Birgir Þórðarson fæddist á Öngulsstöðum II í Eyjafjarðarsveit 24. janúar 1934. Hann lést á Lögmannshlíð 7. október 2023 eftir stutt veikindi.

Foreldrar hans voru Þórður Jónatansson, f. 2. júlí 1893, d. 3. des. 1976 og Katrín Sigurgeirsdóttir, f. 9. mars 1905, d. 24. mars 2002, bændur á Öngulsstöðum II.

Systur Birgis eru Jónína, f. 25. sept. 1927, d. 23. júní 2020, gift Ragnari Bollasyni, f. 16. jan. 1919, d. 7. des. 2005, þau bjuggu á Bjargi sem byggt var í landi Öngulsstaða II og eignuðust þrjú börn, Sigurhelga, f. 18. mars 1931, og Ragnheiður, f. 9. sept. 1940, gift Friðriki Jónssyni, f. 16. des. 1924, d. 4. feb. 2007, þau bjuggu í Brekku í Kaupangssveit og eignuðust fimm börn.

Birgir gekk í barnaskóla sveitarinnar og bjó alla sína tíð á Öngulsstöðum utan tvo vetur sem hann var við nám í Menntaskólanum á Akureyri og var í síðasta árganginum sem þaðan tók gagnfræðapróf. Eftir námið ákvað Birgir að fara í búskapinn með foreldrum sínum. Þetta var um miðja 20. öld og ný tækni að halda innreið sína í sveitina, dráttarvélar með tilheyrandi búnaði til að létta bændum störfin og það heillaði Birgi meira en framhaldsnám í kaupstaðnum. Birgir og Sigurhelga tóku síðar við búskapnum af foreldrum sínum og hófu samhliða búskapnum að planta trjám í hlíðinni ofan við ræktaða landið. Nú er þetta myndarlegur skógur. Birgir átti mikið bókasafn og notaði þær fáu frístundir sem gáfust til að afla sér fróðleiks. Hann fékk sér áhöld til að binda bækur og batt inn mikið af tímaritum og bókum. Hann hafði unun af fræðagrúski og stærsta verkefnið á því sviði er líklega Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár, Jarða- og ábúendatal, sem hann vann að í mörg ár ásamt öðrum.

Félagsmálin tóku líka mikinn tíma, hann gekk ungur í Ungmennafélagið Árroðann og starfaði í mörg ár með Leikfélagi sveitarinnar sem seinna varð að Freyvangleikhúsinu. Búnaðarfélagið, Skógræktarfélagið, Hálendisnefnd, o.fl. félög tóku mikinn tíma og loks sveitarstjórn þar sem hann var oddviti Öngulsstaðahrepps um árabil og vann að sameiningu hreppanna innan Akureyrar sem mynduðu Eyjafjarðarsveit.

Birgir verður jarðsunginn frá Munkaþverárkirkju í dag, 20. október 2023, kl. 14.

Við fráfall frænda míns Birgis Þórðarsonar beinist athyglin að þeim mörgu verkefnum sem hann vann að fyrir utan bústörfin, sem þó voru ærin. Þau systkinin Birgir og Sigurhelga stýrðu lengi ágætu mjólkurbúi og stunduðu skógrækt. Birgir var mjög virkur í félagsmálum. Hann var lengi oddviti Öngulsstaðahrepps, starfaði í Búnaðarfélaginu og var virkur í leikfélagi sveitarinnar. Ég hygg, að hvar sem Birgir kaus að starfa að félagsmálum hafi munað um hann. Hann var maður vel að sér um flesta hluti, vandvirkur og yfirvegaður. Hann náði til fólks með hófsömum málflutningi en gat verið fastur fyrir ef því var að skipta.

Þegar mér öðlaðist sá heiður að taka sæti á Alþingi, var Birgir fremstur í flokki þeirra eyfirsku bænda sem ég ráðfærði mig við til að öðlast betri þekkingu á landbúnaði. Í þeim málum var Birgir mjög hreinskiptinn. Hann sagði bæði kost og löst á stjórnvaldsákvörðunum með athugasemdum, sem voru beinskeyttar, hispurslausar og fluttar á kjarnmiklu máli.Birgir var kominn í föðurlegg af fnjóskdælskum fræði- og bókamönnum. Bókasafn hans var með þeim stærstu í einkaeign, verðmætt og vel um það hugsað. Birgir batt inn bækur af vandvirkni og smekkvísi. Eins og við var að búast var bóndinn mjög fróður og víðlesinn. Það var sérstaklega ánægjulegt að líta við í safninu og fara höndum um fágætar gamlar bækur og ræða við Birgi um þýðingu bókmenningar fyrir Íslendinga.

Þegar Birgir Þórðarson kveður, er óhætt að segja að hann haft lagt gjörva hönd á fjölmarga þætti menningar- og atvinnulífs í Eyjafjarðarsveit. Það munaði um hann á öllum sviðum. Fjölskyldu hans sendi ég samúðar- og þakklætiskveðjur.

Tómas I. Olrich.

Í dag fylgjum við Birgi frænda mínum á Öngulsstöðum II til grafar. Birgir bjó á Öngulsstöðum alla sína ævi. Eftir nám á Akureyri kom hann heim aftur og tók með tímanum við búi foreldra sinna með Sigurhelgu systur sinni. Hugsanlega sá hann eftir því alla ævi að hafa ekki gengið menntaveginn sem hann hafði alla burði til en þess sá aldrei stað í bústörfunum þar sem öll umhirða um búfé, hús og land var til mikillar fyrirmyndar. Birgir var alla tíð dulur og tranaði sér ekki fram en það kom ekki í veg fyrir að hann var kosinn til forystu bæði á vegum bændasamtaka og sveitarstjórnarmála og var einnig virkur í leiklistarstarfi sveitar sinnar um tíma þar sem listrænir hæfileikar hans fengu að njóta sín. Lengst starfaði hann að sveitarstjórnarmálum og stóð í stafni við farsæla sameiningu sveitarfélaganna þriggja innan Akureyrar. Á efri árum fann svo áhugi Birgis á fræðistörfum sér farveg þar sem hann ritstýrði útgáfu jarðasögu allra jarða innan Akureyrar svo langt aftur sem heimildir eru til en þar var byggt á vinnu Stefáns Aðalsteinssonar. Ritnefndinni undir forystu Birgis tókst að koma verkinu út í sex bindum og er hér um að ræða einstakt afrek sem trauðla verður endurtekið og tryggir honum klárlega nafnbótina fræðimaður og fetar hann þar í fótspor afa síns Jónatans fræðimanns á Þórðarstöðum. Fjölskyldur systkinanna á Öngulsstöðum fluttu á árunum 1929 til 1958 til nýrra heimkynna á jörðinni úr gamla bænum þar sem þær bjuggu allar áður saman í fjölbýlishúsi í sveit. Það var sem fyrr samvinna um bústörf og börnin léku sér saman alla daga en við vorum ekki mikið inni á gafli hvert hjá öðru. Fyrir mér barninu var því alltaf ævintýri að koma inn á Öngulsstaði II þar sem bæði var til staðar gammófónn og píanó sem Birgir spilaði á fyrir okkur að ógleymdu bókasafninu frá Þórðarstöðum sem átti sér fáar ef nokkrar hliðstæður í sveit á Íslandi. Gamli bærinn stóð svo án búsetu allt til þess að við Ragnheiður kona mín fluttum þar inn 2014 eftir gagngerar endurbætur. Það hefði aldrei orðið nema fyrir það að Birgir og Sigurhelga gáfu okkur sinn hluta af húsinu fyrir tæpum 20 árum og þar með hófst ævintýri lífs okkar við umhirðu og endurbætur á húsi og görðum sem stendur enn og við stöndum í mikilli þakkarskuld við þau fyrir. Við Ragnheiður sendum Sigurhelgu og öðrum aðstandendum Birgis okkar innilegustu samúðarkveðjur um leið og ég þakka áratuga samfylgd.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson.

Birgir frændi var eitt það mesta ljúfmenni sem við systkinin þekktum og einstök fyrirmynd. Margar góðar minningar streyma fram þegar við hugsum nú til Birgis frænda á Öngulsstöðum.

Birgir lagði mikla áherslu á menningarmál og umhverfismál í sínum störfum, var mikill fræðimaður, ættfræðigrúskari og sinnti trjárækt af mikilli alúð. En það sem stendur mest upp úr í minningunni er ástríða hans fyrir bókum. Birgir átti eitt það merkilegasta bókasafn sem við höfum augum litið og að koma þangað inn var eins og að ganga inn í helgidóm og þá skipti engu máli á hvaða aldri maður var, það var alltaf sama lotningin sem fylgdi því að ganga inn á bókasafnið.

Góðmennskan einkenndi Birgi, hann sýndi okkur systkinunum frá Brekku ótrúlega þolinmæði þegar við vorum í heimsókn og fyrirferðin á okkur oft örugglega yfirgengileg. Þegar við vorum búin að hlaupa óteljandi ferðir upp og niður stigann og ólmast uppi á lofti og heyra tvisvar, þrisvar kallað að neðan „ætlið þið að láta ljósakrónuna í stofunni detta niður á gólf!“ eða „loftið fer nú að hrynja miður í stofu!“ Þá hóaði Birgir í okkur og bauð okkur að koma með sér inn á bókasafn og þá róuðust litlu ólátabelgirnir.

Birgir hélt þessari skemmtilegu venju að bjóða okkur og afkomendum okkar inn á bókasafnið í hvert sinn er við heimsóttum hann og Sigurhelgu frænku okkar á Öngulsstaði og alltaf var sama róin sem færðist yfir og þakklæti fyrir þessa stund.

Birgir batt mikið inn af bókum sjálfur, var hæfileikaríkur á því sviði og bækurnar sannkölluð listaverk. Hann gerði líka upp gamlar bækur sem fundust stundum illa farnar, hafði fyrir því að finna og fá afrit af blaðsíðum sem vantaði úr öðrum eintökum sem voru til og gerði bækurnar heilar á ný. Hann kunni svo sannarlega þá list að gera við og laga, bæði bækur, bíla og tæki.

Þegar við lítum til baka þá hugsum við með hlýju til Birgis og þess sem hann kenndi okkur, en að vinna við hlið Birgis við sveitastörfin var ávallt gaman. Það sem einkenndi hann var hversu rólyndur hann var og ávallt til í að leiðbeina okkur í okkar störfum. Birgir gerði það alltaf með virðingu og hvatningu í okkar garð. Hann var einstaklega duglegur maður og lausnamiðaður. Ef upp komu vandamál, þá var alltaf fundin lausn.

Birgir skammaði aldrei, heldur leiðbeindi. Við munum ávallt minnast hans fyrir rólyndi, visku, góðsemi og þann góða dreng sem hann hafði að geyma. Við þökkum honum fyrir allan þann áhuga sem hann sýndi okkur, börnum og barnabörnum okkar, því hann var einkar frændrækinn og hafði áhuga á að heyra hvað hver og einn var að gera hverju sinni.

Það var alltaf notalegt að koma til þeirra systkina, Sigurhelgu og Birgis, á Öngulsstöðum og við eigum alltaf eftir að minnast þeirra stunda með hlýju og kærleika. Það var eins og að fara aftur í tímann, eða í tímaleysi, þar sem ekkert stress eða asi virtist til, bara tifandi klukka, ró og friður. Nú er hann Birgir frændi kominn inn í tímaleysið og hinn eilífa frið.

Í okkar huga verður hann alltaf Birgir frændi á Öngulsstöðum.

Þórður, Jón Þorgrímur, Elísabet Katrín, Árni, Sverrir og fjölskyldur.

• Fleiri minningargreinar um Birgi Þórðarson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.