Indriði Helgi Einarsson fæddist í Vestmannaeyjum 21. maí 1968. Hann lést á heimili sínu 6. október 2023.

Foreldrar hans voru Einar Indriðason sjómaður, f. á Raufarhöfn 1933, d. 1985, og Fjóla Guðmannsdóttir húsmóðir, f. í Vestmannaeyjum 1940, d. 2018. Bræður Indriða Helga eru fimm: Stefán, f. 1959, kona hans Jóhanna Guðjónsdóttir; Jón, f. 1961, kona hans Ragna Sigurðardóttir; Einar Fjölnir, f. 1963, d. 2021; Davíð Þór, f. 1966, sambýliskona hans Sonata Grajauskaite; Rósberg Ragnar, f. 1974.

Sambýliskona Indriða Helga til sex ára var Erla Sveinbjörg Sævarsdóttir og eignuðust þau einn dreng, Einar, f. 19. ágúst 1988. Indriði Helgi eignaðist Elvar Pétur, f. 21. apríl 1998, móðir hans er Katrín Ósk Pétursdóttir.

Indriði Helgi gekk í barna- og gagnfræðaskóla Vestmannaeyja. Hann stundaði sjómennsku til margra ára á bátum frá Vestmannaeyjum. Hann lauk námi í húsasmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 2012 og vann við þá iðn alla tíð.

Útför Indriða Helga fer fram frá Garðakirkju á Álftanesi í dag, 20. október 2023, klukkan 13.

Fá orð geta sagt svo margt en minningarnar segja svo miklu meira. Takk fyrir allar góðu stundirnar, elsku ástin mín, mun alltaf þykja vænt um þig, þú átt mitt hjarta.

Helga.

Það er með mikilli sorg í hjarta sem við bræðurnir kveðjum bróður okkar, Indriða Helga, í hinsta sinn. Það eru ekki nema tvö ár síðan við kvöddum Einar Fjölni bróður okkar en hann dó 11. október 2021. Dóttir Einars Fjölnis, Jóhanna Helga, lést í september síðastliðnum. Það er vægt til orða tekið að sorgin hafi hamrað á okkur fjölskyldunni síðastliðin tvö ár.

Þann 21. maí 1968 fæddist þú, þá fimmti bróðirinn, glókollurinn með fallega brosið og þá færðist heldur betur fjör á heimilið okkar, Landagötu 11. Við vorum ekki mjög vinsælir af fólkinu sem bjó á neðri hæðinni enda kannski ekki skrítið með fimm peyja í kúrekaleikjum fyrir ofan sig. Á þessum tíma vorum við Deddi orðnir uppalendur því við urðum að passa yngri bræður okkar á meðan mamma vann í frystihúsinu alla daga og pabbi svo til aldrei heima þar sem hann var sjómaður, enda fyrir stórri fjölskyldu að sjá.

Þegar eldgosið á Heimaey byrjaði í janúar árið 1973 var Indriði bróðir orðinn fimm ára. Ég man þessa nótt eins og það hafi gerst í gær, við bræðurnir vorum vaktir um miðja nótt, klæddir í hlý föt og allri fjölskyldunni dröslað inn í Opel-inn, sem var fjölskyldubíllinn. Ekið var í gegnum bæinn og í minningunni var þetta eins og stríðsástand. Þarna voru beljur á götunni sem verið var að reka niður á bryggju og lögreglubíll með sírenur og blikkandi ljós. Þarna var fólk á hlaupum, bílar út um allt, bryggjur fullar af fólki en yfir Heimaey voru eldtungur, sprengingar og öskufall.

Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar á að lýsa Indriða bróður er hversu mikið ljúfmenni hann var, hann hafði mjög sterka réttlætiskennd gagnvart öllu fólki. Hann var heimspekingur og stundum var hann svo niðursokkinn í einhverjar vangaveltur að það gat verið erfitt að ná sambandi við hann. Hann var tryggur vinum sínum, vildi allt fyrir alla gera og alltaf boðinn og búinn til að hjálpa. Lýsandi dæmi fyrir Indriða er það að hann tók Rósberg yngsta bróður okkar nánast í fóstur eftir að mamma lést. Að öllum okkur bræðrunum ólöstuðum hugsaði Indriði mest um Rósberg. Hann var vinsæll af þeim sem þekktu hann, alltaf stutt í grínið og glensið, fyrst kom skakka brosið og síðan skellihlátur.

Indriði átti það til, þegar við hittumst, að rifja upp gamlar minningar frá því að við vorum ungir peyjar í Eyjum: „Manstu Jónsi þegar þú stofnaðir fight-klúbb og fótboltafélag?“ svo kom skakka brosið og síðan hlátur. Jónsi dró þig með sér í allskonar vitleysu af því að hann var svo uppátækjasamur.

Við svona fráföll trekk í trekk þá deyr eitthvað innra með okkur, sársaukinn verður óbærilegur. Allar minningarnar verða ljóslifandi en við getum ekki notið þeirra með fólkinu okkar sem fallið er frá en við sem eftir lifum getum hlýjað okkur við þær. Ef guð er til þá biðjum við hann að vaka yfir sonum Indriða þeim Einari og Elvari Pétri.

Elsku Indriði litli bróðir okkar, við bræðurnir kveðjum þig í hinsta sinn, takk fyrir allar minningarnar og takk fyrir að vera alltaf þú.

Jón, Stefán, Davíð Þór og Rósberg Ragnar Einarssynir.