— Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Umferð á Reykjanesbraut nærri Straumsvík verður frá því í næstu viku og fram á mitt næsta ár beint um hjáleið sem nú hefur verið útbúin. Þetta tengist því að framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar, það er milli afleggjarans inn á Krýsuvíkurveg syðst í Hafnarfirði og að Hvassahrauni, eru hafnar

Umferð á Reykjanesbraut nærri Straumsvík verður frá því í næstu viku og fram á mitt næsta ár beint um hjáleið sem nú hefur verið útbúin. Þetta tengist því að framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar, það er milli afleggjarans inn á Krýsuvíkurveg syðst í Hafnarfirði og að Hvassahrauni, eru hafnar. Þetta er 5,6 kílómetra langur vegur sem nú verður gerður tvíbreiður til beggja átta. Hluti af verkinu er bygging alls sex brúa eða undirganga, ýmist steyptra eða úr stáli. ÍAV hefur þetta verkefni með höndum og hafa starfsmenn fyrirtækisins hafið framkvæmdir og að skapa sér aðstöðu á svæðinu.

Á Reykjanesbraut, rétt innan við Straumsvík og nærri þeim stað þar sem hjáleiðin hefur verið útbúin, verða tvenn undirgöng. Önnur verða fyrir umferð gangandi og hjólandi fólks. Hin verða fyrir bíla en með því stendur til að skapa góða tengingu milli iðnaðarhverfisins í hraununum sunnan við Reykjanesbraut og Straumsvíkurhafnar. Reykjanesbrautin, frá Fitjum við Njarðvík og í Hvassahraun, er fyrir nokkrum árum orðin tvíbreið. Eftir er síðasti spottinn; það er frá Hvassahrauni að Völlunum í Hafnarfirði. Nú eru framkvæmdir þar hafnar, eins og að framan er lýst, og á verkinu að vera lokið um mitt ár 2026, segir Jón Heiðar Gestsson, verkefnisstjóri og verkfræðingur hjá Vegagerðinni. sbs@mbl.is