er alls ekki sjálfgefið og fyrir það verðum við alltaf þakklát!

Við munum halda minningunni þinni lifandi og segja börnunum okkar, barnabörnunum þínum, sögur af þér.

Við munum hugsa vel um mömmu og passa vel upp á hana.

Nú eru þið Raggi sameinaðir á ný og ég trúi ekki öðru en að þið séuð að skála eins og í gamla daga.

Hvíldu í friði, við elskum
þig og munum sakna þín, sjáumst aftur þegar okkar tími kemur.

David, Yenny, Edy,
Mayra og Daniela.