Hætta ber öllum stuðningi við Hamas

Enn er óljóst nákvæmlega hvað gerðist við sjúkrahúsið í Gasa, sem Hamas sagði Ísraelsher hafa gereyðilagt og drepið meira en 500 manns, en þó má slá því föstu að þær fregnir voru rangar.

Flest bendir til þess að eldflaug frá Gasa hafi bilað og fallið niður á bílastæði, en í birtu kom í ljós að sjúkrahúsið var ekki skemmt og ekki að sjá hefðbundin ummerki loftárása. Ekkert hefur skýrst um fjölda látinna.

Það breytir ekki því að margir biðu ekki með að hrapa að rangri niðurstöðu – í ógáti, af gömlum vana eða ásetningi. Þessar röngu fréttir espuðu upp almenning víða í Mið-Austurlöndum, kölluðu fram röng viðbrögð allt frá Ryadh til Reykjavíkur og ónýttu að mestu ferð Joes Bidens Bandaríkjaforseta, þar sem arabískir leiðtogar aflýstu fundum með honum.

Alveg eins og Hamas helst gat óskað sér.

Það er sjálfstætt umhugsunarefni, en eins og fram kom í frétt Morgunblaðsins í gær hafa íslenskir skattgreiðendur gefið nær 1.300 milljónir króna til Palestínu á liðnum áratug. Miðað við mannfjölda má gera ráð fyrir að um 40% fari á Gasa-svæðið.

Þrátt fyrir að féð eigi að renna til þróunarstarfs og mannúðarverkefna, þá er spilling landlæg og Hamas líkara glæpagengi en stjórnvaldi. Öll aðstoð nýtist Hamas til vondra verka, eins og sést á því að nauðsynlegar vatnslagnir eru rifnar upp til að nota pípurnar til eldflaugasmíði. Af því að Hamas hefur meiri áhuga á dauða en lífi.

Það var því furðulegt að fyrstu viðbrögð ríkisstjórnar Íslands við viðurstyggilegum árásum Hamas voru að senda í skyndingu meira fé til Gasa.

Þetta vefst þó fyrir fleirum. Evrópusambandið hætti öllum fjárstuðningi við Palestínu þegar eftir árásir Hamas. Daginn eftir þurfti síðan að hætta við að hætta, aðallega fyrir skammarlega kröfu Íra, sem hafa verið veikir fyrir hryðjuverkamönnum síðan á dögum IRA.

Yfirlýsingar Bandaríkjastjórnar voru skárri, en Íslandsvinurinn og utanríkisráðherrann Tony Blinken sagði að þó að áfram yrði send neyðaraðstoð til Gasa, þá yrði héðan í frá reynt að koma í veg fyrir að Hamas stæli henni allri. Það yrði að minnsta kosti harðlega fordæmt.

Hugsanlega vefst það fyrir mönnum hvort þar suður frá ríki stríð eða ekki, en margir virðast einnig gera gerólíkar kröfur til Hamas og Ísraels. Þrátt fyrir allt hafa ýmsar reglur komist á í hernaði og þar eru tvær helstar.

Í fyrsta lagi má ekki hafa óbreytta borgara að skotmarki. Því felst stríðsglæpur í hverri einustu eldflaug Hamas, þeim er beint að byggð en ekki hernaðarskotmörkum, beinlínis til að granda sem flestum borgurum.

Í öðru lagi verður að gæta meðalhófs í hernaði. Í stríði munu alltaf einhverjir saklausir falla, en þeir mega ekki vera fleiri en hernaðarnauðsyn krefst. Nú ætlast hins vegar margir til þess að engir borgarar megi falla fyrir Ísraelsher, aðeins fyrir Hamas.

Þá verður Ísrael ómögulegt að verjast óvininum, hvað þá að sigrast á honum, en Hamas með frítt spil.

Þetta sést á því að þessa dagana beinist athyglin öll að bilaðri eldflaug frá biluðu fólki frekar en árásinni þar sem meira en 1.400 borgarar, karlar og konur, gamalmenni og ungbörn, voru pyntuð og drepin.

Það eykur ekki friðarlíkurnar í þessu horni heimsins og næsta nágrenni. Ísrael hefur engan áhuga á Gasa annan en að uppræta hryðjuverkahreyfinguna Hamas, en Hamas hefur engan áhuga á friði við Ísrael, heldur því einu að gereyða Ísrael og útrýma gyðingum.

Friðarferlið frá lokum liðinnar aldar er endanlega úr sögunni. Það hefur í raun ekki hreyfst síðan í Ósló þegar Jasser Arafat, leiðtogi Palestínuaraba, sagði nei takk á síðustu stundu og glutraði niður einstæðu tækifæri til þess að stofna sjálfstætt ríki Palestínu. Af því að hann vildi frekar lifa án Palestínu en með Ísrael.

Þannig mun það áfram vera svo lengi sem Hamas, Heilagt stríð og Hesbollah fá nokkru um ráðið, því markmið þeirra er ekki friður, heldur tortíming Ísraels. Þess vegna verður Ísrael að hafa betur, fyrr verður engin von um frið.