Erfiður Króatíski línumaðurinn Marko Coric hjá liði Framara reyndist Víkingum erfiður í Framhúsinu í Úlfarsárdal í gærkvöldi.
Erfiður Króatíski línumaðurinn Marko Coric hjá liði Framara reyndist Víkingum erfiður í Framhúsinu í Úlfarsárdal í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Fram vann sinn þriðja sigur á leiktíðinni í úrvalsdeild karla í handbolta er liðið fagnaði sannfærandi 32:24-sigri á nýliðum Víkings á heimavelli sínum í Úlfarsárdal í þriðja leik sjöundu umferðarinnar í gærkvöldi

Fram vann sinn þriðja sigur á leiktíðinni í úrvalsdeild karla í handbolta er liðið fagnaði sannfærandi 32:24-sigri á nýliðum Víkings á heimavelli sínum í Úlfarsárdal í þriðja leik sjöundu umferðarinnar í gærkvöldi.

Eftir jafnar fyrstu mínútur náði Fram góðum kafla um miðbik fyrri hálfleiks og var með undirtökin allan seinni hálfleikinn, en staðan í hálfleik var 17:11, Fram í vil. Hefur Fram nú unnið tvo leiki í röð, eftir þrjú töp í röð þar á undan. Var tapið bakslag fyrir nýliðana, sem höfðu unnið tvo leiki í röð fram að leiknum í gær.

Króatíski línumaðurinn Marko Coric var markahæstur hjá Fram með átta mörk úr átta skotum. Rúnar Kárason bætti við sjö mörkum og Ívar Logi Styrmisson sex. Lárus Helgi Ólafsson átti fínan leik í marki Fram og varði tíu skot.

Halldór Ingi Óskarsson lék best Víkinga og skoraði sjö mörk. Á eftir honum komu þeir Styrmir Sigurðarson, Stefán Scheving Guðmundsson og Sigurður Páll Matthíasson með þrjú hver. Sverrir Andrésson varði níu skot í marki Víkingsliðsins.

Fram mætir einnig nýliðum í næstu umferð, því þá leikur liðið við HK á heimavelli sínum.

Á meðan leikur Víkingur við KA og fær tækifæri til að komast aftur á sigurbraut.