Kirkja Verkefnið er langt komið.
Kirkja Verkefnið er langt komið.
„Endurreisn er langt komin en þó vantar enn talsverðar upphæðir svo ljúka megi verkefninu,“ segir Alfreð Garðarsson, formaður sóknarnefndar Miðgarðakirkju í Grímsey. Úr þeim ranni hefur nú verið sent erindi til fjárlaganefndar Alþingis um stuðning frá ríkinu við að byggja nýja kirkju í eynni

„Endurreisn er langt komin en þó vantar enn talsverðar upphæðir svo ljúka megi verkefninu,“ segir Alfreð Garðarsson, formaður sóknarnefndar Miðgarðakirkju í Grímsey. Úr þeim ranni hefur nú verið sent erindi til fjárlaganefndar Alþingis um stuðning frá ríkinu við að byggja nýja kirkju í eynni. Sem kunnugt er brann sú Miðgarðakirkja sem fyrir var til kaldra kola í september 2021.

Strax í kjölfar brunans hófust bollaleggingar um að reisa nýtt guðshús sem skyldi vera tilbúið ári eftir brunann. Þau áform gengu ekki eftir þótt fljótt söfnuðust alls 120 milljónir kr. Fjármunirnir dugðu ekki og því stöðvuðust framkvæmdir fyrir ári. Þær eru nú að hefjast að nýju. Kirkjan er þegar fokheld og tilbúin er tengibygging. Þar er almenningssalerni fyrir gesti í eynni, samanber að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða styrkti verkefnið rausnarlega

„Stuðningurinn sem við höfum fengið víða frá hefur verið mikill og í raun alveg ómetanlegur. Kirkjubruninn hreyfði við nánast allri þjóðinni. Núna í vikunni eigum við von á mannskap hingað út í eyju sem ætlar að leggja gangstéttir við kirkjuna. Til þess höfum við fengið hellur sem BM-Vallá lagði til. En talsvert er eftir svo sem að ganga frá þaki og gólfum kirkjunnar, klæðningu að innan, setja upp rafkerfi og altari og loks mála allt innanhúss. Þetta áætla fróðir menn að kosti 47 milljónir kr. og vonandi getur ríkissjóður þarna mætt okkur að einhverju leyti. Frjáls framlög víða frá hafa þó skipt sköpum í þessu öllu sem segir okkur vel hvaða stað Grímsey og kirkjan hér eiga í hugum landsmanna,“ segir Alfreð Garðarsson. sbs@mbl.is