Steinunn Sigurðardóttir
Steinunn Sigurðardóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skáldsögur eru að vanda mest áberandi á útgáfulista Forlagsins fyrir jólin í ár en fjöldi barnabóka er einnig væntanlegur sem og nokkrar ljóðabækur og rit almenns efnis. Í skáldsögunni Ból skrifar Steinunn Sigurðardóttir um LínLín sem þrátt fyrir sáran missi og þung áföll stendur keik

Skáldsögur eru að vanda mest áberandi á útgáfulista Forlagsins fyrir jólin í ár en fjöldi barnabóka er einnig væntanlegur sem og nokkrar ljóðabækur og rit almenns efnis.

Í skáldsögunni Ból skrifar Steinunn Sigurðardóttir um LínLín sem þrátt fyrir sáran missi og þung áföll stendur keik. „En nú er komið að ögurstund: Náttúran fer hamförum við sælureitinn hennar í sveitinni. Einbeitt heldur hún þangað, til móts við minningarnar, leyndarmálin og sorgirnar stóru.“

Einar Kárason skrifar um það þegar fulltrúar stórveldanna öttu kappi um heimsmeistaratitil í skák í smáborginni Reykjavík í miðju köldu stríði í skáldsögu sinni Heimsmeistari. „Knöpp og kynngimögnuð saga um snilling sem er ævifangi síns hrjúfa lundernis,“ segir útgefandi.

Í skáldsögunni Armeló eftir Þórdísi Helgadóttur segir af Elfi sem hatar að ferðast. „Einhverra hluta vegna er hún samt komin hingað, til þessa óspennandi smábæjar, með Birgi. Nema Birgir er allt í einu horfinn, ásamt bílnum og öllum farangrinum. Hún skilur þetta ekki, hann er ekki beint hvatvís. En það var eitthvað sem hann sagði kvöldið sem þau rifust í fyrsta skipti.“

Síðasta verk Guðbergs Bergssonar heitins nefnist Dauði Francos en þar segir frá dauðastríði Francos árið 1975 sem Guðbergur skrásetti í dagbók. Brot úr dagbókinni birtist á sínum tíma í Þjóðviljanum en hér má í fyrsta skipti líta skrásetninguna í heild sinni.

Kletturinn eftir Sverri Norland er skáldsaga um fyrirgefningu, metnað, siðferðileg álitamál og ekki síst tilfinningasambönd karlmanna. „Tuttugu ár eru liðin frá því að Gúi hrapaði til bana í útilegu í Hvalfirði og síðan hafa félagar hans, Einar og Brynjar, þurft að vinna úr því áfalli, hvor á sinn hátt – en hvorugur með miklum árangri. Nú liggja leiðir þeirra saman á ný og uppgjörið er óhjákvæmilegt.“

Eitt smásagnasafn er á listanum í ár. Ólafur Gunnarsson sendir frá sér tólf knappar sögur í bókinni Herörin − og fleiri sögur.

Nanna Rögnvaldardóttir byggir á lífi formóður sinnar í skáldsögunni Valskan og fléttar saman heimildum og skáldskap svo úr verður grípandi saga um harða lífsbaráttu, þrautseigju og ástir.

Eiríkur Örn Norðdahl er einnig á sögulegu nótunum í skáldsögu sinni Náttúrulögmálin og bregður að sögn útgefanda á leik með heimildir og staðreyndir. Útgangspunkturinn er Prestastefna á Ísafirði árið 1925, þar sem „megintilgangurinn virðist vera að storka þjóðtrú landans og sýna mátt kristindómsins frammi fyrir hindurvitnum, spíritisma og náttúruöflum.“

Kveikjan að skáldsögu Ófeigs Sigurðssonar Far heimur, far sæll er Kambsránið, eitt frægasta sakamál Íslandssögunnar. „Sýslumaður og aðstoðarmaður hans leita hinna seku en þetta er ekki venjuleg sakamálasaga. Mórar og skottur eru á kreiki innan um litríkar, breyskar og bráðlifandi persónur, og sögumaður fer um í líki hunds sem aðeins sumir sjá – en sér sjálfur allt.“

Einar Már Guðmundsson leitar innblásturs á sömu miðum í skáldsögu sinni Því dæmist rétt vera. „Safarík saga um glæp og refsingu í litlu sjávarþorpi á 19. öld – þorpi sem þó kann að vera nafli heimsins. Þræðir spinnast til allra átta og sagnfræði og skáldskapur togast á um satt og logið, rétt og rangt í litríkum vef Einars Más,“ segir í kynningartexta.

Fjórar glæpasögur eru á útgáfulista haustsins. Arnaldur Indriðason sendir frá sér nýja glæpasögu sem nefnist Sæluríkið. Frá Lilju Sigurðardóttur er væntanleg spennusagan Dauðadjúp sprunga sem er fimmta og síðasta bókin um tvíeykið Áróru og Daníel.

Þriðja bókin í seríu Jónínu Leósdóttur um Sáló ehf. nefnist Þvingun. „Maður finnst myrtur í bústað við Laugarvatn og sú sem kemur að honum er Magga, dóttir Adams sálfræðings og Soffíu rannsóknarlögreglukonu.“ Loks sendir Jón Atli Jónasson frá sér Eitur, aðra bókina í glæpasagnaflokknum um löggutvíeykið Dóru og Rado. „Harðsoðinn hörkukrimmi sem fjallar á raunsannan hátt um myrkar hliðar Reykjavíkur samtímans,“ segir útgefandi.

Hugnæm og djúpskyggn

Fyrsta ljóðabók Forlagsins í ár er Bakland eftir Hönnu Óladóttur sem er ljóðsaga um það þegar líf þriggja gjörólíkra kvenna fléttast óvænt saman þegar dætur þeirra lenda á villigötum. Melkorka Ólafsdóttir sendir frá sér ljóðabókina Flagsól sem er ríkulega skreytt vatnslitamyndum eftir Hlíf Unu Bárudóttur. Þar fá lesendur að kynnast leyndarlífi íslenskra sveppa.

Eina hverfula stund nefnist sjötta ljóðabók Njarðar P. Njarðvík. Hún geymir að sögn útgefanda „hugnæm og djúpskyggn ljóð sem fá lesandann til að staldra við og hugleiða tímann og mannsævina, eilífðina og andartakið“. Þá kemur út úrval ljóða eftir Ísak Harðarson, Ró í beinum: Ljóðaþykkni 1982‒2022, sem hann valdi sjálfur og gekk frá til útgáfu skömmu áður en hann lést síðasta vor. Andri Snær Magnason ritar eftirmála.

Í verkinu Byggð mín í norðrinu er að finna mörg af ástsælustu ljóðum Hannesar Péturssonar sem sjálfur hefur sett saman þetta úrval. Ljóðin eru ættuð úr Skagafirði, æskuslóðum hans. Sölvi Sveinsson annast útgáfuna og ritar bæði almennan eftirmála og um einstök ljóð.

Þótt almennt gefist ekki rými til að telja upp þær þýðingar sem væntanlegar eru er rétt að nefna nýja þýðingu Jóns Erlendssonar á hinu stórbrotna söguljóði frá 17. öld Paradísarmissi eftir John Milton. Hann skrifar sjálfur skýringar en inngang ritar Ástráður Eysteinsson.

Sund, bílar og bassar

Forlagið gefur út nokkrar fræðibækur, ævisögur og ýmis rit almenns efnis. Valdimar Tr. Hafstein og Katrín Snorradóttir skrifa um sundmenningu Íslendinga í bókinni Sund. „Í bókinni birtist ylvolg saga af íslensku nútímasamfélagi í mótun, með léttri klórangan og hveralykt, gufuslæðu og skvampi í einstaklega fallegri og fróðlegri bók um uppáhaldsiðju flestra Íslendinga.“

Bílar í lífi þjóðar eftir Örn Sigurðsson „bregður skýru ljósi á samband Íslendinga við bílinn, þennan þarfasta þjón sem greitt hefur götu og létt störf, opnað landið og veitt ferðafrelsi“. Bókin hefur að geyma yfir 900 ljósmyndir.

Gunnar Þór Bjarnason rekur sögu fyrirtækisins Marels í bókinni Ævintýrið um Marel: Sprotafyrirtækið 1983–1999. Er þar sögð á ferð „stórfróðleg saga sem speglar vel þjóðlíf og tíðaranda og veitir innsýn í atvinnulíf og efnahagsþróun síðustu áratuga“.

Tómas R. Einarsson rekur minningar sínar í verkinu Gangandi bassi. „Samferðamenn, þekktir og óþekktir, lifna hér á síðunum sem bæði hafa að geyma samfélagslýsingu og persónulega sögu um sorgir og gleði,“ segir útgefandi. Þröstur Ólafsson sendir einnig frá sér minningabók, sem sögð er um margt óvenjuleg. Sú nefnist Horfinn heimur og þar er höfundurinn „hreinskilinn og óvæginn á köflum, ekki síst við sjálfan sig“.

Í verkinu Ég verð aldrei ungfrú meðfærileg ritar Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir baráttusögu Guðrúnar Jónsdóttur talskonu Stígamóta.

Ævintýralegar barnabækur

Þrjár fræði- og handbækur eru ætlaðar börnum. Þá má fyrst nefna Íslensk myndlist og fólkið sem ruddi brautina eftir Margréti Tryggvadóttur þar sem sagt er frá nokkrum brautryðjendum sem lögðu grunn að íslenskri listasögu.

Sævar Helgi Bragason heldur áfram með Vísindalæsisflokk sinn og að þessu sinni fjallar hann um Hamfarir. Elías Rúni myndlýsir. Linda Ólafsdóttir segir frá kvennafrídeginum 1975 í myndabókinni Ég þori, ég get, ég vil: Þegar íslenskar konur höfðu svo hátt að allur heimurinn heyrði í þeim.

Forlagið gefur út ýmsar bækur fyrir yngstu börnin. Þar má fyrst nefna jólabókina Gleðilega mjátíð eftir Brian Pilkington þar sem sagt er frá hvarfi jólakattarins og leit jólasveinanna að honum. Benný Sif Ísleifsdóttir sendir einnig frá sér jólabókina Einstakt jólatré, með myndum Linn Janssen, þar sem öll fjölskyldan heldur út í skóg á aðventunni í leit að fullkomnu jólatré.

Birgitta Haukdal heldur áfram með bókaröð sína um Láru og Ljónsa með bókunum Syngdu vögguvísur með Láru og Ljónsa sem hefur að geyma tónspilara með vögguvísum, Lára fer á jólaball og Lára missir tönn.

Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur er fjörug saga um leynifélag þeirra Péturs og Stefaníu. Ævar Þór Benediktsson segir frá ævintýrum afa síns í Surtsey í bókinni Strandaglópar! (Næstum því) alveg sönn saga. Myndir eftir Anne Wilson.

Fyrir börn á aldrinum 6 til 12 ára kennir einnig ýmissa grasa. Sigrún Eldjárn skrifar sjálfstætt framhald af Ófreskjunni í mýrinni sem ber titilinn Fjaðrafok í mýrinni. Þá er einnig væntanleg bókin Mömmuskipti eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur en þar segir frá Lindu, dóttur áhrifavalds sem keppir um pláss í nýjum raunveruleikaþætti sem endar með því að Linda fær nýja mömmu í heilan mánuð og alþjóð fylgist með.

Brynhildur Þórarinsdóttir sendir frá sér spennubókina og draugasöguna Smáralindarmóri sem Elías Rúni myndlýsir. Gunnar Helgason heldur áfram með söguna um Alexander Daníel Hermann Dawidsson með bókinni Bannað að drepa. Rán Flygenring sér eins og fyrr um myndirnar. Björk Jakobsdóttir sendir frá sér sjálfstætt framhald af hestabókinni Hetju, sem ber titilinn Eldur og fjallar um vinkonurnar Hetju og Björgu og eldgos í jöklinum.

Af unglingabókum má fyrst nefna Hrím eftir Hildi Knútsdóttur sem er sögð ævintýraleg þroskasaga um ástir og örlög. „Hætturnar leynast víða á annars konar Íslandi þar sem mannfólk deilir landinu með risavöxnum dýrum, ekki síst á veturna þegar hrímsvelgirnir koma niður af hálendinu.“ Þá kemur út bók númer tvö í seríunni Skólaslit eftir Ævar Þór Benediktsson, með myndum Ara H.G. Yates, sem nefnist Dauð viðvörun.

Ólafur Gunnar Guðlaugsson sendir frá sér Návaldið, lokabindið í fantasíuþríleik sínum fyrir unglinga sem kenndur er við Síðasta seiðskrattann. Gunnar Theodór Eggertsson lýkur einnig sínum ævintýraþríleik fyrir börn og unglinga með bókinni Furðufjall 3: Stjörnuljós.

Margrét Tryggvadóttir sendir frá sér bókina Stolt, úr sama söguheimi og fyrri bók hennar Sterk. Þar ræður söguhetjan Blær sig í sumarvinnu úti á landi, heillast af Felix en finnur aldrei rétta tækifærið til að segja honum að hún sé trans og kemst að því að gamalt mannshvarf tengist Felix og húsinu sem hún býr í.
ragnheidurb@mbl.is