Ingibjörn Tómas Hafsteinsson fæddist á Sveinsstöðum við Nesveg 2. júlí 1944. Hann lést á Landspítalanum 30. september 2023.

Foreldrar hans voru Guðný Hulda Steingrímsdóttir, f. 14. ágúst 1924, d. 13. janúar 2013, og Hafsteinn S. Tómasson, f. 27. febrúar 1922, d. 27. maí 1967.

Systkini Ingibjörns eru María Gunnhildur, f. 1950, Sverrir, f. 1955, Ásmundur, f. 1957, og Hulda, f. 1958.

Ingibjörn kvæntist 24. maí 1969 Hildi Kristjánsdóttur, f. 14. október 1950. Börn þeirra eru: 1) Stúlka, nefnd Hafdís, f.d. 30.10. 1968. 2) Hafsteinn, f. 17 október 1970, kvæntur Þórönnu Rósu Ólafsdóttur, f. 25. júlí 1971. Börn: Tómas Þorgeir, f. 1994, og Davíð Ingi, f. 2003. 3) Kristján Örn, f. 14. ágúst 1973, kvæntur Helgu Kristjánsdóttur, f. 11 október 1979. Börn: Hildur Jóhanna, f. 2000, Kristján Hrafn, f. 2008, og Árdís Hólmfríður, f. 2013. 4) Stúlka, nefnd Ingibjörg, f.d. 20. mars 1976. 5) Ingibjörn, f. 7. febrúar 1981, kvæntur Evu Ásmundsdóttur, f. 14. september 1978. Börn: Kristófer, f. 1997, Sara Ósk, f. 2000 (sonur hennar er Valdemar f. 2022), Emma Karítas, f. 2009, og Birna Dís, f. 2014. 6) Guðný Hulda, f. 12. apríl 1983, gift Kristni V. Kjartanssyni, f. 9. júlí 1980. Börn: Viktoría Hildur, f. 2007, og Emilía Katrín, f. 2011.

Ingibjörn ólst upp í Vesturbænum í faðmi stórfjölskyldunnar á Sveinsstöðum þar til foreldrar hans fluttu að Kaplaskjólsvegi 64, í fallegt og reisulegt hús sem þau byggðu. Hann stundaði fótbolta hjá KR sem barn og unglingur og studdi sitt lið alla tíð. Hann hafði áhuga á bridge og stofnaði bridgeklúbb árið 1965 með Halldóri vini sínum. Þeir félagar starfræktu þennan klúbb saman með félögum sínum allt hans líf. Hann vann ýmis störf sem ungur maður, m.a. í Fiskiðjuverinu og Slippnum allt þar til hann hóf störf í Matvörumiðstöðinni við Laugalæk árið 1963 og þar fann hann lífsstarfið. Í framhaldi af þessu opnaði hann matvöruverslun í Suðurveri árið 1966. Verslunin hét í upphafi Hamrakjör og síðar Kjötbúð Suðurvers eftir að hann keypti þann rekstur. Eftir að hann seldi fyrirtækið árið 1999 gerðist hann dagpabbi eins barnabarns síns og ári síðar hóf hann störf hjá Samkaup, fyrst í Vesturbergi og síðar í Hafnarfirði.

Ingibjörn var virkur í Kaupmannasamtökum Íslands og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum og var m.a. formaður Félags matvörukaupmanna og hann var sæmdur æðsta heiðursmerki samtakanna 1994. Þegar hann var kominn á eftirlaun tók hann þátt í starfi lávarðadeildar samtakanna.

Hann var ákafur veiðimaður og veiddi aðallega lax hin síðari ár og vann um skeið sem leiðsögumaður veiðimanna. Hann var einnig mjög áhugasamur um fugla og afar fróður um þá og naut þess að fræða barnabörnin. Auk þessa byggði hann sér og fjölskyldunni sumarbústað í Grímsnesi þar sem hann stundaði skógrækt.

Útför Ingibjörns fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag, 16. október 2023, klukkan 13.00.

Árið 1996 varð ég 17 ára. Það sumar fékk ég starf á skrifstofu eftir mörg góð sumur í sveitinni en ég hafði líka aðeins fengið að kynnast unglingavinnunni í Grafarvoginum. Ég stækkaði um mörg númer þetta sumar og starfaði sem innisölumaður hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavík. Mamma var handan við hornið því hún vann þarna líka við fræðslu og vöruþróun. Eins og allt nýtt var brekka að koma sér inn í nýja hlutverkið, eiga samskipti við afgreiðslu og dreifingu og taka niður pantanir hjá kaupmönnum í gegnum síma. Þeir voru jafn mismunandi og þeir voru margir. Einhverjir voru búnir að skrifa niður það sem þá vantaði og gátu lesið upp vörunúmer og fjölda og ég sló inn jafnóðum, aðrir voru með langa símasnúru eða síma í mjólkurkælinum og þuldu upp það sem vantaði eins og augun greindu, einhverjir létu mig bíða meðan þeir skutust inn í kæli til að taka niður pöntun og lásu svo upp og óþægilega mörgum þótti sniðugt að klæmast við ungu stúlkuna. Mér þótti miserfitt að eiga við þessa kaupmenn. Ég held ég hafi kynnst þeim flestum þetta sumar því ég skiptist á að leysa fastráðna sölumenn af í sumarfrí. Þegar ég leysti drottninguna Rannsý af komst ég að því að á hennar
úthringilista var kaupmaður sem var frábrugðinn öðrum. Þessi stóð upp úr og ég vissi að þegar hann svaraði fékk ég heiðarlegt, glaðlegt og gott viðmót og pöntunin var alltaf klár. Ef hann þurfti að teygja sig eftir henni flautaði hann stundum og svo var hann afburðakurteis herramaður! Það var hápunktur dagsins að hringja í hann og ég hugsaði oft með mér, bara ef allir kaupmenn væru svona! Þetta var kaupmaðurinn í Þinni verslun Suðurveri, Ingibjörn T. Hafsteinsson.


Starfsframi minn hélt áfram og ég vann á Sólbaðsstofu Grafarvogs á kvöldin og um helgar meðan ég var í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Veturinn 1997-1998 fór flokkur drengja úr Breiðholtinu að stunda ljósin í Grafarvogi. Það var töffaraorka og glens sem fylgdi þeim. Eitt kvöldið þegar ég var á vakt var mér boðið í partí hjá einum töffaranum. Ég var ekki á því að fara en lét tilleiðast og mætti í partí á Otrateig ásamt sólbaðsstofuvinkonu. Það var eitthvað við strákinn sem hélt partíið, ég fann strax hvað hann var heiðarlegur og traustur þó hann hafi verið töffari að segja brandara. Hann var eitthvað annað! Við féllum fljótt hvort fyrir öðru og skömmu síðar komst ég að því að flotti kaupmaðurinn í Suðurveri væri pabbi hans. Eplið féll ekki langt frá þessari eik!


Ég varð svo lánsöm að fá að kalla Ingibjörn Bjössa tengdapabba og vera tengdadóttir hans. Mér fannst ég hafa lært margt um náttúruna í sveitinni en Bjössi tók það á annað stig. Hann hafði mikinn áhuga á íslenskum fuglategundum sem smitaðist til mín og barnanna minna og er ástæðan fyrir öllum fóðurboxunum úti í garði sem sonur hans sinnir af mikilli natni. Hann elskaði gróður og ég lærði margt um tré og ýmsar plöntutegundir, hvernig þær fjölga sér og að það er ekki sjálfsagður hlutur að fella tré og plöntur því þær eru lifandi verur. Hann var mikill veiðimaður og fékk mig til að búa til skráningarskjal yfir veiði á svæði sem hann sá um og var mikið í mun að kenna okkur Kristjáni og krökkunum til verka í stangveiði. Bjössi var líka alltaf flottur til fara og þegar Kristján Hrafn var lítill vildi hann helst vera í afa Bjössa fötum þ.e. fínum buxum, skyrtu og vesti eða jakkapeysu yfir. Hann
var mikill matgæðingur og lét skýrt í ljós þegar honum fannst ég hafa farið út af sporinu í matseld eins og þegar ég gerði heilsuköku úr berjum og gaf honum slepjulegan reyktan rauðmaga. Hann og Hildur tengdamamma voru mér mikill stuðningur þegar ég gekk í gegnum erfið veikindi 2016, þá fékk ég að vera með honum að skipta um hurðir í Vesturberginu, horfa á Barnaby ræður gátuna og drekka kamillute. Umfram allt var hann strangheiðarlegur, traustur herramaður sem hafði sterka réttlætiskennd og elskaði fjölskylduna sína ofurheitt.


Elsku tengdapabbi, í dag fylgi ég þér til hinstu hvílu. Þú auðgaðir líf mitt á svo margan hátt og fyrir það er ég þakklát. Þín verður ævinlega saknað og minnst með hlýhug. Hvíldu í friði.

Umhyggju og ástúð þína
okkur veittir hverja stund.
Ætíð gastu öðrum gefið
yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta,
gleðin bjó í hreinni sál.
Í orði og verki að vera sannur
var þitt dýpsta hjartans mál.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)



Þín tengdadóttir,

Helga Kristjánsdóttir.