Gylfi Þórðarson fæddist á Stokkseyri 4. október 1943 og ólst upp í Bræðratungu í Grindavík. Hann lést 5. október 2023 á Húsavík.

Foreldrar hans voru Þórður Ólafsson frá Vopnafirði og Sigrún Guðmundsdóttir frá Stafholtstungnahreppi.

Systkini Gylfa eru Dagný, f. 10. mars 1945, d. 12 mars 1982, Rúnar Þór, f. 17. desember 1951, hálfsystkini sammæðra eru Fanney Guðmundsdóttir, f. 22. maí 1934, Hrefna Guðrún Guðmundsdóttir, f. 11. september 1936, d. 2. maí 2010, Unnur Guðmundsdóttir, f. 10. júlí 1938, d. 25. apríl 1997, Már Guðmundsson, f. 19. ágúst 1939.

Börn Gylfa af fyrra hjónabandi með Hrönn Kristjánsdóttir eru: 1. Þórunn Alda, f. 17.2. 1969, og á hún tvö börn af fyrra hjónabandi með Þórði Waldorff. a. Hafliði Breki, f. 19.11. 1993, giftur Kristínu Lilju Jónsdóttir, eiga þau Lísbeti Öldu, f. 5.2. 2021, b. Sólrún Alda, f. 4.5. 1997, í sambúð með Abdurahmon Anvarov. Þórunn Alda giftist Pétri Karli, eiga þau Glódísi Köru, f. 22.5. 2006, og tvö stjúpbörn, a. Birgittu Sif, f. 6.6. 1996, í sambúð með Sævari Lárussyni, eiga þau einn son, Ólaf Helga, f. 12.4. 2023, og tvö stjúpbörn Emilíu Rán og Evu Karen, b. Karl Óskar, f. 6.3. 1999, hann á eina dóttur, Alexöndru Von, f. 20.4. 2018. 2. Margrét Dögg, f. 3.3. 1971, hún tvö börn a. Írisi Hrund, f. 22.4. 1993, í sambúð með Arnari Hauksteini Oddssyni, eiga þau tvo syni Hugin Haukstein, f. 12.10. 2020, og Henrý Haukstein, f. 4.5. 2022, og 2. Birnir Tómas, f. 27.6. 1998, í sambúð með Bryndísi Heiðu Gunnarsdóttur.

Eftirlifandi eiginkona Gylfa er Ásrún Ásgeirsdóttir, f. 9.2. 1958, eiga þau þrjú börn saman, 1. Dagný Þóra, f. 1.3. 1988, í sambúð með Ólafi Inga Þorgrímssyni, eiga þau tvö börn a. Victor Fannar Ólafsson, f. 3.3. 2014, b. Ásrún Klara, f. 18.7. 2018, fyrir á Dagný Þóra tvö börn, Morten Rúnar, f. 11.10. 2007, d. 11.10. 2007, og Ásgeir Gylfa Garðarsson, f. 27.7. 2010. 2. Benedikt Fannar, f. 3.1. 1990, giftur Ásdísi Björgvinsdóttur, eiga þau einn son, Heiðar Rafn, f. 19.7. 2020, fyrir á Ásdís soninn Guðmund Atla Gestsson, f. 1.11. 2013. 3. Adam Freyr, f. 8.10. 1991. Fyrir á Ásrún Rúnar Geir, f. 15.3. 1976, í sambúð með Guðrúnu Halldóru, eiga þau tvö börn, Katrínu Lind, f. 9.8. 2011, og Erni Loga, f. 21.10. 2015.

Gylfi nam bifreiðasmíði hjá Agli Vilhjálmssyni árin 1961-64, vann eftir námið í vélsmiðju Grindavíkur. Hann fór á sjó sem vélstjóri og lauk því námi frá Vélskóla Íslands 1980. Hann vann á ýmsum bátum þar til að hann flutti til Bolungarvíkur er hann kynnist eftirlifandi eiginkonu sinni, Ásrúnu. Gylfi nam ratsjárfræði í Boston og vann á ratsjárstöðvunum hersins. Gylfi var yfirvélstjóri á ýmsum skipum fyrir vestan eða þar til hann sótti línuveiðiskipið Guðna Ólafsson VE í skipasmíðastöðina í Kína og sigldi með hann heim.

Gylfi endaði starfsævina sína sjötugur að aldri í álverinu á Reyðarfirði. Síðustu ár ævi sinnar bjó hann á Húsavík og undir lokin dvaldi hann á Hvammi.

Útförin fer fram frá Húsavíkurkirkju í dag, 19. október 2023, klukkan 13.

Pabbi minn kvaddi okkur daginn eftir að hann varð áttræður. Hann varði deginum með okkur, borðaði afmælisköku og drakk gos, við rifjuðum upp góðar minningar um bíla, báta og fjölskylduna. Þú ólst upp í Bræðratungu í Þórkötlustaðarhverfinu, ég ólst upp í sama húsi og eigum við því margar minningar frá þeim stað. Ég man þegar þú smíðaðir sleða handa mér og fyrsta ferðin var einnig sú síðasta því ferðin var svo mikil á sleðanum að ég flaug af og rófubeinsbrotnaði. Ég man einnig eftir okkur í bíltúr með ís að skoða bíla og báta eða í gönguferðum um Reykjanesið. Við fórum í margar gönguferðir þar sem Unnur systir þín keyrði okkur á áfangastað og við löbbuðum heim með nestisviðkomu í fallegri laut. Í dag geng ég mikið og nýt þess að vera úti í náttúrunni.

Þú varst sögumaður mikill og sagðir okkur sögur af mús sem bjó í Þorbirni og lenti í hinum ýmsu ævintýrum. Þessar sögur lifa góðu lífi en sögusvið músarinnar er breytilegt eftir búsetu þess er heyrir söguna. Ég man líka eftir þér teiknandi báta, oft sat ég og reyndi að gera eins og þú en þennan hæfileika fékk ég ekki. Ég fór ófáar ferðirnar með þér í bátana og alveg niður í vélarrúm þar sem þú réðir ríkjum. Þú svaraðir öllum mínum spurningum um báta, bíla og vélar og þær voru margar. Ég fór oft með þér að færa bátana milli hafna og upp í slipp, þar þótti mér skemmtilegast því ég fékk að valsa um þá og skoða hvern krók og kima. Ég fór einnig með þér með bát í slipp í Þórshöfn í Færeyjum, þá var ég barn en það ferðalag lifir vel í minningunni.

Margar minningar tengjast bátunum og sjónum enda varstu vélstjóri af lífi og sál, þú varst alltaf á sjónum og þegar vertíðin kom þá varstu sjaldan heima og ég saknaði þín afskaplega mikið. Ég ætlaði aldrei að giftast sjómanni því ég vildi hafa minn mann heima hjá mér alltaf en ég landaði svo skipstjóra og þið sóttuð sjóinn saman í nokkur ár. Á seinni árum var gaman að hlusta á ykkur rifja upp og spjalla um veiðina, bátana og sjómennskuna. Við Pétur fórum ófáa rúntana með þig niður á bryggju með ís í hendi að skoða bátana og spjalla um veiðina.

Við pabbi fórum oft á bílasölur með ís og spáðum í bílategundir, vélarstærð og útlit. Uppáhaldsbíllinn minn úr æsku er Citroën Méhari, það var hægt að taka þakið og hliðarnar af, þá var þetta opinn bíll, honum var einnig snúið í gang. Þessi bíll stendur upp úr af þeim bílum sem þú áttir en franska bíla áttirðu oft, þú sagðir að þetta væru skemmtilegustu bílarnir að keyra. Síðasta sumar fórum við með þig að skoða bílasafnið á Ystafelli og þar var dásamlegt að heyra þig tala um bílana enda lærðir þú bílasmíði ungur að árum. Ég mun minnast þeirrar ferðar með gleði því þetta reyndist vera síðasti rúnturinn þinn og síðasta ísferðin okkar saman.

Takk, pabbi minn, fyrir alla rúntana.

Þín dóttir,

Þórunn Alda.