Upplýsingaskylda í sjávarútvegi er ríkuleg

Margt er gert til að gera sjávarútveg á Íslandi tortryggilegan. Ekki er langt síðan Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, sagði í Silfrinu í sjónvarpinu að vísbendingar væru „í nokkrum tilvikum í fortíðinni um að eignatengslin séu nokkuð víðtæk og kunni að leiða til þess að yfirráð yfir einstökum fyrirtækjum kunni að vera víðtækari og þá meiri samþjöppun heldur en opinber gögn gefa til kynna.“

Þessi orð eru mjög leyndardómsfull og gefa til kynna að eignatengsl í sjávarútvegi á Íslandi séu eins og myrkviðir í frumskógi, sem ekki sé nokkur leið að skilja.

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra var á sömu slóðum í pistli sem birtist í Morgunblaðinu í byrjun mánaðar. Þar sagði hún að umtalsvert vantraust ríkti í garð greinarinnar og besta leiðin til að auka traust til hennar væri að kveikja ljósin.

En eru ljósin slökkt? Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, skrifaði grein í Morgunblaðið 14. október þar sem hún rekur hvernig eftirliti með sjávarútvegi er háttað og upplýsingaskyldu greinarinnar.

„Eftirlit með reglum sem gilda um hámarkshlutdeild og tengda aðila er á hendi Fiskistofu,“ skrifar hún. „Við eftirlitið nýtir Fiskistofa upplýsingar frá fyrirtækjunum sjálfum og úr fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra, en þær upplýsingar eru öllum aðgengilegar. Hlutaðeigandi upplýsingar eru reyndar orðnar enn ítarlegri en áður eftir nýlegar lagabreytingar, sem kveða á um skyldu til að upplýsa um raunverulega eigendur fyrirtækja. Hið sama gildir um upplýsingar úr ársreikningaskrá. Þær eru sömuleiðis öllum aðgengilegar.“

Síðan bætir hún við: „Það skal fullyrt að engin atvinnugrein á Íslandi sætir meira eftirliti og gagnsæi en sjávarútvegur, og eru þá upplýsingar um eignarhald í sjávarútvegi meðtaldar. Það má líka fullyrða, þótt engin vísindaleg athugun hafi verið á því gerð, að íslenskur sjávarútvegur er sá gagnsæjasti í heimi.“

Svandís útskýrir í grein sinni hvers vegna ástæða sé til að „varpa skýru ljósi á sjávarútveginn“ og það er „ímynd greinarinnar gagnvart almenningi en liður í skýrslugerðinni var stærsta viðhorfskönnun sem gerð hefur verið um álit almennings á ýmsum þáttum stjórnkerfis í sjávarútvegi. Þar kom í ljós að sex sinnum fleiri telja sjávarútveg spilltan en telja hann heiðarlegan.“

Þetta lyktar af hundalógík. Ef ákveðnir stjórnmálamenn hamra sífellt á því að sjávarútvegur sé tortryggilegur síast það inn. Þegar svo könnun sýnir að umræðan hefur haft áhrif þarf vitaskuld að stökkva til af offorsi.

Skoðanakannanir kunna að vera gagnlegar, en þær eru ekki stóri sannleikur. Til dæmis telja 40% þjóðarinnar samkvæmt skoðanakönnun að hvalveiðar spilli fyrir ferðaþjónustu. Reyndin er þó líklega sú að þær hafi hverfandi áhrif á ákvarðanir fólks um að ferðast til Íslands.

Júlíanus keisari, sem uppi var á fjórðu öld, þurfti er hann réð yfir Gallíu að eiga orðaskipti við ákafan saksóknara í réttarhöldum í fjársvikamáli í París.

Saksóknarinn bar upp hverja ásökunina á eftir annarri, en alltaf gat sakborningurinn svarað fyrir sig. Hrópaði þá saksóknarinn upp yfir sig: „Er nokkurn tímann, mikli Sesar, hægt að finna nokkurn sekan ef það eina sem hann þarf að gera er að neita sakargiftunum?“

Júlíanus var fljótur til svars: „Er nokkurn tímann hægt að finna nokkurn mann saklausan ef það eina sem þú þarft að gera er að ásaka hann?“