Skólabörn Foreldrar hafa áhyggjur af öryggi barna á leið úr frístund.
Skólabörn Foreldrar hafa áhyggjur af öryggi barna á leið úr frístund. — Morgunblaðið/Eggert
Salvör Nordal umboðsmaður barna hefur ítrekað erindi sem hún sendi fyrir réttu ári til menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar varðandi fylgd barna af frístundaheimilum á íþróttaæfingar

Salvör Nordal umboðsmaður barna hefur ítrekað erindi sem hún sendi fyrir réttu ári til menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar varðandi fylgd barna af frístundaheimilum á íþróttaæfingar.

Í því bréfi kom fram að embættinu hefðu borist erindi frá foreldrum sem lýst hefðu áhyggjum af því að öryggi barna þeirra væri ekki tryggt þegar þeim væri fylgt af frístundaheimilum á íþróttaæfingar, sem er þjónusta veitt á grundvelli samstarfs íþróttafélaga og Reykjavíkurborgar. Þessu bréfi hefur enn ekki verið svarað af hálfu Reykjavíkurborgar.

Á heimasíðu umboðsmanns barna segir að nú hafi embættinu enn á ný borist erindi frá foreldrum sem lýsa þungum áhyggjum af öryggi barna sinna sem njóta fylgdar úr frístund á íþróttaæfingar. Áhyggjurnar lúti einkum að því að börnum í fyrstu bekkjum grunnskóla sé ekki fylgt eftir alla leið á æfingar, þau séu eftirlitslaus í lengri eða skemmri tíma og að skortur sé á samstarfi og upplýsingaflæði á milli starfsmanna frístundaheimila og íþróttafélaga, sem leiði til þess að yfirsýn og eftirfylgd með öryggi barnanna sé ábótavant.

Fer umboðsmaður þess á leit við Reykjavíkurborg að tilgreina hvaða leiðir borgin hyggist ráðast í til þess að tryggja öryggi barna við framkvæmd fylgdarþjónustunnar.