Handrit Katelin Marit Parsons, verkefnastjóri átaksins Í sporum Árna Magnússonar, sem hefur unnið að gagnagrunni til þess að hýsa handrit vesturfara.
Handrit Katelin Marit Parsons, verkefnastjóri átaksins Í sporum Árna Magnússonar, sem hefur unnið að gagnagrunni til þess að hýsa handrit vesturfara. — Morgunblaðið/Eggert
Árnastofnun mun opna nýjan gagnagrunn, að nafninu Handrit íslenskra vesturfara, í tilefni þess að 150 ár eru liðin frá fyrstu stóru brottför Íslendinga vestur um haf. Gagnagrunnurinn verður almenningi aðgengilegur og mun innihalda alls kyns handrit sem vesturfarar skildu eftir sig

Geir Áslaugarson

geir@mbl.is

Árnastofnun mun opna nýjan gagnagrunn, að nafninu Handrit íslenskra vesturfara, í tilefni þess að 150 ár eru liðin frá fyrstu stóru brottför Íslendinga vestur um haf. Gagnagrunnurinn verður almenningi aðgengilegur og mun innihalda alls kyns handrit sem vesturfarar skildu eftir sig.

Gagnagrunnurinn er kominn til vegna átaksverkefnisins Í fótsporum Árna Magnússonar í Vesturheimi. Opnunarþing undir sama nafni verður haldið í Eddu, húsi íslenskra fræða, næstkomandi laugardag ásamt styrktaraðila verkefnisins Þjóðræknisfélagið, sem mun halda hið árlega Þjóðræknisþing.

Þjóðræknisþingið hefst klukkan 11:00 og stendur til 13:20 og að því loknu hefst opnunarþingið með formlegri opnun gagnagrunnsins og röð fyrirlesara, þar á meðal eru Guðrún Nordal og Lilja Dögg Alfreðsdóttir ásamt verkefnastjóra átaksins, Katelin Marit Parsons.

Á Íslendingaslóðum

Í viðtali við Morgunblaðið segir Katelin að hún hafi byrjað að rannsaka íslensk handrit vesturfara árið 2009 í Árnastofnun, en þá ekki einu sinni komin í doktorsnám. „Ég var bara áhugasöm,“ segir Katelin.
Leit Einars G. Péturssonar að týndu handriti Jóns lærða gaf vonir um að handrit væri að finna í Winnipeg. Þá vildi svo til að foreldrar Katelin bjuggu í Winnipeg og í fríi hjá foreldrum sínum bauðst hún til þess að kynna sér málin á þeim slóðum.

Átakinu í fótspor Árna Magnússonar í Vesturheimi var hleypt af stokkunum árið 2015, þegar styrktaraðili fannst og hægt var að fara í skipulagðar ferðir til Kanada og Bandaríkjanna. „Við gátum þá farið í þessar vettvangsferðir og þá ekki bara í eitthvert safn, heldur fórum við í heimsóknir heim til fólks, þar sem það gaf okkur leyfi til þess að skoða efni á íslensku sem það átti heima hjá sér,“ segir Katelin.

Sameiginlegur arfur

Aðspurð hvaða staðir voru heimsóttir, taldi Katelin upp langan lista, en hér ber að nefna staði á borð við Manitoba, Minnesota, Norður-Dakóta, sem og Seattle og bæi þar í kring.

Í heimsóknunum voru teknar stafrænar myndir af handritunum og tekur Katelin sérstaklega fram að tilgangur verkefnisins hafi aldrei verið að koma þessum handritum til Íslands: „Þetta hefur líka merkingu fyrir fólk í Kanada og Bandaríkjunum og þetta er sameiginlegur arfur, eitthvað sem við eigum öll sameiginlegt.“

Katelin segir verkefnið ekki búið, en að komin séu yfir þúsund handrit, myndir og bréf sem þau ætla að opna aðgang að og Katelin segir fólkið vestanhafs hafa verið rosalega opið með það að gefa fólki aðgang að handritum í sínum fórum. „Þetta er ekki bara fyrir einhverja fræðimenn,“ segir Katelin enn fremur.

Saga handritanna

Vefurinn mun ekki einungis gera handritin aðgengileg, heldur mun hann einnig gera grein fyrir eigendum handritanna, uppruna og sögu þeirra. Aðspurð hvort þau hafi líka skoðað þær bækur sem vesturfarar tóku með sér, svarar Katelin játandi og segir: „Það var ekki mikið af dóti sem fólk tók með sér, það var það allra praktískasta og svo bækur.“ Megináherslan var þó lögð á að skoða handritin og verða þau aðgengileg á nýjum vef Árnastofnunar.

Höf.: Geir Áslaugarson