Hrátt „Sem fagurfræðilegar bókmenntir er Pálmavínsdrykkjumaðurinn ekki merkilegt verk,“ segir í rýni um bók eftir Amos Tutuola.
Hrátt „Sem fagurfræðilegar bókmenntir er Pálmavínsdrykkjumaðurinn ekki merkilegt verk,“ segir í rýni um bók eftir Amos Tutuola.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skáldsaga Pálmavínsdrykkjumaðurinn ★★½·· Eftir Amos Tutuola. Janus Christiansen þýddi. Angústúra, 2023. Kilja, 152 bls.

Bækur

Einar Falur Ingólfsson

Sögumaður Pálmavínsdrykkjumannsins segist í byrjun frásagnarinnar hafa frá tíu ára aldri verið „sérlega laginn pálmavínsdrykkjumaður“ og hafa drukkið pálmavín allan liðlangan daginn og nóttina á enda. Faðir hans gaf honum pálmaekru með alls 560 þúsund pálmatrjám og tappaði sérfróður pálmavínstappari af þeim 150 kerjum af pálmavíni á hverjum morgni. Svalg sögumaður innihald þeirra allra daglega ásamt vinum sínum. Skiljanlega var það því áfall þegar þessi góði pálmavínstappari datt eftir 15 ár í vinnunni niður úr tré og lést og réðst sögumaðurinn þá í ferðalag, og það æði strembið, til að hafa uppi á tapparanum góða í þorpi hinna dauðu. Um það ferðalag fjallar frásögnin sem er sögð í belg og biðu og vægast sagt í miklum ævintýra- og ýkjustíl.

Þýðandi sögunnar, Janus Christiansen, gerir grein fyrir höfundinum og verkinu í ágætum formála. Amos Tutuola (1920-1997) var nígerískur rithöfundur sem mun hafa samið bækur í anda munnmælasagna Jórúba-samfélagsins, eins fjölmennasta þjóðarbrots Nígeríu. Tutuola ólst upp við fátækt og menntunarskort og starfaði sem járnsmiður þegar hann skrifaði rúmlega þrítugur að aldri þessa sögu og mun hafa lokið við hana á aðeins nokkrum dögum. Janus segir bókaútgáfuna Faber & Faber hafa fengið handritið árið 1951 og hafi það verið gefið út nánast óbreytt í Bretlandi og Bandaríkjunum á árunum þar á eftir. Þriðja bókin í þessari fínu áskriftarröð forlagsins Angústúru var hin fræga og merka skáldsaga landa Tutuolas, Allt sundrast eftir Chinua Achebe, sem kom út 1958 og hefur verið sögð fyrsta skáldsaga innfædds Afríkumanns sem gefin var út á Vesturlöndum. Janus segir ástæðu þess að Pálmavínsdrykkjumaðurinn hljóti „sjaldnar þessa nafnbót [sé] líklega sú að form sögunnar fellur ekki sérlega vel að nútímaskáldsögunni“ (11).

Sagan gerist í goðsögulegum heimi á sléttum og í frumskógum Afríku þar sem sögumaður heldur upp í ferðalag, sem er svo sannarlega klassískt söguefni allra tíma, og á vegi hans og konunnar sem hann gengur að eiga á leiðinni eru heldur betur hættur og alls kyns erfiðleikar, og ímyndunaraflinu virðast fáar skorður settar. Óöguð en gáskafull frásögnin flæðir áfram, með röð ævintýra sem eru misvel tengd, mörg æði grimm og hrottaleg, og tekur ferðalagið allmörg ár. Á stundum er eins og hrært sé saman Grimmsævintýrum og þvælingi Dons Kíkóta, söguspuna barna, Ódysseifskviðu og fjarstæðukenndustu íslensku þjóðsögunum, og þær staðsettar í furðuheimum Afríku þar sem risar, forynjur og sundurtættir uppvakningar gera hetjunni lífið leitt.

Þegar sögumaðurinn heldur af stað úr þorpi föður síns að leita að þorpi hinna dauðu, þá tekur hann aðeins með sér nokkra djúdjúgripi sem gera honum kleift að umbreytast á hættustundum og bjarga þeir honum mörgum sinnum úr hættu. Nokkrum sinnum þarf sögumaður að leysa þrautir til að fá upplýsingar um það hvar pálmavínstapparann látna sé að finna – til að mynda þarf hann að finna Dauðann og leika á hann. Þá lendir sögumaðurinn í hremmingum vegna manns sem virðist fullmótaður en er í raun aðeins hoppandi hauskúpa sem fær aðra líkamshluta að láni, og barn sem þau hjón taka að sér þenst út og gleypir í sig allt mögulegt í umhverfinu og er til mikilla vandræða. Í einu ævintýrinu koma þau svo til „Himnaþorps hinna óafturkvæmu“ og eru beitt þar af grimmum verum djöfullegu ofbeldi – „… áður en þeir rökuðu af okkur hárið, bundu þeir okkur með þykku reipi upp við eina hallarsúluna. Þegar mesta hárið var farið af losuðu þeir örlítið um reipið og brugðu sér frá til að mala pipar, komu svo aftur með piparinn og nudduðu honum í hársvörðinn á okkur, báru eld að þykkum klæðisbút og bundu hann um höfuðið á okkur þannig að eldtungurnar snertu okkur næstum því. Þegar hér var komið sögu vissum við ekki hvort við værum lífs eða liðin, við gátum ekki varið á okkur höfuðið því við vorum bundin á höndum við súluna. Rétt um hálftíma eftir að þeir báru eld að höfðinu á okkur fjarlægðu þeir klæðisbútinn og fóru að skrapa hársvörðinn á okkur með stórri sniglaskel þannig að við vorum alþakin sárum á höfðinu …“ (78). Og þetta er bara hluti af pínslunum, en hjónin sluppu að lokum, kveiktu um nóttina í strákofum hrottanna „og áður en þorpsbúarnir náðu að vakna höfðu húsin brunnið til ösku og með þeim um níutíu prósent íbúanna og öll börnin“. Og allt fer (nokkuð) vel að lokum þegar sögumaður snýr aftur sem hetja, eins og algengt er í ævintýrum sem þessum.

Eins og Janus bendir á í formálanum var Tutuola gagnrýndur af menntafólki í Nígeríu fyrir „lélegt málfar og ófrumleg skrif“ og þótti gefa fordómafullum hugmyndum Evrópubúa um Afríku byr undir báða vængi. Enska sem höfundurinn beitir er svo sannarlega brotakennd en hæfir líka efninu með athyglisverðum hætti, og við lauslegan samanburð má sjá að Janus nær vel að skila anda frásagnarinnar og flæðinu í einföldu og á stundum bjöguðu málfarinu skemmtilega á íslensku.

Sem fagurfræðilegar bókmenntir er Pálmavínsdrykkjumaðurinn ekki merkilegt verk, afar laust í reipunum og óagað, svo minnir oft á frásagnir barna sem spinna upp ævintýri. En þar er líka falinn viss styrkleiki hrárrar sögunnar, þessa brautryðjandaverks í Afríku; óheft frásagnargleðin og grimmileg ævintýrin með öllum furðuverunum og áskorunum sem söguhetjurnar þurfa að sigrast á.