Þorbjörg Friðrika Guðnadóttir, Dolla, fæddist 3. september 1955 á Akureyri. Hún lést á sjúkrahúsinu á Akureyri 4. október 2023 umvafin ástvinum sínum.

Foreldrar Dollu voru Guðni Friðriksson, f. 31.3. 1920, og Anna Bergþórsdóttir, f. 17.6. 1925, þau eru bæði látin. Systkini Dollu: Baldvin Ólafsson, f. 1945, látinn; Olga Guðnadóttir, 1948, gift Kristjáni Halldórssyni; Agnes Guðnadóttir, f. 1952, látin, var gift Konráði Alfreðssyni, og Steinunn Guðnadóttir, f. 1968, maki Jóhann Bjarni Einarsson.

Dolla giftist eiginmanni sínum, Herði Stefánssyni, f. 1952, hinn 12.9. 2009.

Börn Dollu eru Kristján Þórir Kristjánsson, f. 1977, maki Hólmfríður Guðnadóttir, f. 1976, börn þeirra eru Lovísa Marý, Helena og Hekla. Esther Helena Hauksdóttir Laxdal, f. 1982, maki Gunnar Örn Sigfússon, f. 1983, börn þeirra eru Sigfús Fannar, Berglind Rós og Elísabet Sóley.

Dætur Harðar eru Helga Jóna Harðardóttir, f. 1987, maki Ellert Þór Svavarsson, f. 1988, börn þeirra eru Matthildur Magdalena, Gunnur Elka, Hörður Berg og Svavar Fróði. Halla Björg Harðardóttir, f. 1989, maki Jason Wright, f. 1987, sonur þeirra er Axel James.

Dolla vann við aðhlynningu fatlaðra frá 1982.

Útför Dollu fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 20. október 2023, klukkan 13.

Það fékk mikið á mig þegar mér barst sú fregn að Dolla væri látin, þrátt fyrir að hafa vitað af veikindum hennar og hvert stefndi. Dolla kom inn í líf mitt þegar ég var smástelpa er bróðir minn kom heim með unnustu sína. Hún var eins og ferskur andblær, alltaf kát og skemmtileg og stutt í hláturinn. Þrátt fyrir að upp úr sambandinu hafi slitnað héldum við alltaf góðum tengslum, en ég gat ekki hugsað mér að missa Dollu úr lífi mínu. Dolla var svo opin, kærleiksrík og skemmtileg.

Hún var kona sem ég vildi hafa að fyrirmynd, það var svo gott að hitta hana og manni leið alltaf svo vel eftir að hafa átt stund með henni. Minningarnar eru margar og dýrmætar og ég mun varðveita þær eins og það gull sem þær eru.

Á kveðjustund þakka ég fyrir mig og mína og sendi fjölskyldunni mínar innilegustu samúðarkveðjur. Missir þeirra er mikill, heimurinn er svo mikið fátækari án Dollunnar okkar.

Ásta Guðný

Kristjánsdóttir.

Veit ekki hvar ég á að byrja þegar komið er að því að kveðja þig elsku vinkona en þú skipaðir svo stóran sess í lífi mínu og ég í þínu.

Okkar fyrstu kynni voru þegar við sex ára byrjuðum í Oddeyrarskóla á Akureyri. Við vorum svo lánsamar að verða vinkonur, sú vinátta spannar ansi mörg ár. Þótt ég færi frá Akureyri og suður 1989 héldum við alltaf góðu sambandi, bæði með heimsóknum og símtölum.

Við unnum saman á Vistheimilinu Sólborg í mörg ár, það voru góðir tímar og styrkti okkar vinkonusamband. Þegar við hittumst rifjuðum við oftar en ekki upp þessi ár, sem voru svo skemmtilegur tími enda við á okkar besta tíma og aldri í lífinu. Þetta tímabil varði í um 15 ár og var bæði lærdómsríkt og þroskandi fyrir okkur.

Árið 2016 fæ ég símtal frá þér elsku vinkona þar sem þú tilkynnir mér að þú sért komin með brjóstakrabbamein. Þú fórst í gegnum þann tíma af miklu æðruleysi og jákvæðni. Það var aðdáunarvert hvað þú tókst þessu verkefni vel og hafðir sigur að lokum. Ég sjálf fékk svo brjóstakrabbamein 2020, þau voru mörg símtölin sem fóru á milli okkar þarna. Þú gast miðlað mér af þinni reynslu og það hjálpaði mér svo sannarlega í þessari baráttu.

Þegar þú nokkrum árum seinna hættir að vinna og ætlaðir að fara að njóta efri áranna fékkstu þær fréttir að krabbameinið hefði tekið sig upp aftur á fleiri stöðum í líkamanum. Þá varð ekkert við ráðið og það sigraði að lokum. Ég var svo lánsöm að fá að hitta þig í síðasta sinn í byrjun október og það var dýrmæt stund.

Elsku vinkona mín, hvíl í friði, við eigum eftir að hittast aftur.

Þín

Hildur Guðrún Gunnarsdóttir.