Framleiðsla Ný metanólverksmiðja kínverska efnaframleiðandans Jiangsu Sailboat Petrochemical.
Framleiðsla Ný metanólverksmiðja kínverska efnaframleiðandans Jiangsu Sailboat Petrochemical.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Kínverski efnaframleiðandinn Jiangsu Sailboat Petrochemical, JSP, dótturfyrirtæki Shenghong Petrochemicals, eins stærsta fyrirtækis í Jiangsu-héraði á austurströnd Kína, hefur gangsett metanólverksmiðju sem knúin er með tækni frá íslenska hátæknifyrirtækinu Carbon Recycling International (CRI).

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Kínverski efnaframleiðandinn Jiangsu Sailboat Petrochemical, JSP, dótturfyrirtæki Shenghong Petrochemicals, eins stærsta fyrirtækis í Jiangsu-héraði á austurströnd Kína, hefur gangsett metanólverksmiðju sem knúin er með tækni frá íslenska hátæknifyrirtækinu Carbon Recycling International (CRI).

Verksmiðjan er að sögn Bjarkar Kristjánsdóttur, forstjóra CRI, ein sú skilvirkasta í heimi. Björk segir að árlega geti verksmiðjan endurnýtt 150.000 tonn af koltvísýringi úr rekstri JSP.

Framleiðslutæknin er byggð á íslensku hugviti og hefur verið sannreynd og prófuð í verksmiðju CRI í Svartsengi síðan árið 2012 að sögn Bjarkar.

Hún segir að verksmiðjan sé sú önnur talsins utan Íslands sem notfærir sér tækni CRI. „Eftir að hafa þróað tæknina hér heima fórum við í útflutning árið 2020 og gangsettum fyrstu verksmiðjuna í Kína árið 2022 fyrir verksmiðjueigandann Shunli. Nú hefur önnur verksmiðja bæst við,“ segir Björk.

Mæta á staðinn

Hlutverk CRI í ferlinu er að veita leyfi fyrir notkun tækninnar og afhenda búnað. „Við látum þeim í té verkfræðihönnun, leyfi, hvarfakút og efnahvata. Undir lok verkefnisins mætir teymi frá okkur á staðinn til að þjálfa rekstraraðila og styðja við gangsetninguna.“

Eins og Björk útskýrir getur tækni CRI nýst fyrir ólíkar tegundir viðskiptavina. „Hér heima á Íslandi var koltvísýringur úr jarðvarmavirkjun HS Orku á Reykjanesi notaður. Fyrsti viðskiptavinurinn í Kína framleiðir hráefni fyrir stáliðnað og nýja verksmiðjan nýtir kolefni frá framleiðslu á efnavörum. Tækni okkar er því mjög fjölbreytt og aðlögunarhæf. Það skiptir ekki máli hvaðan kolefnisstraumurinn kemur. Við blöndum svo koltvísýringnum saman við vetni og úr verður metanól sem um leið er umhverfisvænna en það metanól sem unnið er samkvæmt hefðbundum aðferðum.“

Björk segir að metanólið sem verður til sé bæði hægt að selja á heimsmarkaði og nýta í eigin framleiðslu eins og JSP gerir.

CRI vinnur nú að uppsetningu sambærilegrar verksmiðju í Noregi. Hún mun nýta sér koltvísýring sem fellur til við rekstur kísilmálmverksmiðju.

Björk segir að í því verkefni sé fyrirhugað að framleiða grænt vetni og nota með koltvísýringnum. Út úr því fæst „grænt“ metanól sem selst að hennar sögn á hærra verði á heimsmarkaði en hefðbundið metanól. „Okkar tækni getur nýtt hvaða vetni sem er.“

Björk segir að það sem breyst hafi frá því að CRI byrjaði að starfa með kínversku viðskiptavinunum sé að markaður fyrir grænt metanól hafi vaxið mjög mikið. „Grænt metanól er framleitt með vetni sem fæst með því að rafgreina vatn. Það er kostnaðarsamari ferill en þegar afgangsvetni úr iðnaði er nýtt. Skipa- og flugfélög sem vilja draga úr útblæstri þurfa á slíku eldsneyti að halda.“

Ýmis tækifæri blasa nú við CRI víða um heim að sögn Bjarkar enda hafa loftslagsmál verið mikið í deiglunni síðustu misseri og ár. „Meiriparturinn af okkar tækifærum og verkefnum í dag er utan Kína. Það er breyting frá því sem var fyrir nokkrum árum. Markaðurinn hefur breyst mjög mikið.“

Hún segir CRI njóta góðs af því að verksmiðjan á Íslandi sé fyrsta og eina vottaða verksmiðjan í heimi til framleiðslu á metanólrafeldsneyti. „Það er mikil sérstaða. Við erum með einstaka tækni á heimsvísu.“

Helmingur í Evrópu

Björk segir að um helmingurinn af þeim viðskiptatækifærum sem séu í pípunum hjá CRI í dag sé í Evrópu en um 25% séu í Asíu. „Svo eru Bandaríkin að koma hratt inn núna. Þarlend yfirvöld voru að gefa út nýja hvata til að minnka kolefnisspor í framleiðslu á endurnýjanlegum orkugjöfum, föngun koltvísýrings, framleiðslu vetnis og rafeldsneytis. Það hefur blásið lífi í bandaríska markaðinn.“

Græn metanólframleiðsla heimsins er í dag minna en 1% af heildarmarkaðinum að sögn Bjarkar. Hún segir að spár geri ráð fyrir að árið 2030 verði eftirspurn eftir grænu metanóli um átta milljónir tonna á ári. „Þetta er mjög spennandi. Hluti af magninu gæti komið úr framleiðslu sem nýtir sér okkar tækni. Það er vaxandi eftirspurnarþrýstingur og hann mun ýta verkefnum af stað. Því finnum við fyrir fjölgun á fyrirspurnum og verkefnum fyrir CRI um allan heim.“

Spurð um tekjumódel félagsins segir Björk að fyrirtækið fái greitt fyrir hönnun og leyfi til notkunar á sérhæfðum búnaði. Auk þess sé greitt fyrir þjónustu og þjálfun á staðnum. Hún segir að í framtíðinni hafi fyrirtækið tækifæri til að færa sig yfir í að rukka föst mánaðarleg leyfisgjöld.

Um þrjátíu vinna hjá CRI. Björk segir að fjöldi starfsmanna verði líklega orðinn nálægt fjörutíu um næstu áramót.

Tekjur CRI námu í fyrra um 7 milljónum bandaríkjadala eða 975 milljónum króna og var rúmlega fjögurra milljóna dala tap á rekstrinum.

Félagið kláraði fjármögnun síðastliðið sumar upp á þrjátíu milljónir dala að sögn Bjarkar sem samsvarar rúmlega 4,1 milljarði króna. „Norska fjárfestingarfélagið Equinor Ventures kom með stærsta hluta af fjármagninu inn en einnig bættust lífeyrissjóðurinn Gildi, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja og tryggingafélagið Sjóvá í hluthafahópinn. Nú höfum við nægt eldsneyti til að fjölga hjá okkur fólki og fylgja þessum verkefnum eftir sem eru í pípunum.“

Spurð að því hvað hún haldi að CRI geti orðið stórt í framtíðinni segir hún að fyrirtækið hafi alla burði til að verða leiðandi á sínu sviði. „Metanólmarkaðurinn er 100 milljónir tonna á heimsvísu. Spár segja að hann verði orðinn 500 milljónir tonna árið 2050, sem er aukning um 400 milljónir tonna. Mest af þessari aukningu mun koma úr metanóli með lágu kolefnisspori eða grænu metanóli eins og við leggjum áherslu á.“

Hún segir sem dæmi um stærð framleiðslunnar í Kína að tvær verksmiðjur af þeirri stærð gætu uppfyllt framtíðarþörf íslenska fiskiskiptaflotans fyrir eldsneyti.

Björk segir að lokum að gott gengi félagsins ýti undir og styrki nýsköpun á Íslandi. „Við erum sprottin úr íslensku umhverfi. Við erum að flytja tæknilausn á alþjóðamarkað, skapa ný störf og útflutningstekjur. Það er ótrúlega gaman að sjá starfsemina spretta upp og þroskast. Ég finn fyrir vitundarvakningu í nýsköpun á Íslandi, ekki bara fyrir sprota heldur líka fyrir fyrirtæki í vexti sem vilja fá tækifæri til að halda áfram að styrkjast hér heima.“

Metanól

Jiangsu Sailboat Petrochemical er staðsett í efnagarði Shenghong á einu stærsta efnavinnslusvæði í heiminum.

Fyrirtækið framleiðir um 2,5 milljónir tonna á ári af margs konar efnavörum, s.s. byggingarefni fyrir plastefni eins og plexígler og sólarselluíhluti.

Tekjur JSP á síðasta ári námu rúmlega 60 milljörðum bandaríkjadala.

Með tilkomu nýju verksmiðjunnar hefur tækni CRI nú getu til að endurvinna yfir 300.000 tonn af CO2 árlega.

Höf.: Þóroddur Bjarnason