Victor Knútur Björnsson, löggiltur endurskoðandi, fæddist í Reykjavík 18. september 1946. Hann lést 7. október 2023 á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi eftir löng og erfið veikindi.

Foreldrar Victors voru Björn Knútsson, löggiltur endurskoðandi, f. 14.6. 1921, d. 15.9. 1978, og Ingibjörg Karlsdóttir húsfreyja, f. 4.2. 1919, d. 15.8. 1972. Bróðir hans er Karl Ómar, f. 28.10. 1952, og dóttir hans er Ingibjörg, f. 11.10. 1993.

Victor ólst að stærstum hluta upp í Vesturbæ Reykjavíkur, fyrst á Hjarðarhaga og síðar á Hagamel.

Eftirlifandi eiginkona hans er Kristín Hólmfríður Kristinsdóttir bókasafnsfræðingur, f. 1.5. 1946. Þau giftust hinn 30. desember 1972 og bjuggu sér sitt fyrsta heimili í Bólstaðarhlíð og eignuðust þar fyrstu tvo syni sína. Þaðan fluttu þau á Kaplaskjólsveg þar sem seinni tveir synirnir fæddust. Victor og Kristín byggðu einbýlishús á Selbraut 1 á Seltjarnarnesi, þangað fluttu þau árið 1990 og bjuggu þar til ársins 2017. Þaðan fluttu þau á Grandaveg 42e sem varð síðasta heimili Victors.

Victor gekk í Skóla Ísaks Jónssonar, Melaskóla, Hagaskóla og síðan í Verzlunarskóla Íslands þar sem hann lauk stúdentsprófi 1967. Að því loknu hóf hann störf á endurskoðunarstofu föður síns og varð löggiltur endurskoðandi árið 1976. Victor tók síðan við endurskoðunarstofunni og rak hana undir eigin nafni allt þar til hann lét af störfum árið 2020.

Synir Victors og Kristínar eru: 1) Björn Ingi, f. 7.4. 1974, giftur Maríu Helgu Gunnarsdóttur, f. 7.8. 1975, börn þeirra eru Victor Vagn, f. 12.4. 2000, Orri Fannar, f. 9.11. 2001, og Hólmfríður Hrönn, f. 13.10. 2008. 2) Kristinn Rúnar, f. 3.4. 1977, giftur Guðbjörgu Lísu Gunnarsdóttur, f. 6.9. 1974. 3) Victor Knútur, f. 4.10. 1981, giftur Niloufar Aazam-Zanganeh, f 18.10. 1982, börn þeirra eru Shirin Kristín, f. 9.8. 2016, Nicolas Björn, f. 13.7. 2018, og Jasmine Lilja, f. 2.12. 2021. 4) Ófeigur Orri, f. 9.11. 1983, giftur Kristínu Jónu Bjarnadóttur, f. 27.5. 1985, börn þeirra eru Bjarni Henrik, f. 29.11. 2016, og Eygerður Fríða, f. 20.3. 2020.

Útförin fer fram frá Neskirkju í dag, 19. október 2023, klukkan 13.

Elsku pabbi.

Þú varst fyrirmynd mín og kenndir mér að með dugnaði og samviskusemi næði maður langt í lífinu. Jafnframt lagðir þú mikla áherslu á að fjölskyldan væri það sem skipti máli, allt annað þyrfti að vera í þriðja sæti. Þú kenndir mér mikilvægi þess að vera umburðarlyndur, áhugasamur og heiðarlegur í garð allra óháð stétt og stöðu. Síðast en ekki síst kenndir þú mér að njóta matar og drykkjar enda með eindæmum mikill sælkeri.

Mér er það minnisstætt þegar ég var kominn áleiðis í viðskiptafræðinámi mínu við Háskóla Íslands að þú reyndir að telja mig af þeim fyrirætlunum mínum að feta í fótspor þín og afa og gerast löggiltur endurskoðandi. Þessar leiðbeiningar þínar fóru í þetta skiptið inn um annað og út um hitt enda áttum við það sameiginlegt að vera þrjóskir og fastir fyrir. Að lokum varst það þú sem ráðlagðir mér um næstu skref í faginu og reyndust þær ráðleggingar farsælar.

Ég hélt að ég væri vel undirbúinn undir andlát þitt enda varst þú búinn að vera veikur lengi. Staðreyndin er hins vegar sú að ég var ekki jafn vel undirbúinn og ég hélt. Blanda af sorg og létti fyrir þína hönd er erfið blanda að glíma við. Það var ótrúlegt að sjá lífsvilja þinn á síðustu árum. Þrátt fyrir mikil veikindi varstu ávallt viljugur að reyna að finna lausnir á þeim kvillum sem þú áttir við að etja og mættir þeim af æðruleysi og hugrekki. Aldrei var húmorinn langt undan, jafnvel þótt augljóst væri að þú varst verulega þjáður. Við gátum til síðasta dags rætt um viðfangsefni samtímans ásamt því að ræða stöðu Man. Utd og KR. Kvöldstundirnar sem við áttum í vor lifa með mér það sem eftir er.

Þú lifir í hjarta mínu, þú skilur eftir frábærar minningar, kærleik og lífssýn. Ég lofa að passa upp á fjölskylduna mína.

Takk pabbi minn fyrir allt, ég elska þig og mun ávallt sakna þín.

Björn Ingi Victorsson (Knútsson).

Pabbi hefur nú kvatt þennan heim eftir langa baráttu við hina ýmsu kvilla. Þótt við höfum flest vitað að það væri farið að styttast í leikslok, þá bar endann samt skjótt að. Eflaust spilaði þar inn í að hann kvartaði lítið yfir eigin stöðu og vildi frekar ræða eitthvað annað og skemmtilegra. „Tökum upp léttara hjal“ sagði hann gjarnan. Eftir sitja ótalmargar góðar minningar og stór fjölskylda sem mun sakna hans.

Pabbi var klárlega fyrirmynd mín og okkar bræðra, enda af mörgu góðu að taka. Hann lagði áherslu á fjölskylduna og trúði á vinnusemi, það að breyta rétt og að hjálpa öðrum. Minningar af mínum yngri árum einkennast af honum að vinna frá morgni til kvölds. Hann var þó aldrei langt undan og kom ávallt heim í mat, bæði í hádeginu og á kvöldin. Helgunum fannst honum best að verja heima í faðmi fjölskyldunnar og góður matur var alltaf á borðum heima. Pabbi las mikið og það fór fátt fram hjá honum er varðaði heims- og þjóðfélagsmál, og úr íþrótta- og fótboltaheiminum. Helgarnar hófust yfirleitt á því að lesa Morgunblaðið frá upphafi til enda og kíkja í ævisögur. Hann var gríðarlega minnugur og elskaði að segja sögur. Við fórum reglulega i gönguferðir um Vesturbæinn þar sem hann sagði okkar hinar ýmsu sögur úr Vesturbænum frá sínum yngri árum.

Pabbi sýndi okkur bræðrum mikinn stuðning í hverju því sem við ákváðum að taka okkur fyrir hendur. Mínum fullorðinsárum hef ég einkum varið erlendis og alltaf dyggilega studdur af honum. Þrátt fyrir fjarlægðina höfum við ávallt ræðst mjög reglulega við. Ég hafði þann sið að hringja í hann á hverjum degi á leið úr vinnunni ef þess var kostur. Sum þessara samtala gátu orðið mjög löng og enduðu ekki fyrr en ég kom inn um dyrnar heima. Við höfðum báðir einstaklega gaman af þessum samtölum okkar. Hann var alltaf forvitinn að heyra af mínum upplifunum utan úr heimi og fús til að leiðbeina mér ef ég óskaði þess. Ef við urðum einhvern tímann uppiskroppa með umræðuefni þá var alltaf hægt að ræða hvernig gengi hjá KR eða Manchester United. Mamma og pabbi voru líka mjög dugleg að heimsækja mig, hvort sem það var á námsárunum í Bandaríkjunum eða seinna í Sviss. Það voru alltaf einstaklega vel heppnaðar og skemmtilegar heimsóknir, enda þau bæði forvitin að kynnast nýjum menningarheimum, sjá nýja staði, prófa nýja veitingastaði, og seinna að sjá ný barnabörn. Á þessum ferðalögum átti pabbi það til að kíkja aðeins einn á rölt og endaði ósjaldan á spjalli við heimamenn. Skipti þá oft engu hvern hann hitti. Hann fór ekki í manngreinarálit og var forvitinn að vita sögu allra. Hjálpaði þá mikið að vera vel lesinn og geta sett sig inn í hin ólíklegustu mál.

Síðustu árin voru strembin enda líkaminn farinn að gefa sig. Þrátt fyrir það var hann alltaf til í skemmtilegt spjall og sýndi lífi okkar bræðra og fjölskyldna áfram mikinn áhuga. Ég mun sakna samtalanna og samverustundanna en þakklátur fyrir að við höfðum náð að ræða um flest sem hægt var að ræða um. „Segjum þetta gott“ hefði hann sagt. Hvíl í frið elsku pabbi!

Victor Knútur
Victorsson.

Elsku pabbi minn hefur nú kvatt í hinsta sinn. Hans verður sárt saknað en eftir standa margar ómetanlegar minningar. Þrátt fyrir annríki gaf pabbi sér ávallt góðan tíma til að kynna okkur fyrir því mikilvægasta í lífi Vesturbæinga. Þetta var að sjálfsögðu KR þar sem við vorum helst þekktir sem strákarnir hans Victors. Heimsókn í Vesturbæjarlaugina um helgar var einnig fastur liður og ef heppnin var með okkur þá fylgdi í kjölfarið ein pylsa á Bæjarins bestu eða jafnvel kakóbolli á Mokka.

Hvað sem við tókum okkur fyrir hendur, þá fylgdist pabbi með á hliðarlínunni og studdi okkur vel og innilega. Ef allt gekk vel hélt hann sér oft til hlés en var ætíð rétt handan við hornið ef ráðlegginga var óskað, ráðleggingar sem einkenndust af mikilli réttlætiskennd og virðingu við náungann. Pabbi var einstaklega umhyggjusamur og hafði gaman af því að gleðja aðra. Mér er mjög minnisstætt þegar ég lá vikum saman á Landspítalanum að vakna upp flesta morgna með Moggann undir koddanum. Það kom nú aldrei fram hver það var sem laumaðist inn á legudeildina snemma að morgni þó í mínum huga væri það í raun bara einn sem kæmi til greina.

Síðustu árin voru pabba erfið vegna veikinda hans. Fjarlægðin á milli okkar þessi ár reyndist mér oft erfið en ég veit að hann vildi fátt meira en að við héldum áfram okkar vegferð. Hann minntist sjaldan að fyrra bragði á veikindi sín í samtölum okkar. Heldur kaus hann að tala um eitthvað jákvætt, til dæmis að vita hvað við værum að gera og hvernig barnabörnin hans döfnuðu. Fjölskyldan var það mikilvægasta í lífi pabba. Ég veit að hann var stoltur af sínu fólki og þar af leiðandi var hann ánægður með lífið. Vitandi þetta gerir kveðjustundina auðveldari. Ég mun sakna þeirra ótal kvöldstunda þar sem við sátum langt fram eftir nóttu og skiptumst á sögum. Hvíldu nú í friði, elsku pabbi minn. Við höldum áfram að gera þig stoltan og hugsa hvert um annað.

Ófeigur Orri Victorsson.

Elsku pabbi minn, það er búinn að vera langur aðdragandi að þessari kveðjustund og nú hvílirðu í friði. Veikindi þín voru búin að vara lengi og í raun var það ótrúlegt hvað hægt var að leggja á einn mann. En hvað sem á gekk, þá komstu alltaf til baka og þegar mest á reyndi slóstu alltaf á létta strengi. Þessa bar einna helst merki í hvert skipti sem sjúkraflutningamenn komu að sækja þig á heimili ykkar mömmu en þá heilsaðirðu þeim yfirleitt kumpánlega líkt og þeir væru að kíkja í kaffi og eins og það amaði lítið að þér, sárþjáðum manninum. Ég og mamma vorum á þessum stundum lítið hrifin af hegðun þinni.

Ekki alls fyrir löngu ritaði ég þér bréf þar sem ég fór yfir heilsufarið á ykkur mömmu en það var ljóst að við þyrftum að fara að grípa til úrræða til að létta ykkur báðum lífið. Ég taldi að þetta væri besta leiðin til þess að ná til þín enda var ég sannfærður um að þú myndir lesa bréfið yfir aftur og aftur, líkt og þú last Moggann á hverjum degi, klukkutímum saman. Það varð úr að ég heyrði ekki í þér í þrjá daga en síðan hringdirðu og þakkaðir mér fyrir skrifin. Þegar ég innti þig um álit á innihaldi bréfsins, svaraðirðu því til að það væri augljóst að mér hefði verið mikið niðri fyrir þegar ég ritaði það og að ég hefði oft verið hnitmiðaðri í skrifum. Þetta var sem sagt of langt og of mikið tilfinningahjal að þínu mati. Tilfinningar voru nefnilega eitthvað sem þú áttir ekki auðvelt með og stolti og væntumþykju fyrir þínum nánustu komstu iðulega á framfæri eftir þínum leiðum. Það er ekki lítið verk að fara í gegnum minningarnar sem við eigum saman og það verður þá kannski líka gert eftir öðrum leiðum. Höfum þetta skýrt og hnitmiðað eins og þú kunnir svo vel við.

Þú helgaðir líf þitt fjölskyldunni og vinnunni. Þú varst áhugamaður um fótbolta og sinntir félagsstörfum með félaginu þínu KR og varst ötull fylgismaður Manchester United. Matur var þitt áhugamál en það má kannski segja að það hafi líka verið einn af þínum veikleikum. Það fór ekki vel með sykursýkinni sem þú hafðir verið með í næstum 40 ár og var einn stærsti þátturinn í erfiðleikum þínum síðustu ár. Þú hafði mikinn áhuga fyrir bílum og við fórum oft saman á bílasýningar þegar ég var yngri og við ræddum oft saman um bíla. Þú varst með eindæmum minnugur og mikill sögumaður. Þú áttir til að segja okkur sömu sögurnar aftur og aftur og það skipti engu máli þótt við gæfum til kynna að við værum búin að heyra söguna, hún var alltaf kláruð og síðan sögð aftur seinna. Þær voru margar sögurnar og minningarnar sem þú bjóst yfir og því miður mun eitthvað fara með þér en margar munu lifa góðu lífi. Það veitir okkur hlýju í hjartað að þú varst brosandi þegar við kvöddum þig í síðasta sinn. Þín verður saknað, pabbi minn, og ég kveð þig nú með þínum orðum „ekki meira í bili“.

Kristinn Rúnar
Victorsson.

Elsku tengdapabbi minn hefur nú kvatt okkur. Hann kvaddi skyndilega þótt hann hafi glímt við erfiða heilsu síðustu árin. Dauðinn kemur manni oftast í opna skjöldu og á þeirri stundu hugsar maður um óteljandi minningar og þær góðu stundir sem við höfum átt saman.

Victor var höfðinglegur í fasi, kærleiksríkur, fróðleiksfús og sælkeri. Hann þekkti mjög marga og fannst gaman að segja sögur. Var spurull og með mikinn áhuga á að hlusta á aðra segja sínar sögur. Einar dýrmætustu stundirnar fyrir mig voru föstudagskvöldin á Selbrautinni þegar ég og Ófeigur settumst við eldhúsborðið með Kristínu og Victori yfir góðri nautasteik og rauðvíni. Þar sátum við klukkutímum saman og heyrðum ótal sögur af fólki sem hafði verið með honum í gegnum lífsleiðina.

Sögur eigum við einnig sameiginlegar og ein af skemmtilegustu minningunum mínum er snemma í sambúð okkar Ófeigs þegar við hittum hann Victor og Kristínu í München árið 2009, einni af uppáhaldsborgum fjölskyldunnar. Þar var Oktoberfest, ef ekki annað en til að halda upp á 64 ára afmæli Victors. Þar sátum við yfir einum „maß“ á Oktoberfest-gólfinu með yngra liðinu og ekki leið á löngu áður en hann var farinn að vingast við fólkið í kring. Að lokum var Victor staðinn upp til að stýra Hofbrau-hljómsveitinni er þeir spiluðu afmælissönginn, það var dásamlegt.

Frá upphafi var mér ákaflega vel tekið af fjölskyldunni og mér hefur alltaf liðið eins ég hafi átt minn stað í henni. Átti Victor stóran hlut í því. Ég er þakklát fyrir allar stundirnar sem við áttum saman og kærleikann sem þú gafst frá þér. Hvíl í friði, elsku tengdapabbi, og minningin mun lifa með okkur um ókomna tíð.

Kristín Jóna Bjarnadóttir.

Ástkær tengdafaðir minn hefur nú kvatt þessa jarðvist og langar mig að minnast hans hér í dag.

Ég kynntist Victori haustið 1991, eftir að hafa fundið hann Bjössa minn. Í upphafi var ég ákaflega feimin við foreldra Bjössa, enda bara unglingur. Fljótlega rjátlaðist feimnin af unglingsstúlkunni og fyrr en varði var ég orðin heimalningur á Selbrautinni, þar sem ég eignaðist margar góðar minningar næstu áratugina. Tengdaforeldrar mínir hafa ávallt verið höfðingjar heim að sækja og hafði Victor gríðarlega gaman af því að gleðja fólkið sitt, hvort sem það var með mat, drykk, ættfræði eða sögum þar sem hann ferðaðist með áheyrendur marga áratugi aftur í tímann, þá var hann á heimavelli. Samverustundirnar í eldhúsinu voru ófáar og oftar en ekki fékk maður hlutverk eins og að skræla kartöflur eða hræra í sósunni yfir léttu spjalli. Ekki þykir það í frásögur færandi en eftir að Victor hrósaði mér eitt sinn fyrir fallegt handbragð og leikni með kartöfluskrælarann lagði maður óneitanlega meiri metnað í verkið. Að fá hrós frá Victori var notalegt því maður gat verið viss um að það kom frá hans innstu hjartarótum. Tengdafaðir minn var hæglátur og orðvar maður en náði iðulega að fanga athygli manns með hnyttnum tilsvörum, hef ég oft dáðst að þessum eiginleika. Þetta reyndist Victori sterkt vopn í baráttunni við flókin veikindi í seinni tíð þar sem hann mætti hverju verkefninu á fætur öðru af seiglu og lífsþrótti í bland við smá kímni.

Victor hafði einlægan áhuga á samferðafólki sínu, var einstaklega forvitinn og hlustaði af áhuga á það sem maður hafði til málanna að leggja. Sú athygli og gleði sem hann veitti afabörnunum bar þess merki og veit ég að þau munu varðveita fallegar og dýrmætar minningar um afa sinn um ókomna tíð.

Ég kveð Victor tengdapabba með söknuði og er bæði stolt og þakklát fyrir að hafa fengið að verða samferða honum í gegnum lífsins ferðalag. Björt og falleg minning um einstakt ljúfmenni lifir áfram.

Hvíl í friði.

María Helga.

Elsku Victor, takk fyrir samveruna og kynnin af þér.

Fljótlega eftir að ég kynntist Kidda bauð ég honum til New York. Það vildi þannig til að þið Kristín voruð nýkomin úr ferð þaðan og þú hafðir frá mörgu að segja. Mér er það í fersku minni þegar þú varst að leiðbeina okkur hvernig við kæmumst í ákveðna búð. Þú dróst upp götur New York á flísarnar á Selbrautinni með tánum, „strokaðir út“ þegar þú fórst götuvillt og byrjaðir aftur í miðjunni. Þetta var áður en google maps kom til sögunnar. Við minnumst þessa atviks oft og höfum alltaf jafn gaman af, en búðina fundum við svo sannarlega.

Ég kynntist þér kannski best þegar ég fékk leyfi til að læra á skrifstofunni á Vesturgötunni. Þú tókst mér feginshendi, enda nýr aðili til að hlýða á sögurnar þínar. Það var ósjaldan sem þú hallaðir þér upp að dyrakarminum, þegar þú áttir leið framhjá skrifstofunni minni, og sagðir mér sögu eða minningar. Flestar áttu þær það sameiginlegt að vera skemmtilegar eða fræðandi. Ef sagan var mjög skemmtileg, að þínu mati, þá áttirðu það til að endurtaka lokaorðin nokkrum sinnum þegar sagan var búin og hlæja jafn dátt í fimmta skiptið eins og það fyrsta.

Það kom fyrir fyrir að lærdómurinn teygðist á langinn hjá mér, jafnvel fram á rauðanótt. Ég brá oft á það ráð að taka stutta kríu í brúna leðurstólnum inni á skrifstofunni þinni að þér forspurðum. Eitt sinn tókstu eftir að stóllinn hafði verið færður úr stað og ég neyddist til að játa syndir mínar fyrir þér. Þetta þótti þér ekki tiltökumál og hlóst við, en hafðir á móti góða sögu að segja af brúna leðurstólnum sem og hugmyndir að betri aðferðum til að hvílast á skrifstofunni.

Þú sýndir alltaf áhuga á öllu því sem við vorum að fást við og spurðir reglulega um framgang mála.

Þú varst alltaf sögumaðurinn og ef þér fannst samtal okkar vera orðið of langt áttirðu það til að skjóta að í miðri setningu hjá mér „jæja, segjum það í bili“ og þar með var samtalinu lokið.

Segjum það í bili.

Þín tengdadóttir,

Lísa.

Í dag kveðjum við kæran vin minn, Victor Knút Björnsson.

Vinátta okkar Victors hófst fyrir rúmlega hálfri öld þegar ég flutti heim frá Englandi. Auk starfstengdra kynna í tengslum við vinnu hans vorum við báðir miklir KR-ingar. Victor spilaði m.a. knattspyrnu með KR á sínum yngri árum og sinnti síðan ýmsum stjórnarstörfum en ég tilheyrði skíðadeildinni og þá mest tengt rekstri skíðasvæðis KR í Skálafelli. Því var af nógu að taka þegar við hittumst nokkuð reglulega yfir kaffibolla á skrifstofunni hjá honum. Á þessum árum var einnig mjög gott að geta sest niður með Victori og rætt um lausnir á erfiðum rekstri skíðasvæðisins og stöðugri peningaþröng. Alltaf yfirgaf maður Victor með bjartari sýn á tilveruna eftir langt og skemmtilegt spjall.

Síðar tókum við báðir sæti í aðalstjórn KR og sátum þar saman í ein sex ár eða fram til ársins 1996. Victor gegndi embætti gjaldkera með miklum sóma eins og í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Og þótt við hættum aðalstjórnarstörfum fækkaði ekki símtölum og kaffispjalli um stöðuna hjá gamla góða KR. Ræddum við síðast saman í vikunni sem hann lést og ákváðum þá kaffifund síðar í vikunni. Af honum varð þó ekki.

Ég og fjölskylda mín munum sakna Victors og að leiðarlokum þökkum við honum samfylgdina. Við sendum Kristínu, sonum þeirra þeim Birni, Kristni, Victori og Ófeigi og öðrum ástvinum innilegustu samúðarkveðjur og biðjum Guð að styrkja þau í sorg sinni. Far þú í friði kæri vinur.

Ásbjörn Einarsson.

Á kveðjustund leitar hugurinn í gamlar minningar um vináttu okkar Victors. Fyrir réttum sextíu árum, sumarið 1963, vorum við samherjar í 2. flokki knattspyrnudrengja í KR, samhentur hópur sem náði góðum árangri innan vallar sem utan. Um mitt sumar fórum við í eftirminnilega keppnisferð til Danmerkur og Þýskalands og eftir heimkomuna tókst okkur að landa Íslandsmeistaratitli eftir mikla baráttu við sterkt lið Keflvíkinga. Victor var yngstur í okkar liði á þessari úrslitastundu, rétt orðin 17 ára gamall og lék í stöðu vinstri bakvarðar. Hafi andstæðingarnir fengið þá hugmynd að leiðin í gegnum vörnina yrði greið fram hjá þessum þéttvaxna bakverði kom annað fljótt í ljós. Þarna mættu þeir líkamlega sterkum strák sem var mjög sparkviss, með góðar staðsetningar og frábæran leikskilning og ef á þurfti að halda var hann mjög sprettharður.

Eftir að knattspyrnuferlinum lauk vorum við Victor svo lánsamir að fá tækifæri til að starfa að ýmsum verkefnum innan KR um langa tíð. Í byrjun fylgdu þau Victor og Kristín sonum sínum dyggilega meðan þeir æfðu fótbolta og síðar var ósjaldan leitað til Victors vegna þekkingar hans og reynslu sem endurskoðanda. Mér er ofarlega í huga að vorið 1996 tók ég við af Victori sem gjaldkeri aðalstjórnar KR. Þá var mér ljóst að ég þyrfti aðstoð fagmanns við bókhald og frágang ársreiknings og það varð mitt fyrsta verk að óska eftir því við Victor að hann veitti mér þá aðstoð. Eins og vænta mátti brást hann vel við bóninni og næstu fimm árin áttum við í reglulegum samskiptum vegna þessa. Þar ber hæst mörg kvöld síðari hluta vetrar þegar deildir félagsins höfðu lokið ársfundum sínum og við Victor settumst yfir frágang lokareikninga með góðri aðstoð samstarfsmanna hans, einkum Kristínar og Kristins sonar þeirra. Samtöl okkar Victors á þessum stundum áttu það til að dragast langt fram á kvöld og þá kynntist ég vel hvað hann var fróður, skynsamur og víðsýnn einstaklingur. Á þessum tíma var sá sjúkdómur sem hann hefur lengi barist við farinn að láta á sér kræla, einkum var sjónin farin að daprast. Hann hafði þá þegar gripið til mótvægisaðgerða, las tölurnar af stórum og björtum skjá og greip að auki til stækkunarglersins ef letrið var mjög smátt. Á þessum stundum skynjaði ég einnig vel hvað fjölskyldan og samheldni hennar var Victori mikils virði, hann var óendanlega þakklátur stuðningi Kristínar í hinu daglega amstri og stoltur af velgengni sona þeirra í námi og starfi. Það var líka ánægjulegt að sjá hinn vörpulega hóp þegar Victor mætti til mannamóta hjá KR með synina sér við hlið. Á síðari árum voru samskipti okkar Victors mest símleiðis og í gegnum sameiginlegan vin hef ég fylgst með erfiðri sjúkdómsbaráttu hans.

Fyrir hönd okkar félaganna frá 1963 er Victor Knútur kvaddur með mikilli virðingu og þakklæti fyrir kynni sem aldrei bar skugga á. Við vottum Kristínu, sonum þeirra Victors og öðrum afkomendum innilega samúð.

Guð blessi minningu Victors Knúts Björnssonar.

Þórður Jónsson.

Kær vinur hefur kvatt.

Þann 7. október lést á Landspítalanum æskuvinur minn Victor Knútur Björnsson.

Leiðir lágu saman í 9 ára D í Melaskóla 1955.

Victor kom nýr í bekkinn nýfluttur á Hjarðarhagann. Hann var stór eftir aldri og mjög góður í fótbolta, sem þótti kostur í 9 ára D.

Okkur varð strax vel til vina og hafði þar sjálfsagt áhrif áhugi okkar á fótbolta. Fórum ungir að æfa með KR og áttum eftir að verða þar samferða í gegn um alla yngri flokkana í sigursælu liði.

Fyrir utan fótboltann náðum við vel saman og hefur Victor frá þessum árum verið minn besti vinur.

Við vorum sessunautar í Hagaskóla og Versló. Eftir stúdentspróf skildi leiðir, ég fór í lögfræði en hann fór í endurskoðun hjá föður sínum Birni Knútssyni og tók við rekstri stofunnar við lát hans og stýrði henni með glæsibrag út starfsævina.

Við unnum saman seinustu ár okkar á vinnumarkaði, en þegar mig vantaði húsnæði 2018 bauð Victor mér horn hjá sér á Vesturgötunni.

Margs er að minnast þegar litið er til baka svo sem þegar hlaupið var heim á Hjarðarhaga í löngu frímínútunum í Meló og boðið upp á gos. Á Hjarðarhaga var forláta grammófónn. Man þegar við fórum saman í Fálkann til að kaupa nýjustu Elvis-plötuna One Night og var henni skellt beint á fóninn þegar heim var komið.

Á Verslóárunum var margt brallað og ævintýrin mörg. Hæst ber þó útskriftarför 4. bekks til Skandinavíu 1965. Bítlaæðið var í hámarki og komumst við á tónleika í Ósló með hljómsveitinni Animals, sem var ein af þeim stóru. Talsvert hafði verið fjárfest í plötum en vandinn sá að ekki var hægt að hlusta á dýrðina, en Victor leysti það; keypti forláta ferðaspilara og þar með var því bjargað.

Árin liðu, fjölskyldur stofnaðar og lífsbaráttan í fyrirrúmi, en aldrei slitnaði þráðurinn og samband okkar alltaf náið.

Seinasta ferðin var 2018 þegar við Þórunn fórum með Kristínu og Victori til Liverpool. Þar voru bítlaslóðir kannaðar, farið á Anfield og vel gert við sig í mat og drykk og áttum við frábæra helgi.

Heilsan eða heilsuleysið gerði honum þó ýmsa skráveifu seinustu árin. Aldrei heyrði ég hann kvarta þó að staðan væri stundum þröng. Með baráttu og þrautseigju hans, Kristínar og sonanna hefur hann að mestu leyti getað verið heima.

Í einkalífinu var hann gæfumaður, átti einstaka konu, Kristínu, sem alltaf stóð við hlið hans og lagði sig fram um það að gera honum lífið sem bærilegast þegar heilsunni hrakaði.

Þau eignuðust fjóra glæsilega syni sem hafa spjarað sig vel og barnabörnin eru átta, sem nú kveðja elskulegan eiginmann, föður og afa.

Við Victor vorum skólabræður, samherjar, sambýlingar og samstarfsmenn, en fyrst og fremst vinir og varði sá vinskapur í tæp 70 ár og fyrir það er þakkað í dag.

Ég kveð vin minn með söknuði, en sárastur er söknuður hans nánustu og eru þeim sendar innilegar samúðarkveðjur.

Forsjóninni er þakkað fyrir að hafa fengið að verða honum samferða um skeið.

Blessuð sé minning Victors Knúts Björnssonar.

Guðmundur Pétursson.