Haukar fóru upp í þriðja sæti úrvalsdeildar karla í handbolta með 27:23-heimasigri á Aftureldingu í sjöundu umferðinni á Ásvöllum í gærkvöldi. Eru Haukar nú með tíu stig, en Afturelding með níu í fjórða sæti.
Var leikurinn jafn og spennandi nánast allan tímann, en Haukar reyndust sterkari í lokin.
Haukamenn hafa verið á góðri siglingu, eftir hæga byrjun, og var sigurinn sá fjórði í röð hjá Hafnarfjarðarliðinu. Bikarmeistarar Aftureldingar hafa nú leikið tvo leiki í röð án þess að fagna sigri.
Virðast bæði lið ætla að verða í toppbaráttu í vetur, en Haukar eru nú tveimur stigum frá toppliði Vals, sem á leik til góða.
Guðmundur Bragi Ástþórsson átti afar góðan leik fyrir Hauka og skoraði átta mörk. Adam Haukur Baumruk bætti við fimm mörkum fyrir heimamenn. Aron Rafn Eðvarðsson stóð vaktina vel í markinu og varði 17 skot.
Hjá Mosfellingum var Þorsteinn Leó Gunnarsson markahæstur með sex mörk. Blær Hinriksson og Ihor Kopyshynskyi gerðu fimm hvor.