Sjöfn Þórðardóttir
sjofn@mbl.is
Hönnuðirnir galdra fram bleikar marengsdúllur
Unnur Eir er gullsmiður hjá Meba og Lovísa hjá bylovisa en þær eru hönnuðir Bleiku slaufunnar í ár. Bleika slaufan í ár er sögð sú bleikasta og það var einmitt sem þær stöllur vildu.
„Við byrjuðum á því að vinna með bleika litinn, sterkan bleikan lit. Bleika slaufan í ár er innblásin af samstöðu og minnir okkur á að þótt við séum ólík þá stöndum við saman þegar erfiðleikar steðja að. Steinarnir í slaufunni eru ólíkir að forminu til og tákna þannig margbreytileika okkar. Við erum öll ólík, en þegar erfiðleikar steðja að komum við saman og myndum eina heild. Steinarnir í slaufunni tákna þannig margbreytileika okkar og þéttan stuðning samfélagsins,“ segir Unnur.
„Við tökum að sjálfsögðu þátt í bleika deginum á hverju ári sem og fjölskylda okkar. Við klæðum okkur alltaf í eitthvað bleikt, reynum að vera eins bleikar og við getum. Það er líka svo yndislegt að sjá samstöðuna í samfélaginu varðandi bleika daginn, það kemur póstur frá leikskólanum og skólanum sem minnir á bleika daginn. Allt samfélagið fer í bleikan búning og við ætlum að bjóða upp á bleikar marengsdúllur í tilefni dagsins,“ segir Lovísa.
Ljósbleikar og bleikar marengsdúllur
4 dl sykur
4 eggjahvítur
Rauður matarlitur eftir smekk
300 ml þeyttur rjómi
After Eight súkkulaði eftir smekk, saxað
Jarðarber til skrauts
Bleik blóm til skrauts ef vill.
Byrjið á því að hita ofninn í 110°C hita. Þeytið eggjahvítur og sykur þar til stífþeytt og topparnir halda sér vel. Bætið síðan við út í rauðum matarlit varlega með sleif. Fyrst í um það bil helming fyrir ljósbleiku og bættum svo út í til að fá dekkri lit líka. Setjið í stóran sprautupoka með skrautstút eftir smekk eða klippið gat á sterkan poka og sprautið litla toppa á bökunarplötu (um það bil 4-5 cm í þvermál). Setjið inn í ofn og bakið í 50 mínútur og kælið. Þeytið rjómann með söxuðu After Eight ásamt smá matarlit til að fá bleikan lit á rjómann. Sprautið síðan ofan á marengsdúllurnar og skreytið með jarðarberjum eftir smekk. Berið fram á fallegum kökudiskum og skreytið með bleikum blómum ef vill.
Eftirréttadrottningin töfrar fram guðdómlega ostaköku
Ólöf er nýbúin að gefa út bókina Ómótstæðilegir eftirréttir auk þess sem hún stendur í ströngu þessa dagana að æfa með íslenska kokkalandsliðinu sem er á leiðinni út á Ólympíuleikana á nýju ári.
„Ég hef haldið upp á bleika daginn síðustu ár með því að útbúa bleikar kökur og eftirrétti sem eru síðan selt í bakaríum og veitingastöðum sem ég hef unnið hjá til að styrkja bleiku slaufuna,“ segir Ólöf. Í tilefni bleika dagsins að þessu sinni ætlar hún að baka Jarðarberja baileys ostaköku og bjóða upp á með bleika hátíðarkaffinu.
Kexbotn
100 g hafrakex
100 g LU-kex
40 g smjör
Byrjið á því að bræða smjörið í potti við vægan hita. Myljið kexið í matvinnsluvél. Blandið smjörinu og kexinu saman. Þrýstið deiginu ofan í 20 cm smelluform og setjið inn í kæli á meðan ostakökumúsin er græjuð.
Jarðarberja baileys ostakökumús
50 g Jarðarberja baileys
100 g hvítt súkkulaði
200 g rjómaostur við stofuhita
200 g léttþeyttur rjómi
Bræðið súkkulaðið í vatnsbaði. Hitið jarðarberja baileys að suðu, hellið yfir súkkulaðið og hrærið þangað til að það hefur blandast saman. Á meðan súkkulaðið bráðnar er gott að þeyta rjómaostinn. Þegar hann er orðinn mjúkur er hvíta súkkulaði og jarðarberja baileys blöndunni hellt út í mjórri bunu. Á meðan er hrært á hæstu stillingu. Að lokum er léttþeytta rjómanum blandað varlega saman við með sleikju. Hellið fyllingunni yfir kexbotninn, Sléttið úr fyllingunni og setjið kökuna inn í frysti í u.þ.b. 3 klukkutíma.
Takið kökuna úr forminu og leyfið henni að þiðna. skreytið hana að vild, ég skreytti mína með hvítum og rauðum jarðarberjum ásamt lifandi blómum.
Berglind býður upp á dýrindis vanilluköku með rjómaostakremi
Berglind heldur ávallt upp á bleika daginn með því að bjóða í bleikar kræsingar með öllu tilheyrandi enda þekkt fyrir að fara alla leið þegar ákveðið þema er annars vegar. „Að þessu sinni ætla ég að bjóða upp á dýrindis bleika vanilluköku með rjómaostakremi og mun skreyta hana með sykurfrauði sem gerir kökuna meira aðlaðandi,“ segir Berglind og hlær.
Vanillu kaka með
rjómaostakremi
Fyrir 10-12
Vanillu kökubotnar
340 g hveiti
2 tsk. lyftiduft
1 tsk. salt
230 g smjör við stofuhita
350 g sykur
60 ml ljós matarolía
3 egg + 3 eggjahvítur
60 g sýrður rjómi
300 ml súrmjólk
2 tsk. vanilludropar
Byrjið á því að hita ofninn í 170°C og setjið smjörpappír í botninn á 4 x 15 cm kökuformum, spreyið þau síðan vel að innan með matarolíuspreyi. Hrærið saman hveiti, lyftidufti og salti og geymið þar til síðar. Þeytið saman smjör, sykur og matarolíu þar til blandan verður létt og ljós, skafið aðeins niður á milli. Bætið síðan þurrefnunum saman við í nokkrum skömmtum til móts við sýrðan rjóma, súrmjólk og vanilludropa. Hrærið vel saman og skiptið síðan jafnt niður í kökuformin og bakið í um 30 mínútur eða þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu en ekki blautu deigi. Kælið botnana á grind, skerið ofan af þeim til að jafna þá og útbúið næst kremið.
Rjómaostakrem og samsetning
240 g smjör við stofuhita
160 g Philadelphia rjómaostur við stofuhita
½ tsk. salt
½ tsk. sítrónudropar
2 msk. Cream of tartar
1000 g flórsykur
Bleikur matarlitur
Bleikt sykurfrauð
Byrjið á því að þeyta saman smjör, rjómaost, salt og sítrónudropa þar til blandan verður létt og ljós. Blandið Cream of tartar saman við flórsykurinn og setjið saman við í nokkrum skömmtum, þeytið vel og skafið niður á milli. Bætið matarlit saman við og þeytið áfram þar til slétt og létt krem hefur myndast. Smyrjið um 1 cm þykku lagi á milli botnanna og hjúpið fyrst með þunnu lagi af kremi, kælið kökuna síðan í um 15 mínútur. Hrærið aðeins upp í kreminu áður en þið setjið næsta lag yfir en það má vera um ½ cm á þykkt og sléttið úr þessari umferð eins og unnt er. Setjið restina af kreminu í sprautupoka og notið þéttan stjörnustút til þess að sprauta „öldumynstur“ bæði ofan á kökuna og neðst við diskinn. Skreytið síðan með því að setja bleikt sykurfrauð á toppinn.