Í tilefni þess að 40 ár eru liðin frá stofnun Hafnarborgar verður opnuð sýning á völdum verkum úr safneigninni í dag kl. 18. Hafnarborg var stofnuð með gjafabréfi sem hjónin Ingibjörg Sigurjónsdóttir og Sverrir Magnússon afhentu Hafnarfjarðarbæ 1. júní 1983. Stofngjöfin taldi „tæplega 200 listaverk eftir marga af frumherjum íslenskrar myndlistar og hefur safneign Hafnarborgar haldið áfram að vaxa æ síðan en hún telur að svo stöddu nærri 1.600 verk“, segir í tilkynningu. Á sýningunni getur að líta úrval verka sem safnið hefur eignast síðan 2008 eftir listamenn á borð við Egil Sæbjörnsson, Georg Guðna, Harald Jónsson, Hildigunni Birgisdóttur og Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur. Þá hafa sum verkanna ekki verið sýnd áður í Hafnarborg. Sýningarstjóri er Hólmar Hólm.