50 ára Emilía er Vestmannaeyingur og „gosbarn“ en hún fæddist sama ár og gaus á Heimaey. Hún gekk í flest störf sem unglingur. „Þetta var með öðrum hætti en í dag en ég byrjaði að vinna í humri 13 ára, vann í slipp í…

50 ára Emilía er Vestmannaeyingur og „gosbarn“ en hún fæddist sama ár og gaus á Heimaey. Hún gekk í flest störf sem unglingur. „Þetta var með öðrum hætti en í dag en ég byrjaði að vinna í humri 13 ára, vann í slipp í málningargenginu, við upptöku skipa, var háseti á togskipi og vann á veitingastöðum.“ Hún hefur búið um allan heim eftir að hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri. Emilía starfaði hjá Atlanta sem flugfreyja í Sádi-Arabíu og Englandi en fór seinna til Icelandair og vann þar sem flugfreyja með háskólanámi.

Emilía lauk B.S.-gráðu í sjúkraþjálfun við HÍ og starfaði við það í nokkur ár áður en fjölskyldan flutti út til Kaliforníu árið 2006 en fjölskyldan bjó í Bandaríkjunum í sex ár. Þar fór hún í listaháskóla þar sem hún lauk B.S.-gráðu í iðnhönnun. Hún starfaði sem sjálfstætt starfandi hönnuður í 12 ár við margvísleg verkefni, m.a. hannaði hún Sebastopol-borðin sem eru framleidd og seld um allan heim af Coalesse. Einnig var hún í hönnunarteymi Mink Campers-ferðavagnanna.

Hefur fjölskyldan búið í Hafnarfirði síðan 2014. „Við lögðum mikið upp úr því að börnin kæmust sjálf til og frá skóla og tómstundum þegar við fluttum aftur til Íslands.“ Emilía starfar sem verkefnastjóri umhverfis- og samfélagsmála hjá Húsasmiðjunni en hún lýkur mastersnámi í umhverfis- og auðlindafræði við HÍ nú í október. Emilía er virk í félagsstörfum og er m.a. í stjórn félags vöruhönnuða og sóknarnefnd Hafnarfjarðarkirkju. „Áhugamálin eru CrossFit, siglingar og útivist, en ég hef hlaupið Laugaveginn þrisvar. Ég byrjaði í golfi í sumar en það verður góð æfing í þolinmæði. Dagurinn verður tekinn með trompi með afmælis- og útskriftarpartíi.“

Fjölskylda Eiginmaður Emilíu er Karl Guðmundsson, f. 1974, framkvæmdastjóri Florealis. Börn þeirra eru Ingi Snær, f. 2003, Bóas, f. 2005, Júlía, f. 2010, og Magni Þór, f. 2012. Foreldrar Emilíu: Hjónin Borgþór Eydal Pálsson, f. 1941, vélvirkjameistari búsettur í Vestmannaeyjum, og Guðbjörg Októvía Andersen, f. 1943, d. 2022, þinglýsingafulltrúi.