Gunnlaugur Snædal fæddist á fæðingardeild Landspítalans á þjóðhátíðardaginn 17. júní árið 1959. Hann lést á Borgarspítalanum í Reykjavík 6. október 2023.

Foreldrar Gunnlaugs voru Gunnlaugur Snædal læknir, f. 13. október 1924, d. 7. september 2010, og Berta Andrea Jónsdóttir Snædal, húsmóðir og læknaritari, f. 4. nóvember 1924, d. 1. janúar 1996. Bræður Gunnlaugs eru Jón Snædal og Kristján Snædal.

Gunnlaugur kynntist eiginkonu sinni Soffíu Káradóttur, f. 7. október 1962, snemma árs 1982 og giftust þau þann 19. nóvember árið 1983. Þau hefðu því fagnað 40 ára brúðkaupsafmæli í næsta mánuði.

Börn Gunnlaugs og Soffíu eru: Kári, f. 4. mars 1985, eiginkona María Ólafsdóttir, þau eiga þrjú börn, Gunnlaug Óla, Evu og Ingvar Braga; Arnar, f. 20. maí 1988, sambýliskona Iða Þorradóttir; Berta, f. 29. desember 1993.

Gunnlaugur ólst upp í Hvassaleitinu í Reykjavík, gekk í Hvassaleitisskóla og útskrifaðist frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1979. Hann hóf störf hjá Íslenska útvarpsfélaginu (nú Sýn) árið 1994 og starfaði þar óslitið til hinsta dags. Gunnlaugur og Soffía dvöldu nokkur ár í Danmörku en bjuggu fjölskyldunni heimili í Laugardal við heimkomu. Í barnæsku var hann í sveit hjá frændfólki sínu austur á Eiríksstöðum á Jökuldal og á stóran frændgarð fyrir austan sem hann hefur ætíð haldið góðu sambandi við.

Gunnlaugur var virkur í starfi Rafiðnaðarsambands Íslands, RSÍ, og sinnti ýmsum sjálfboðaliðastörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í gegnum tíðina.

Gunnlaugur var fyrst og fremst einstakur fjölskyldumaður og afi, en um leið traustur vinur og vinnufélagi. Hann var handlaginn, víðlesinn og mikill húmoristi og verður minnst fyrir óbilandi góðmennsku og hjálpsemi.

Útför Gunnlaugs fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 19. október 2023, klukkan 13.

Hvernig kveður maður mestu ást lífs síns? Besta vin sinn, besta föður sem börn gætu átt, besta afa sem barnabörnin gætu fengið, traustan vin og samstarfsfélaga og mikinn húmorista? Þann sem staðið hefur við hlið manns í gegnum súrt og sætt í tæp 42 ár? Það er bara ekki hægt. Sorgin sem er alltumlykjandi og kæfandi mun vonandi smám saman minnka. Það er margsannað að tíminn mun ekki lækna sorgina en maður þarf að læra að lifa með henni. Að fá sjúkdóm sem ekki gefur neitt eftir er virkilega erfið og hörð reynsla og bara á tveimur árum brýtur niður sterkan og dugmikinn mann. Það sannar að lítið réttlæti er til í heiminum. Sem betur fer er margs að minnast. Það besta kemur fram í yndislegum afkomendum.

Mikil sorg í hjarta mínu nú býr

en á morgun kemur þó dagur nýr.

Það er sá harmur sem ég ber inni mér

að finna það á morgun að þú ert ei hér.

Aldrei get ég skilið hví hann tók þig svo fljótt,

hvernig get ég hér eftir verið rótt.

Í þeirri götu sem ég þig fyrst sá

mikinn söknuð og harm ég finn fyrir þá.

Því komið er stórt gat í mínu hjarta,

ég sé bara fyrir mér framtíð svarta.

Hvernig á ég að geta fyllt upp í það?

Enginn mun geta komið í þinn stað.

Komdu aftur, komdu til mín,

ég ætíð vildi vera þín.

Um aldur og alla ævi mína.

Við áttum að fá lengri tíma

Hví þurfti þetta að gerast,

af hverju nú?

Hví ekki þegar við yrðum gömul

af hverju þú.

(Katrín Ruth Þ.)

Þín eiginkona,

Soffía.

Það er einn kaldan eftirmiðdag þegar ég kem heim á Nesbalann og geng upp að húsinu að það heyrist kallað: Þú færð aldrei skúrinn þinn aftur frú María! Skömmu síðar heyri ég óm frá útvarpi og sé tengdaföður minn glaðhlakkalegan á svip inni í bílskúr þar sem hann var alsæll að sinna einhverri viðgerðinni. Ég á margar svona góðar minningar, tengdapabbi eitthvað að brasa, lána okkur verkfæri, hjálpa okkur að stilla ofnana, dytta að, aðstoða Kára með bílamál, drekka te og bara spjalla og knúsa afabörnin. Alltaf boðinn og búinn að hjálpa og þá skipti engu máli hvort hann væri heima eða í vinnunni því það var minnsta mál að skreppa bara (lengst út á Nes) í hléi eða mat.

Við tengdapabbi deildum brennandi áhuga á íslenskri málfræði. Sérstakt dálæti höfðum við á stafsetningarvillum og sendum þær á milli eins og brandara. Verst þótti Gulla að sjá villur í Mogganum sínum en Moggann áttum við líka sameiginlegan. Þar vann ég sem blaðamaður þegar við Kári byrjuðum að vera saman og Gulli skrifaði í Moggann heim frá Danmörku hér í denn. Í ræðu Gulla í brúðkaupinu okkar kom líka í ljós að í honum bjó rannsóknarblaðamaður en þá ljóstraði hann því upp hvað hann hafði haft mikið fyrir því að komast að því hver ég var. Sú ræða er okkur eftirminnileg fyrir orðsnilld Gulla og góðan húmor.

Eftir að börnin okkar Kára komu í heiminn kallaði ég Gulla oftast bara afa enda bar hann þann titil með miklu stolti. „Fjögur fyrir fertugt,“ sagði hann einhvern tímann við mig í léttu gríni en þessi þrjú á fjórum árum voru nú alveg á við fjögur og nóg að gera hjá afa. Allar litlu stundirnar eru dýrmætastar þegar upp er staðið, 17. júní og afmælið hans afa, afi og við hin uppi á þaki á Nesbala að horfa á flugeldana á gamlárskvöld, sunnudagsmatur í Vesturbrún og börnin svo glöð þegar afi kom heim af vakt og stundum með pabba. Útilega með ömmu og afa var líka ómissandi hluti af sumrinu og algjört sport að fá að vera í hjólhýsinu og aðstoða ömmu og afa þar við ýmislegt.

Elsku besti Gulli minn. Síðustu tvö ár voru erfið en þú hélst alltaf í bjartsýnina og vonina. Það gerðum við líka og vonuðum alltaf það besta. Því er erfitt að kyngja að allt hafi farið á versta veg. Ég syrgi þig fyrir börnin mín sem hafa ekki aldur til að skilja þann stóra missi sem við höfum orðið fyrir. Skilja ekki tómið sem þú skilur eftir og óréttlætið sem við finnum fyrir. Ég græt allar stundirnar sem þú munt ekki fá með börnunum okkar og fjölskyldunni þinni og lífið verður ekki samt án þín.

Takk fyrir samfylgdina minn ljúfasti tengdapabbi, sárið mun gróa en örið verður stórt.

Þín tengdadóttir,

María (Mæja).

Gulli bróðir fæddist á þjóðhátíðardaginn, 17. júní 1959. Þegar hann var barn fannst honum skemmtilegt að borgarbúar skyldu samfagna honum með skrúðgöngum og fánum. Mamma var heimavinnandi þótt hún hefði ágæta menntun miðað við konur af hennar kynslóð. Pabbi var læknir á Landspítalanum og vann mikið. Tveir bræður voru fyrir, Kristján sjö ára og Jón níu ára.

Æskuheimili Gulla var í Hvassaleiti 69 og þar bjó hann þar til hann kvæntist Soffíu sinni í nóvember 1983. Flestir ættingjar bjuggu fyrir austan og gestakomur voru tíðar og nokkur ungmenni höfðu lengri eða skemmri dvöl á heimilinu vegna skólagöngu. Þegar gestir komu lék Gulli á als oddi. Hann var ófeiminn og sagði skoðanir sínar alveg óumbeðinn. Hann varð því mjög vel tengdur stórfjölskyldunni og hélt þeim tengslum alla tíð.

Gulli var fjörugt barn, var stöðugt að og hafði líflegt hugmyndaflug. Hann varð snemma áhugasamur um tæki og tól og því lá beint við fyrir hann að gera tæknimál í sjónvarpi að ævistarfi. Hann var yngstur og naut þess að hafa enga samkeppni að ráði innan fjölskyldunnar. Það má vafalaust halda því fram að hann hafi notið eftirlætis en þó varð það ekki til að spilla honum. Hann erfði ýmsa góða eiginleika frá foreldrum sínum; framkvæmdasemi og málgleði frá pabba og gott geðslag frá mömmu, eiginleikar sem komu honum oft vel í lífinu. Hann naut góðrar æsku og bjó alltaf á sama stað við gott atlæti og öryggi. Hann öðlaðist gott sjálfstraust, lét fátt hagga sér og var yfirleitt í góðu skapi. Hann sá alls staðar tækifæri og var jákvæður. Hann varð félagslega sterkur, eignaðist góða vini í nágrenninu og síðar í skóla og félagslífi.

Á síðari árum borðuðum við bræðurnir þrír oft saman í hádeginu og fórum saman í bústaðinn í Jökuldalsheiði. Ferðin sem við Gulli fórum tveir saman sumarið '21 er sérlega minnisstæð. Við nutum blíðviðris í heiðinni, veiddum og böðuðum okkur í vatninu. Þá kom til tals að hann væri einn elsti starfsmaður Stöðvar 2. Ég spurði hvernig á því stæði að hann hefði sloppið í endurskipulagningum og uppsögnum. Hann svaraði eins og ekkert væri sjálfsagðara: „Með því að gera mig ómissandi.“

Á þessum tíma var hann farinn að finna fyrir meininu þótt ekki væri búið að greina það. Hann fór í skoðun þegar heim kom og þá greindist hvers kyns var. Við tók erfið meðferð sem hann gekk að eins og hverju öðru verkefni. Hann sýndi mikið æðruleysi og var hvorki reiður né bitur. Síðustu ferðina austur fór Gulli sl. sumar með Bjössa Blöndal æskuvini sínum. Hann var mjög ánægður með ferðina og að hafa notið samvista við góðan vin.

Gulli var góður fjölskyldufaðir og afi. Hann bar hag barna sinna alltaf fyrir brjósti og samskiptin voru mikil. Fjölskylda Gulla er samheldin og sterk og hefur það ekki síst komið í ljós í veikindum hans. Soffía stóð við hlið hans eins og klettur, fylgdi honum í læknisheimsóknir og setti sig inn í alla meðferðina sem var töluvert flókin. Nú eru erfið tvö ár að baki. Við syrgjum sárt góðan bróður, eiginmann, föður og afa en gleðjumst jafnframt yfir góðu lífi hans.

Jón G. Snædal.

Manni verður orða vant þegar komið er að því að rita minningarorð og kveðja alltof snemma Gunnlaug Snædal, kæran frænda sem bar nafn ættarinnar sem kennir sig við Eiríksstaði á Jökuldal.

Gulla frænda mínum man ég fyrst eftir sem sumarvinnumanni hjá afa og ömmu á Eiríksstöðum, en amma var föðursystir hans. Milli þeirra þriggja átti eftir að ríkja gagnkvæm virðing og ástríki á þeirra samleið. Hann kom þangað fyrst til dvalar níu ára gamall og nefndi afa ætíð fóstra eftir það. Afi eða fóstri sem var einstaklega gætinn maður, en treysti Gulla á öðru sumri fyrir stjórn á gráa Ferguson sem var eina vélin á bænum og búinn greiðusláttuvél. Gulli vissi að til að halda traustinu mætti hann ekki óhlýðnast fóstra sínum og fékk þau tilmæli að halda sér í 1. eða 2. gír. Næsta sumar á eftir voru engin fyrirmæli um hvaða gír skyldi notaður og traustið til hans 100% enda Gulli einstaklega næmur og laginn við vélar, bíla og tæki sem nýttist honum vel. Sem ungur maður vann hann sem gröfumaður á sumrin við slóðagerð og undirbúning Fljótsdalsvirkjunar sem þá var í bígerð. Frændi minn var skemmtilegur og glettinn maður sem var gaman að umgangast og alls staðar vel liðinn. Vitnisburð fékk hann frá vinnuveitanda sínum að vart hefði hann haft snyrtilegri mann í meðförum og umhirðu véla. Er ég sagði tveimur vinnufélögum frá þessum árum við andlát hans féllu lofsamleg orð um góðan og eftirminnilegan mann.

Í minningunni kemur upp ferð til Reykjavíkur, ég þá trúlega eitthvað innan við tvítugt. Gulli sótti mig á Reykjavíkurflugvöll á Land Rover R 5655 og rúntaði með mig um alla borg og fræddi mig um hana sem þá var undir stjórn okkar flokks Sjálfstæðismanna. Við vorum báðir áhugamenn um pólitík og þarna áttu sér stað okkar fyrstu samtöl um landsmálin sem áttu eftir að verða mörg í gegnum árin. Í raun var sama hvar komið var við um hin ýmsu málefni, hann var víðlesinn og vel að sér. Hann fylgdist vel með því sem maður var að gera og sendi ég frænda oft snöpp um það sem ég var að bjástra, sem hann svaraði með spurningum eða góðum ábendingum.

Órjúfanlegar minningar um Gulla og frændfólk mitt eru tengdar sumarhúsi þeirra við Gripdeild á Jökuldalsheiði. Hann átti sínar gæðastundir þar og nú síðast í sumar með Birni Blöndal, vini sínum til margra ára. Mér er nú í huga þakklæti fyrir samveruna í sumar. Kveðjustundin og faðmlag okkar er geymd í hjarta mínu, við ætluðum að hittast aftur sem fyrst en án orða vissum við jafnframt að ekkert er sjálfgefið. Í veikindum sínum var hann ætíð jákvæður og var fullur eldmóðs að komast yfir þennan erfiða hjalla. Gulla mínum þakka ég alla þá velvild, gæði og greiðvikni á okkar samleið og þar sem ég trúi á líf í öðrum víddum veit ég að frændi verður með mér á ferð um heiðina um ókomna tíð.

Fólkinu hans, Soffíu, Kára, Arnari, Bertu og fjölskyldum, bræðrum sem og öðru venslafólki votta ég mína dýpstu samúð.

Blessuð sé minning Gunnlaugs Snædal.

Sigvaldi H. Ragnarsson.

Gunnlaugur Snædal var einstakur maður að öllu leyti, greindur og kátur maður, fríður sýnum, hávaxinn, grannur og bar sig vel. Hann var skarpgreindur, fylgdist með þjóðmálum og lá ekki á skoðunum sínum. Framar öllu var hann hógvær og kurteis rétt eins og hann átti kyn til.

Ég minnist atviks sem gerðist fyrir mörgum áratugum. Þannig var að ég fór á árshátíð hjá Heimdalli, félagi ungra sjálfstæðismanna. Ég var með miða fyrir tvo en sú sem ég hafði boðið með mér forfallaðist. Því leit út fyrir að ég yrði að fara einn, og það leist mér alls ekki á. Þess vegna bauð ég Soffíu dóttur hennar Þuru systur minnar með mér. Ballið var í Þórskaffi og þar var kominn fjöldinn allur af góðu fólki sem snæddi saman, drakk og skemmti sér.

Örlögin spinna þráð sem fæstir sjá. Fyrir tilviljun sat Gunnlaugur Snædal við borðið okkar og ég kynnti hann fyrir frænku minni og þau spjölluðu saman en ég gaf því engan gaum. Seint næsta dag hringdi systir mín í mig og kvartaði undan því að dóttirin væri ekki enn komin heim. Loks er Soffía kom heim hafði tilveran breyst um alla framtíð. Í stuttu máli: Gulli var kominn inn í líf hennar, þau voru yfir sig ástfangin og hamingjusöm, giftust og áttu börn og buru.

Svo var það þetta með þjóðmálin. Árið 1984 fóru starfsmenn Ríkisútvarpsins í verkfall. Var þá hvorki skeytt um almenning né öryggi hans. Nokkrum ungum sjálfstæðismönnum fannst fréttaleysið ótækt og stofnuðu sjálfstæða útvarpsstöð. Hún var talin geysilega alvarlegt lögbrot. Löggan leitaði að þeim sem rufu lögbundna einokun Ríkisútvarpsins rétt eins og þeir væru glæpamenn og frjálst útvarp myndi raska grundvelli samfélagsins. Einn af þessum sjálfstæðimönnum var Gunnlaugur Snædal sem þá bjó í háhýsi við Austurbrún. Þar var sett upp loftnet og náðust útsendingarnar út um alla borg. Eftir níu daga starfsemi gat löggan loksins miðað út sendistöðina og þá var stutt í endalokin. Skæruliðastarfseminni frjálsu útvarpi lauk enda hafði það raskað hagsmunum, friði og andlegri ró ríkisstarfsmanna í verkfalli. Þessi atburður og fleiri leiddu til þess að útvarp og sjónvarp var síðar gefið frjálst á Íslandi. Gulli var stoltur af þátttöku sinni í baráttunni gegn óréttlætinu. Hann var hugsjónamaður og tók til hendinni.

Gulli og Soffía voru höfðingjar heim að sækja. Alltaf tilhlökkunarefni að koma á heimili þeirra, hitta skemmtilegt fólk í jólaboðum, afmælum og af öðrum tilefnum. Hvað finnst þér um þetta mál? spurði Gulli, og svaraði oft sjálfur. Upp spruttu fjörlegar umræður um þjóðfélagsmál og gaf enginn eftir því í minni stórfjölskyldu þykir sá háværasti rökfastari en aðrir. Þó voru allir sammála, svona nokkurn veginn. Oftar en ekki var þó rökrætt á skaplegan hátt um menn og málefni.

Sárt er að missa Gulla, þann einstaka og góða mann og það aðeins rúmum þremur vikum eftir andlát Kára, föður Soffíu. Sorg hennar, Kára, Arnars og Bertu er mikil og barnabörnin hafa misst besta afa í heimi.

Við Heiðrún, Grétar og Bjarki sendum fjölskyldunni og ættingjum Gulla innilegustu samúðarkveðjur.

Sigurður Sigurðarson.

Við Gulli börðumst gegn því sem við kölluðum „kokteilliðið“ í Sjálfstæðisflokknum, þegar við, í „forvígi framhaldsskólanema“, unnum sögulegar stjórnarkosningar í Heimdalli árið 1981. Ég varð formaður og hann varaformaður.

Við settum stefnu á að ná sambandi við ungt fólk, verja frelsið, benda á hættur helsis. Við lögðum m.a. áherslu á umhverfismálin, sem þá voru hvergi hátt skrifuð. Svo mjög að snemmbær „umhverfissinni“, Elín heitin Pálmadóttir blaðamaður á Morgunblaðinu, tók andköf af hrifningu. Við vildum að menn huguðu að umhverfinu í samfélagi okkar og styddu einstaklingsfrelsið í öllum athöfnum. Annar Gulli, núverandi umhverfisráðherra sem þá var að feta sig inn í Menntaskólann á Akureyri, fylgdist með af áhuga. Við vildum sýna í verki að Sjálfstæðisflokkurinn, flokkur einstaklingsfrelsis, ver þá sem minna mega sín.

Öll er þessi lýsing um „kokteilliðið“ nokkuð öfgakennd. Átti að tákna að menn væru búnir að drekkja grunngildunum í stefnunni, að berjast fyrir einstaklingsfrelsi, frelsi með ábyrgð, jafnrétti í raun.

Auðvitað voru þetta alhæfingar ungra baráttumanna. En það gaf kraft að trúa því þá og aðhaldið ætíð mikilvægt.

Síðar sáum við þá sem við „kepptum við“ sem góða og gegna einstaklinga, með sömu drauma og við um betra og heilbrigðara samfélag. Við brostum stundum að þessari einföldun þegar við hittumst, í sama mund og við vorum stoltir af því að hafa hrært upp í rótgrónum skoðanagildum kærra samflokksfélaga sem við metum mikils.

Það er tími til kominn að upplýsa um eftirminnilegar athafnir með Gulla.

Þegar umræða um „ráfandi unglinga á Hallærisplani“ var í hámæli datt einum snillingi í hug, þá formanni Heimdallar, Kjartani Gunnarssyni, að það kynni að vera farsælla að gefa unglingunum eitthvað heitt og hollt að drekka; kakó, fremur en saka þá um slæma drykkjusiði. Við Gulli stigum fram með honum, ásamt ýmsum öðrum sem nú eru framáfólk í þjóðfélaginu.

Það var undir formerkjum „Hróa hattar“. Við veittum ókeypis kakó úr vagni á planinu. Engin pólitísk tengsl voru viðurkennd eða fjallað um. Hér var bara hinn kunni „Hrói höttur“ að verki. Aðeins hugsun um að reyna nýjar leiðir til að forða æsku borgarinnar frá fréttum um „ráfandi unglinga á götum borgarinnar“.

Þegar við Gulli hittumst síðar þurfti ekki mörg orð, við brostum hvor til annars, minntumst heiðarlegra hugsana og markmiða í þágu fólksins, skildum baráttuna okkar, gengum svo hvor sína leið inn í lífið. Gleymdum ekki hugsjónum okkar.

Við vorum samherjar. Það eitt skipti máli.

Gulli er þannig í minni minningu: heill, góður drengur, maður einstaklingsfrelsis, þar sem siðfræðin kallar á að allir menn njóti sanngirni og að við hjálpum þeim sem verða undir.

Guð blessi hann, blessi góða fjölskyldu í sorginni.

Samúðarkveðjur frá okkur Bryndísi til fjölskyldunnar allrar.

Góð minning lifir ætíð.

Árni Sigfússon.

Það var mikil gæfa að fá að verða samferða Gunnlaugi Snædal. Ég kynntist honum fyrst fyrir ríflega 40 árum þegar ég gekk í Heimdall en þá var hann varaformaður félagsins. Liðlega 10 árum síðar urðum við svilar þegar ég og Úlla gengum í hjúskap. Samfylgdin er því orðin löng og náin.

Gunnlaugur var einstakt valmenni og lundarfar hans þannig að hann átti mjög auðvelt með öll mannleg samskipti. Hann lagði gott til allra mála og hallmælti aldrei nokkrum manni. Einnig var hann ávallt reiðubúinn til að rétta öðrum hjálparhönd og var úrræðagóður. Þetta gerði Gunnlaug vel þokkaðan og vinsælan. Í þeim efnum má nefna að þegar hann stundaði nám í Menntaskólanum við Hamrahlíð var hann kjörinn forseti nemendafélagsins og var það nokkurt afrek þegar haft er í huga að hann var yfirlýstur hægrimaður. Á þeim tíma, laust fyrir 1980, þótti MH-ingum fátt lúðalegra undir sólinni en Heimdellingar nema ef vera kynni nemendur við Verzlunarskóla Íslands.

Um árabil vorum við Úlla búsett við sömu götu og Gunnlaugur og Soffía og sóttu börn okkar mikið til þeirra. Gunnlaugur var afar natinn við börn og náði vel til þeirra. Hann var líka oft að fást við eitthvað sem vakti áhuga þeirra og var gefandi. Þannig myndaði hann tengsl við þau sem rofnuðu ekki þegar þau uxu úr grasi.

Gunnlaugur var mjög fróður og hafði alltaf frá einhverju áhugaverðu að segja. Þannig var ávallt tilhlökkunarefni að hitta hann og njóta hans þægilegu nærveru. Hún stafaði af hans jafnaðargeði og einhverjum eiginleika sem ekki verður lýst en veldur því að minningin um hann er einstök og mun lifa með okkur sem þekktum hann.

Fyrir liðlega tveimur árum greindist Gunnlaugur með illvígan sjúkdóm. Hann tókst á við þau erfiðu veikindi af æðruleysi með ríkan vilja til að halda áfram eins lengi og unnt var. Þannig hlífði hann sér hvergi heldur vildi vera til staðar fyrir sitt fólk.

Ég og Úlla vottum Soffíu og börnum þeirra og barnabörnum okkar dýpstu samúð.

Benedikt Bogason.

Við Gulli vorum bestu vinir, líka Haukur; bjuggum í Hvassaleiti 69, 75 og 83. Átta ára gamlir gengum við Gulli iðulega samsíða þessa 300 metra í Hvassaleitisskóla með skólatöskurnar á bakinu og handleggina vafða um axlir hvor annars sem var í sjálfu sér ekki þægileg staða en þeim mun meira væntumþykjuleg. Álíka smávaxnir snáðar framan af, góðir í stærðfræði og aðstoðuðum Kristínu Ísfeld við að leiðbeina samnemendum okkar sem kunnu ekki á stærðfræðina. Unnum náið saman í skólaverkefnum, eitt þeirra í 10 ára bekk var að fjalla myndskreytt um Austurland sem Gulli hélt í hávegum enda ættaróðalið hans Eiríksstaðir á Jökuldal. Okkur fannst tilefnið kalla á póetíska nálgun og ortum saman eftirfarandi ljóð: „Seyðisfjörður er síldarbær/ þar er mikill sær/landið allt er vogskorið/ þar kemur snemma vorið.“ Við vorum ágætlega stoltir af þessari smíð.

Gulli, Haukur og ég dvöldum mikið í Hvassaleiti 69. Þar réði ríkjum Berta mamma hans Gulla, geislandi af ljúflyndi og manngæsku. Gunnlaugur eldri birtist af og til milli spítalastarfanna, alltaf hress og kátur. Hann kallaði okkur þrjá „fóstbræður“ og það var réttnefni. Margt brölluðum við innandyra í herbergi Gulla, í leynifylgsninu okkar undir stiganum og svo auðvitað í bílskúrnum sem var „okkar“. Við vorum almennt fyrirmyndardrengir og Gulli gerði aldrei neitt á hlut annarra. Hann var tryggðatröll, gerði ekki gys að öðrum og leyndarmál voru vel geymd hjá honum. Elementið að upphefja sjálfan sig á kostnað annarra var ekki til í huga hans. Skammarstrikin okkar er hægt að telja á fingrum annarrar handar; eins og t.d. þegar við stálum/ „fengum lánaðan“ tjörupappa hjá Hitaveitunni til að einangra smíðakofann okkar og þegar við níu ára gamlir af einhverjum óskiljanlegum ástæðum lögðum eina góðviljaða konu á róluvellinum í einelti og kölluðum hana ljótum nöfnum. Ég skil ekki enn þá hvað kom þá yfir okkur.

Á unglingsárunum höfðu Bogi Þór og Steini Indriða bæst við vinahópinn. Við vorum þéttur hópur og Hvassaleiti 69 áfram oft félagsheimilið okkar en Gulli stundum fullheimakær að okkar hinna mati, lítið fyrir ærslafengna áfengisneyslu og fíflaskap sem sótti stundum á okkur hina á menntaskólaárunum. Sautján ára varð Gulli nánast samvaxinn græna Saab 96-bílnum og við hinir nutum mikils góðs af því. Drengurinn var ætíð tilbúinn að keyra okkur hvert sem hugur okkar leitaði. Þessi Saab 96-bíll var nánast eins og gamall fjölskylduvinur Gulla. Ungur sannfærði hann mig um að bíllinn væri með flugvélamótor verandi frá Saab-verksmiðjunum, það þótti mér impressíft.

Samverustundum okkar fækkaði smám saman eftir tvítugt, við fetuðum ólíkar leiðir, lönd og haf skildu að um árabil, eiginkonur okkar duglegar að hittast á „Facebook“ en við sjálfir ekki, sem er synd.

Og nú er Gulli minn allur, lengi vitað að á þessu var von en þegar stundin er komin myndast í senn furðusterkt tómarúm í bland við risavaxna mynd í huga mér af ótrúlega góðum og traustum æskuvini sem átti ríkulegan þátt í að gera uppvaxtarárin mín ljúf og dýrmæt.

Arnór Víkingsson.

Við Gulli höfum verið nánir vinir frá því að við vorum samnemendur í Menntaskólanum í Hamrahlíð. Kynntumst við fyrst fyrir alvöru á síðasta árinu þegar hann var formaður nemendafélagsins. Hann naut sín vel í því embætti enda félagslyndur og átti auðvelt með samstarf við aðra. Á þessum tíma kynntist ég einnig foreldrum Gulla, þeim Bertu og Gunnlaugi lækni. Þau hjónin höfðu byggt sér bústað austur á Jökuldalsheiði í landi Eiríksstaða, sem var fæðingarstaður Gunnlaugs eldri. Haustið 1980 bauð Gulli mér í fyrstu ferðina þangað sem er við vatnið Gripdeild á heiðinni. Greinilegt var að þessi staður var honum mjög kær.

Á næstu árum stofnuðum við báðir fjölskyldur og lá leið okkar beggja til Norðurlandanna í nám og vinnu. Við héldum áfram góðum tengslum á þessum tíma og eftir að við fluttum aftur til Íslands. Fjölskyldur okkar voru alltaf mjög nánar og börnin léku sér saman. Eftirminnilegar eru sumarhúsaferðir og síðar hjólhýsaferðir með þeim Gulla og Soffíu.

Gulli var hjálpsamur með afbrigðum og alltaf var gott að leita til hans. Aldrei sá ég hann reiðast og ef eitthvað kom upp á talaði hann um hlutina af yfirvegun.

Fyrir allmörgum árum byrjuðum við Gulli aftur að fara saman að sumri til í ferðir austur í bústaðinn. Stundum vorum við tveir saman en af og til með bræðrum hans. Við vorum ýmist að veiða eða dytta að húsinu og stundum bara að slappa af og spjalla. Í Gripdeild veiddum við bleikjur í net en sagt er að þar veiðist aldrei fiskur á stöng. Ég gerði ítarlegar tilraunir til að afsanna þessa kenningu, án árangurs.

Fyrir rúmum tveimur árum var ljóst að gamalt mein hefði tekið sig upp hjá Gulla. Hann barðist við sjúkdóminn af æðruleysi. Hann vildi ótrauður fara í ferð á Jökuldalsheiðina nú í sumar eins og áður. Skipulögðum við ferðina síðastliðið vor og tókum frá viku fyrir hana í byrjun júlí. Þrátt fyrir þverrandi krafta héldu honum engin bönd og við lögðum upp á umsömdum tíma. Ekki var veðrið fyrir austan eins gott og við höfðum óskað. Norðan kuldi og snjókoma eina nóttina. Það átti þó eftir að batna heldur. Þarna áttum við ánægjulega daga og ferðin var okkur báðum mjög dýrmæt. Nutum við einnig mikillar gestrisni ábúenda á Hákonarstöðum, þeirra Höllu og Sigvalda. Við fórum að Jöklu til að renna fyrir fisk. Gulli sat við ána, hlustaði á árniðinn og tók myndir. Þrátt fyrir að við báðir vissum að til beggja vona gæti brugðið með veikindin þá vorum við farnir að skipuleggja framkvæmdir næsta sumar í bústaðnum og vonuðum að af þeirri ferð gæti orðið.

Á heimleiðinni sagði Gulli mér ýmsar sögur af foreldrum og ættmennum sínum frá fyrri tíð, meðal annars það að hann var látinn heita eftir afabróður sínum, Gunnlaugi Einarssyni, sem var læknir í Reykjavík á fyrri hluta síðustu aldar.

Það er erfitt til þess að hugsa að Gulli skuli vera farinn svona langt fyrir aldur fram. Betri vin er varla hægt að hugsa sér. Fjölskyldu hans, Soffíu, börnum og barnabörnum sendi ég innilegar samúðarkveðjur. Ég kveð þig kæri vinur og Elfa biður einnig fyrir hinstu kveðju.

Björn Blöndal.