— Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tvöföld lyklaskipti voru í ráðuneytum landsins í gær eftir að Bjarni Benediktsson fráfarandi fjármálaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fráfarandi utanríkisráðherra skiptust á ráðherraembættum um helgina á ríkisráðsfundi á Bessastöðum

Tvöföld lyklaskipti voru í ráðuneytum landsins í gær eftir að Bjarni Benediktsson fráfarandi fjármálaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fráfarandi utanríkisráðherra skiptust á ráðherraembættum um helgina á ríkisráðsfundi á Bessastöðum.

Lá leið Bjarna fyrst í utanríkisráðuneytið kl. 13, þar sem Þórdís Kolbrún tók á móti honum og afhenti honum lyklana að ráðuneytinu. Sagði Bjarni við mbl.is að hið nýja verkefni legðist mjög vel í sig, þar sem hann tæki við mjög öflugu og vel mönnuðu ráðuneyti. Þá væri brýnt að rödd Íslands heyrðist skýrt á þeim umbrota- og átakatímum sem nú væru í heiminum.

Hinn nýi utanríkisráðherra tók svo á móti Þórdísi Kolbrúnu í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og afhenti henni lykilinn að ríkiskassanum. Þórdís sagði það forgangsverkefni sitt að klára söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka, og að það skipti máli fyrir ríkissjóð að andvirði eignarhaldsins nýttist í þarfari verkefni.