Fjölmenni Þing Hringborðs norðurslóða verður sett í dag í Hörpu og á Reykjavík EDITION og stendur fram á laugardag en slík þing hafa verið haldin frá árinu 2013. Myndin er frá þinginu í Hörpu árið 2021.
Fjölmenni Þing Hringborðs norðurslóða verður sett í dag í Hörpu og á Reykjavík EDITION og stendur fram á laugardag en slík þing hafa verið haldin frá árinu 2013. Myndin er frá þinginu í Hörpu árið 2021. — Morgunblaðið/Eggert
Þing Hringborðs norðurslóða – Arctic Circle hefst í dag í Hörpu og á Reykjavík EDITION og stendur það fram á laugardag. Yfir 200 málstofur með um 700 ræðumönnum, utanríkisráðherrum, umhverfisráðherrum og forystumönnum vísindastofnana,…

Þing Hringborðs norðurslóða – Arctic Circle hefst í dag í Hörpu og á Reykjavík EDITION og stendur það fram á laugardag. Yfir 200 málstofur með um 700 ræðumönnum, utanríkisráðherrum, umhverfisráðherrum og forystumönnum vísindastofnana, umhverfissamtaka, fyrirtækja og frumbyggjasamfélaga eru á dagskrá þingsins en auk þess verður fjöldi móttaka, funda og listasýninga um málefni tengd norðurslóðum, loftslagsbreytingum, hreinni orku, auðlindum hafsins og fleiri sviðum.

Fram kemur í tilkynningu að yfir 2.000 þátttakendur frá nærri 70 löndum taka þátt í þinginu. Meðal þeirra verða Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, Sultan Al Jaber, forseti Loftslagsþings Sameinuðu þjóðanna, COP28, sjö umhverfisráðherrar frá Norðurlöndum og Evrópu, auk fjölda annarra leiðtoga frá ýmsum löndum.

Í tilkynningunni segir að á þinginu verði fjallað um framtíðarsýn formennskunnar í Norðurskautsráðinu, sem Noregur gegnir til ársins 2025. Þá verða viðfangsefni Loftslagsþings Sameinuðu þjóðanna, COP28, kynnt sérstaklega. Fulltrúar ríkisstjórnar Bandaríkjanna og bandarískra rannsóknarstofnana munu fjalla um varnarmál, framtíðarsamstarf milli norðurslóðaríkja og stefnu Bandaríkjanna á norðurslóðum. Á þinginu verður einnig fjöldi málstofa um þátttöku Asíuríkja á norðurslóðum. Einnig verður sérstaklega rætt um framtíð fjárfestinga á norðurslóðum. Þá mun formaður hermálanefndar NATO fjalla um stefnu Atlantshafsbandalagsins á norðurslóðum. Leiðtogar frumbyggjasamfélaga taka þátt, til að mynda Aslak Holmberg, forseti Samaráðs, Sara Olsvig, formaður Heimskautaráðs Inúíta, og Edward Alexander, leiðtogi Alþjóðaráðs Gwich’in. Einnig taka þátt fulltrúar Maóría, frumbyggja Nýja-Sjálands, og Mamos, frumbyggja Kólumbíu.

Íslenskir ráðherrar ásamt fulltrúum frá vísindasamfélagi og viðskiptalífi Íslendinga eru meðal þátttakenda í þinginu. G. Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis, mun ásamt Kristian Villumsen, forstjóra Coloplast A/S, tala um söluna á fyrirtækinu fyrr á þessu ári.

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, er forseti Hringborðs norðurslóða, sem hefur haldið árlegt þing í Hörpu síðan 2013.