Stefán Ármann Þórðarson fæddist 30. september 1929. Hann lést 22. september 2023. Útför fór fram 6. október 2023.

Haustlitur trjánna minnir okkur ávallt á síðdegi ævinnar og „blómstrið eina“. Allt hefur sinn tíma. Með skömmum fyrirvara kvaddi Stefán Ármann, fyrrverandi samstarfsmaður minn. Það er ástæða til að minnast hans með þökk og nokkrum orðum.

Ég tók Stefán tali öðru hvoru á liðnum árum en fyrir stuttu áttum við gott samtal. Við ræddum um síðdegisgönguna okkar. Hann sagði að það væri farið að þyngjast ögn fyrir fæti og hann væri farinn að hægja á göngunni. Þá væri bara að taka deginum með smá hvíldum. Hinsta hvíldin kom svo án mikils fyrirvara. En svona er lífið. Við rifjuðum upp samstarfið í Félagi eldri borgara. Þar var hann virkur starfsmaður, gjaldkeri okkar og bókhaldsráðgjafi til margra ára. Það var ætíð svo notalegt og traustvekjandi að leita ráða hjá Stefáni. Samfélag sem hefur starfsmann sem hann í stjórnar- og ábyrgðarstörfum nær ávallt farsælli niðurstöðu í verkum sínum. Við félagar hans meðal eldri borgara á Selfossi þökkum honum ljúfa og trausta liðveislu. Ég þakka honum fyrir samstarfið og notalega samveru á heimili hans og dreg hér fram áberandi mannkosti og hæfileika.

Einstakur öðlingsmaður

óspar til verka var hraður

öldruðum aðstoð gaf hann.

Með fjármál öll farsæl á hreinu

og fipaðist ekki í neinu

við þekktum mörg þennan mann.

Til mannsins var mjög gott að leita

einu má samt ekki neita

í hávegum hógværð var sett.

Í bókhaldi' og bankanum vann hann

betur en margir þar lausn fann

nikkuna handlék hann nett.

Góður drengur er kvaddur. Aðstandendum og vinum færi ég innilegar samúðarkveðjur.

Hjörtur Þórarinsson.