Breytingar Listaverkunum tveimur verður fundinn nýr staður.
Breytingar Listaverkunum tveimur verður fundinn nýr staður.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hugmyndir eru um nýtt fjögurra stjörnu hótel við Keflavíkurflugvöll. Þórunn Marinósdóttir, forstöðumaður viðskiptatekna og sölu hjá Isavia, segir að innan fárra daga verði opnað fyrir markaðskönnun á útboðsvef Isavia um byggingu nýs flugvallarhótels við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Hugmyndir eru um nýtt fjögurra stjörnu hótel við Keflavíkurflugvöll.

Þórunn Marinósdóttir, forstöðumaður viðskiptatekna og sölu hjá Isavia, segir að innan fárra daga verði opnað fyrir markaðskönnun á útboðsvef Isavia um byggingu nýs flugvallarhótels við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli. Markmiðið sé að kanna áhuga aðila á markaði fyrir því að hanna, byggja og síðan reka slíkt hótel. Öllum áhugasömum aðilum með reynslu af hótelrekstri verði boðið að taka þátt í könnuninni á útboðsvef Isavia. Á grundvelli hennar verði síðan ákveðið hvaða skref verða stigin í framhaldinu.

„Þetta verkefni er stór liður í heildaruppbyggingu flugvallarins og fyrir ásýnd hans. Takmarkið er þó einnig að bæta upplifun farþega á flugvellinum eins og kostur er og þjónusta vaxandi fjölda farþega með sem bestum hætti,“ segir Þórunn í skriflegu svari við fyrirspurn blaðsins. „Við teljum að nýtt flugvallarhótel muni ekki aðeins svara eftirspurn eftir gæða gistirými nærri flugvellinum heldur verður þetta einnig mikilvægur hluti af heildstæðri þróun svæðisins við Keflavíkurflugvöll,“ segir Þórunn.

Vilja vera nærri vellinum

Þórunn segir skort á gistirými nærri flugvellinum. Þar með talið fyrir skiptifarþega sem koma tímabundið inn í landið og gista yfir eina nótt eða jafnvel fleiri. Þá vilji sumir farþegar, sem eru á ferðalagi um landið, geta bókað gistingu nærri flugvellinum nóttina fyrir brottför. Almennt sé þörf fyrir fleiri gistipláss en nú eru í boði nærri flugvellinum og sömuleiðis þörf fyrir að bæta við úrvals gistiaðstöðu.

Þórunn segir áformað að nýtt hótel verði með a.m.k. 200 herbergjum í fyrsta áfanga en að hægt sé að tvöfalda fjölda herbergja í öðrum áfanga. Þá verði veitingastaðir á hótelinu, fundarherbergi, líkamsræktarstöð og beint aðgengi inn í flugstöðina frá hótelinu þegar ný norðurbygging hefur risið.

Markaðskönnunin sé opin öllum aðilum, innlendum sem erlendum. Hún sé ekki bindandi enda ætlað að afla upplýsinga um afstöðu markaðarins áður en ráðist yrði í formlegt útboðsferli sem yrði grundvallað á gildandi reglum um opinber útboð og í samræmi við fyrri útboð Isavia.

Áætlað sé að formlegt útboð fari af stað á næsta ári.

Mikil uppbygging

Á Keflavíkurflugvelli stendur nú yfir mikil uppbygging og er áformað að ljúka byggingu nýrrar 22 þúsund fermetra austurálmu haustið 2024, líkt og fjallað var um í Morgunblaðinu á laugardaginn. Þá verður ný norðurbygging byggð (sjá graf). Við þessar framkvæmdir þarf að finna listaverkunum tveimur, Regnboganum og Þotuhreiðrinu, nýjan stað við flugvöllinn.

Jafnframt hafa staðið yfir framkvæmdir við bílastæðin.

Við flugstöðina eru alls um 3.000 bílastæði. Framkvæmdir standa nú yfir á tveimur stöðum.

Annars vegar er verið að stækka bílastæðin við listaverkið Regnbogann en þar verða ný bílastæði fyrir starfsfólk á Keflavíkurflugvelli. Endanlegur fjöldi stæða liggur ekki fyrir. Fyrri stæði fyrir starfsfólk eru sunnan við Aurora-hótelið við flugvöllinn en þau eru nú í notkun bílaleiga á svæðinu.

Hins vegar er verið að malbika malarbílastæði sem hafa verið í boði fyrir farþega þegar malbikuð stæði eru öll í notkun. Með því fjölgar bílastæðum fyrir farþega á langtímastæðunum, P3.

Nýju bílastæðin fyrir starfsfólk vallarins má sjá á mynd hér fyrir neðan og á efstu myndinni hér á síðunni. Fyrirhugað hótel verður á hluta svæðisins sem fer undir hin nýju bílastæði starfsfólks.