Dúó Hlíf Sigurjónsdóttir og Carl Philippe Gionet spila saman.
Dúó Hlíf Sigurjónsdóttir og Carl Philippe Gionet spila saman.
Í tilefni þess að laugardaginn 21. október verða 35 ár liðin frá því að Listasafn Sigurjóns Ólafssonar var opnað í endurbyggðri vinnu­stofu og heimili listamannsins er boðið upp á tvenna tónleika um helgina og opið hús bæði laugardag og sunnudag

Í tilefni þess að laugardaginn 21. október verða 35 ár liðin frá því að Listasafn Sigurjóns Ólafssonar var opnað í endurbyggðri vinnu­stofu og heimili listamannsins er boðið upp á tvenna tónleika um helgina og opið hús bæði laugardag og sunnudag.

Fyrri tón­leik­arn­ir eru laugardaginn 21. októb­er kl. 20. Þá flytja Hlíf Sigur­jóns­dóttir, fiðlu­leik­ari og dótt­ir lista­manns­ins, og kana­díski píanó­leik­arinn Carl Philippe Gionet Fiðl­usón­ötu í B-dúr eftir W.A. Mozart og þriðju Fiðlu­són­ötu Edvards Grieg. Einn­ig leika þau hina glettnu Scherzo-Tarantella eftir Wieniawski.

Seinni tón­leik­arn­ir eru þriðju­daginn 24. októb­er kl. 20. Þá leik­ur Carl Phil­ippe Gionet ein­leiks­verk fyrir píanó; Franska svítu nr. 2 eftir J.S. Bach, Towers eftir Shelly Wash­ing­ton, Re­mem­ber­ing Schubert eftir Ann Southam og sjö smá­verk eftir sjálf­an sig. Þess má geta að Gionet heldur síðar á árinu málverkasýningu í Lista­safni Sigur­jóns.

Um helgina verður hins vegar í efri sal safnsins hægt að sjá sýningu Þur­íðar Sig­urðar­dótt­ur, mynd­listar- og söng­konu, á mál­verk­um henn­ar sem tengj­ast æsku­stöðv­um henn­ar, Laugar­nesi, og öðr­um stöð­um sem henni eru kær­ir. Í stóra sal safns­ins er sýn­ing á verk­um Sigur­jóns sem nefnist Úr ýms­um áttum.

Allt frá vígslu safnsins fyrir 35 árum hefur, auk sýninga á verkum Sigurjóns og annarra lista­manna, tónlist skipað veigamikinn sess í starfi safnsins og á vegum safnsins verið haldnir tæplega 400 tónleikar.