Veggjakrot Engu er eirt á fasteignum í miðborginni, hvorki íbúðarhúsnæði né atvinnuhúsnæði. Krotað er á bárujárn og hlaðna veggi. Þessi hús standa við Ingólfsstræti og Hverfisgötu.
Veggjakrot Engu er eirt á fasteignum í miðborginni, hvorki íbúðarhúsnæði né atvinnuhúsnæði. Krotað er á bárujárn og hlaðna veggi. Þessi hús standa við Ingólfsstræti og Hverfisgötu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Okkur finnst að veggjakrotið sé að aukast og við viljum að tekið sé á því. Það þarf að ráðast á þetta strax. Bæði íbúar og verslunareigendur eru langþreyttir á þessu ástandi,“ segir Sigrún Tryggvadóttir, formaður Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur.

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Okkur finnst að veggjakrotið sé að aukast og við viljum að tekið sé á því. Það þarf að ráðast á þetta strax. Bæði íbúar og verslunareigendur eru langþreyttir á þessu ástandi,“ segir Sigrún Tryggvadóttir, formaður Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur.

Samtökin hafa lýst óánægju með ásýnd miðborgarinnar síðustu mánuði. Víða blasi við veggjakrot á húsveggjum sem bregðast þurfi við. „Þetta er þreytandi fyrir íbúa og ljótt að horfa upp á. Þetta er heldur ekki falleg sjón sem mætir öllum ferðamönnunum sem hingað koma.“

Í erindi frá samtökunum sem lagt var fram á fundi Íbúaráðs miðborgar og Hlíða var vakið máls á þessu og bent á að verulegur kostnaður geti hlotist af. Reykjavíkurborg þrífur aðeins krot af eignum borgarinnar en íbúar og verslunareigendur þurfa sjálfir að sjá um eigin þrif.

„Hér áður hafði borgin verktaka á sínum snærum sem þreif krotið af veggjum og girðingum eigendum að kostnaðarlausu en eigendur greiddu fyrir málningu og efni,“ segir í erindinu þar sem rakið er að í dag bjóði borgin upp á svokallaða fyrstu hreinsun. „Þetta úrræði dugar ekki þeim íbúum miðborgarinnar sem eru mest útsettir fyrir þessum skemmdarverkum því eina leiðin sem hefur dugað hingað til er að fjarlægja það strax og það getur reynst kostnaðarsamt ef það er krotað aftur og aftur,“ segir í erindinu. Sigrún segir í samtali við Morgunblaðið að hún hafi fengið þær upplýsingar að fáir hafi nýtt sér það þegar borgin bauð fyrir nokkrum árum upp á pensla og málningu til að bregðast við þessu.

Sigrún segir að fólki sé nú ráðlagt að tilkynna allt veggjakrot til lögreglunnar. Það virðist vera eina leiðin til að umfang þess verði ljóst. „Og fólk þarf að tilkynna að það sé að hringja inn nýja kvörtun. Ef margir hringja út af sama málinu er það skráð sem ein kvörtun nema fólk tiltaki að það sé að hringja inn nýja kvörtun. Ef það eru engar kvartanir þá er ekkert gert.“

Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu er verulegur kostnaður hjá Reykjavíkurborg á ári hverju við hreinsun á veggjakroti. Kostnaður við hreinsun á fasteignum, umferðarmannvirkjum og fleiru nam um 22 milljónum króna í fyrra.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon