Ferðamenn við Geysi 81% ferðamanna heimsótti Suðurland í sumar.
Ferðamenn við Geysi 81% ferðamanna heimsótti Suðurland í sumar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjöldi erlendra ferðamanna sem hingað leggja leið sína virðist enn vera með allra mesta móti. Samkvæmt tölum Hagstofunnar sem birtar voru í gær fóru hátt í 222 þúsund farþegar með erlent ríkisfang frá Keflavíkurflugvelli í seinasta mánuði eða um 45 þúsund fleiri en á sama tíma í fyrra

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Fjöldi erlendra ferðamanna sem hingað leggja leið sína virðist enn vera með allra mesta móti. Samkvæmt tölum Hagstofunnar sem birtar voru í gær fóru hátt í 222 þúsund farþegar með erlent ríkisfang frá Keflavíkurflugvelli í seinasta mánuði eða um 45 þúsund fleiri en á sama tíma í fyrra. Ný samantekt Ferðamálastofu fyrir sumarið leiðir í ljós að alls komu 790 þúsund erlendir ferðamenn til landsins um Keflavíkurflugvöll síðastliðið sumar eða um fimmtungi fleiri en í fyrrasumar. „Um er að ræða næstfjölmennasta ferðamannasumarið frá því mælingar hófust. Fjöldinn var um 98% af því sem hann var sumarið 2018 sem var metsumar hvað varðar fjölda ferðamanna,“ segir í umfjöllun Ferðamálastofu.

Bandaríkjamenn voru langfjölmennastir eða 300 þúsund talsins og voru Þjóðverjar í öðru sæti en þeir voru um 60 þúsund talsins sem komu til landsins í sumar. „Langflestir eða um 95% ferðamanna voru í fríi á Íslandi í sumar. Um 1,9% voru í heimsókn hjá vinum og ættingjum og um 1,4% í viðskiptatengdum tilgangi. Um 1,8% voru í annars konar tilgangi. Um níu af hverjum tíu heimsóttu höfuðborgarsvæðið, um átta af hverjum tíu Suðurland, um sjö af hverjum tíu Reykjanes, ríflega helmingur Vesturland, tæplega helmingur Norðurland og ríflega fimmtungur Vestfirði,“ segir í umfjöllun um fjölda ferðamanna.

Ef litið er á hótelnýtingu ferðamanna og talinn fjöldi gistinátta kemur í ljós að þær hafa aldrei mælst fleiri en fyrir faraldur kórónuveirunnar og voru 1,7 milljónir talsins í sumar. 19 þúsund fleiri en sumarið 2022 og 256 þúsund fleiri en sumarið 2019 áður en heimsfaraldurinn reið yfir. Átta af hverjum tíu gistinóttum voru vegna erlendra ferðamanna. Þá hafa gistinætur erlendra ferðamanna á skráðum gististöðum aldrei mælst jafn margar áður og síðasta sumar en þær voru um 4,3 milljónir talsins. Í lok sumars var enn mikill fjöldi erlendra gesta á landinu hvort sem litið er á brottfarir eða gistinætur. Og fleiri mælikvarðar gefa vísbendingar. Skv. tölum Hagstofunnar hafa aldrei verið fleiri bílaleigubílar í umferð eða yfir 30 þúsund í hverjum mánuði frá ágúst og fram í október sl., nokkur þúsund fleiri en í ágúst 2018, sem var hámarksfjöldinn.