Peking Pútín talar við blaðamenn á ráðstefnu Beltis og brautar í gær.
Peking Pútín talar við blaðamenn á ráðstefnu Beltis og brautar í gær. — AFP/Sergei Guneyev
Vladimír Pútín forseti Rússlands sagði í gær að stjórnvöld í Washington hefðu gert mistök með því að senda hinar langdrægu ATACMS-eldflaugar til Úkraínu. Sagði Pútín að eldflaugarnar myndu ekki skipta sköpum í stríðinu og myndu aðeins „lengja í hengingarólinni“ og auka á þjáningu Úkraínu

Vladimír Pútín forseti Rússlands sagði í gær að stjórnvöld í Washington hefðu gert mistök með því að senda hinar langdrægu ATACMS-eldflaugar til Úkraínu. Sagði Pútín að eldflaugarnar myndu ekki skipta sköpum í stríðinu og myndu aðeins „lengja í hengingarólinni“ og auka á þjáningu Úkraínu. Hótun forsetans kom í kjölfar alvarlegrar árásar Úkraínuhers með ATACMS-eldflaugunum á þriðjudag þar sem talið er að þær hafi eyðilagt níu herþyrlur Rússa.

Pútín bætti við að stríð væri stríð og eldflaugarnar væru vissulega hætta fyrir Rússa, en þær myndu þó ekki hafa nein úrslitaáhrif í baráttunni. „Bandaríkin gerðu enn ein mistök, að senda eldflaugarnar til Úkraínu,“ sagði hann.

Stjórnvöld í Kænugarði hafa varað við því að Rússar séu að herða árásir sínar gegn bænum Avdívka, sem liggur skammt norðan við borgina Donetsk, þótt aðeins hafi hægst þar um síðustu daga. Talsmenn Úkraínuhers sögðu að sex hefðu fallið í loftárásum Rússa í gær svo vitað sé. Ígor Klímenkó innanríkisráðherra Úkraínu sagði að fimm hefðu fallið í loftárás sem gerð var á íbúðarhúsnæði í Saporísja og 31 árs gömul kona féll í loftárás á bæ rétt utan við borgina Dnípró.

Í gær var haft eftir Pútín að átökin í Mið-Austurlöndum væru að styrkja tengsl og vináttu Rússa og Kínverja. Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússa þakkaði Norður-Kóreu fyrir veittan stuðning við Rússa í stríðinu gegn Úkraínu, en yfirvöld í Kreml hafa þó neitað fullyrðingum Bandaríkjamanna um að Norður-Kóreumenn séu að senda vopn til Rússlands og segja þá halda þessu fram án nokkurra sannana.