Hlý „Heimaleikurinn er mynd fyrir alla fjölskylduna, ekki einungis fótboltaaðdáandann, og undirrituð hvetur því Íslendinga til þess að styðja þessa ungu og efnilegu kvikmyndagerðarmenn og sjá Heimaleikinn á bíótjaldinu.“
Hlý „Heimaleikurinn er mynd fyrir alla fjölskylduna, ekki einungis fótboltaaðdáandann, og undirrituð hvetur því Íslendinga til þess að styðja þessa ungu og efnilegu kvikmyndagerðarmenn og sjá Heimaleikinn á bíótjaldinu.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
RIFF og Smárabíó Heimaleikurinn ★★★★½ Leikstjórn: Logi Sigursveinsson og Smári Gunnarsson. Handrit: Smári Gunnarsson og Stephanie Thorpe. Aðalleikarar: Kári Viðarsson, Freydís Bjarnadóttir og Viðar Gylfason. 2023. Ísland. 79 mín.

Kvikmyndir

Jóna Gréta

Hilmarsdóttir

Heimaleikurinn er hugljúf heimildarmynd um tilraun Kára Viðarssonar til að uppfylla draum föður síns og safna í lið heimamanna, sem er Reynir á Hellissandi, til að spila og um leið vígja fótboltavöllinn sem faðir hans Viðar Gylfason lét byggja á Hellissandi 25 árum áður. Liðið byrjar bara með tvo liðsmenn, annar þeirra er Kári sjálfur, en hann heldur áfram að heyra í nágrönnum sínum og plata þá á æfingu þrátt fyrir aukakíló og þrekleysi þeirra. Kröfurnar eru ekki miklar, þ.e. að geta hlaupið, fá að keppa á heimavellinum og tapa ekki með tíu marka mun en Reynir hafði ekki keppt síðan árið 1996 þegar liðið keppti í Mjólkurbikarnum á móti Golfklúbbi Grindavíkur á Grindavíkurvelli og tapaði 10-0.

Áhorfendur þurfa ekki að hafa nokkurt vit á fótbolta til að skilja myndina. Raunverulegt viðfangsefni myndarinnar er þessi endalausa jákvæðni og leikgleði sem skín í gegn hjá liðsmönnum Reynis. Það er félagsskapurinn sem lokkar alla þessu ólíku einstaklinga í liðið og undir lokin er liðið orðið allt of stórt til að vera eitt lið en í því eru menn á öllum aldri og ein kona, Freydís Bjarnadóttir. Kári tók ekki annað í mál en að Freydís spilaði með þeim líkt og hún gerði þegar þau voru yngri af því það var ekkert kvennalið.

Það er hins vegar ekki nóg að manna fullgilt lið til þess að vígja fótboltavöllinn heldur dregur KSÍ um hvort keppt er á heimavelli eða útivelli og það eru helmingslíkur. Heppnin var ekki með þeim árið 1996 þegar þeir kepptu á Grindavíkurvelli. Glæsilegi heimavöllurinn yrði ekki vígður fyrr en 25 árum síðar, árið 2021 þegar þeir mættu Aftureldingu í Mjólkurbikarnum sem er viðfangsefni myndarinnar. Vert er að minnast á það að Afturelding var og er í Lengjudeildinni sem er næstefsta deildin á meðan Reynismenn voru þá ekki einu sinni í deild. Afturelding var því eitt öflugasta liðið sem þeir hefðu getað fengið til að spila á móti en liðsmenn Reynis létu það ekki á sig fá og mættu skælbrosandi á völlinn og allt sveitarfélagið þeim til stuðnings. Það að fá að keppa á vellinum var sigur í sjálfu sér en það þurfti að hlúa vel að honum áður en mögulegt var að keppa á honum.

Saga um nokkra karla og eina konu sem mynda lið til þess að vígja fótboltavöll úti á landi heillar kannski ekki alla upp úr skónum en það er erfitt að nefna mynd sem er með jafn stórt hjarta og Heimaleikurinn. Eflaust eru margir, líkt og undirrituð, orðnir þreyttir á að horfa á heimildarmyndir um volæði heimsins. Framleiðendur Heimaleiksins leyfa sér að staldra við í litlum bæ og kvikmynda hversdagshetju eins og Kára því þær sögur eru ekki síður merkilegar og spila inn á tilfinningar áhorfandans. Myndin er þannig til marks um það hvað jákvæðni og samstaða getur komið fólki langt. Það mættu margir taka Kára, Viðar og heimafólk á Hellissandi sér til fyrirmyndar en sjaldan hefur undirrituð séð jafn lífsglatt fólk. Leikstjórarnir Logi Sigursveinsson og Smári Gunnarsson leyfa okkur áhorfendum að kynnast þessu fólki og samfélaginu í gegnum myndina og manni líður eins og maður þekki þau öll, hafi jafnvel eignast nýja vini með áhorfinu.

Heimaleikurinn var tilnefnd í flokki bestu norrænu heimildarmyndanna og vann til sérstakra áhorfendaverðlauna á Nordisk Panorama, stærstu heimildarmyndahátíð á Norðurlöndum sem nýverið var haldin í Svíþjóð, en myndin hlaut einnig áhorfendaverðlaunin á Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildarmynda. Það er ekki furða að myndin falli vel í kramið hjá áhorfendum enda um að ræða mjög vel heppnaða og mannlega heimildarmynd þar sem dregin er upp sönn mynd af því hvað jákvæðni og samstaða getur komið fólki langt. Heimaleikurinn er mynd fyrir alla fjölskylduna, ekki einungis fótboltaaðdáandann, og undirrituð hvetur því Íslendinga til þess að styðja þessa ungu og efnilegu kvikmyndagerðarmenn og sjá Heimaleikinn á bíótjaldinu.