Formaður FKA Katrín ásamt sendinefnd tekur á móti Önnu Bretaprinsessu á Heimsþingi FCEM sem fram fór 2004.
Formaður FKA Katrín ásamt sendinefnd tekur á móti Önnu Bretaprinsessu á Heimsþingi FCEM sem fram fór 2004.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Katrín Sigurrós Óladóttir er fædd 20. október 1953. „Ég er fædd að hausti í fallegri sveit sem oft er talað um sem „Sveitin milli sanda“ að Hnappavöllum í Öræfum. Þar átti ég heima fyrstu tíu árin þar til foreldrar mínir ákváðu að flytja til Reykjavíkur og selja jörðina

Katrín Sigurrós Óladóttir er fædd 20. október 1953. „Ég er fædd að hausti í fallegri sveit sem oft er talað um sem „Sveitin milli sanda“ að Hnappavöllum í Öræfum. Þar átti ég heima fyrstu tíu árin þar til foreldrar mínir ákváðu að flytja til Reykjavíkur og selja jörðina.

Á heimilinu bjuggu einnig foreldrar mömmu, þau Guðný amma og Gísli afi, sem síðar fluttu til Hafnarfjarðar til að vera nær læknisþjónustu. Það var gestkvæmt á sumrin, ættingjar komu gjarnan í sumarleyfum sínum og kaupstaðarbörn voru send í sveit á þessum tíma. Mér fannst veturinn oft dimmur og lengi að líða, RÚV var eini miðillinn sem hægt var að hlusta á en dagskráin bauð ekki upp á mikið barnaefni og ég lærði fljótt að bóklestur var bjargráð. Á sjötta ári var ég farin að lesa mér til gagns, fyrsta alvöru sagan sem ég las var Karlsen stýrimaður sem birt var í blaðinu Heima er bezt, mikil dramatík þar á ferð.

Sumarið hefur alltaf verið minn uppáhaldstími enda nóg við að vera og líf og fjör á kvöldin hjá krökkunum. Samt eru minningarnar heilt yfir góðar þegar horft er til baka. Ég ákvað víst snemma að sveitastörf yrðu ekki minn tebolli. Um tíu ára aldurinn hóf ég nám í Barnaskólanum á Hofi í Öræfum en hafði fengið að koma árið áður í stuttan tíma. Þetta var ekki stór skóli og þarna var allt skólastigið fram að fermingu kennt samtímis.“

Árið 1964 í byrjun vetrar flutti fjölskyldan svo til Reykjavíkur og innritaðist Katrín í Hlíðaskóla. Fyrstu árin bjó fjölskyldan í Barmahlíðinni en flutti síðar á Bugðulækinn í Laugarneshverfinu. Leið Katrínar lá svo í Kvennaskólann og stundaði hún nám þar árin 1966-1970. „Þá 13 ára eignaðist ég frábærar skólasystur og stofnuðum við fljótt saumaklúbb, höfum hist mánaðarlega yfir vetrartímann, ferðast saman hér heima og erlendis, með eða án maka hin síðustu árin. Ég fæ t.d. alltaf að hafa jólaklúbbinn og þá mæta makarnir líka. Þetta er einstakur vinskapur, oft er sungið, jólasaga lesin og skálað í hófi. Það er langt síðan eitthvað hefur verið saumað, prjónar sjást einstaka sinnum.

Að loknu kvennaskólaprófi eins og það hét í þá daga fór ég 16 ára strax að vinna og ætlaði að safna mér fyrir skólagjöldum fyrir áframhaldandi nám. Hóf starf hjá Eimskip í maí 1970 og starfaði þar til 1977. Þetta var dýrmætur tími enda fyrirtækið stórt, leiðandi og sterkt afl í íslensku viðskiptalífi. Árin hjá Eimskip voru lærdómsrík og skemmtileg og þar eignaðist ég líka vini fyrir lífstíð. Eftir að starfi lauk hjá Eimskip vann ég hjá Málningu frá 1977-1983 sem var öflugt framleiðslu- og sölufyrirtæki eins og nafnið gefur til kynna.“

Þann 1. apríl 1983 bauðst Katrínu síðan starf hjá Hagvangi og hún lauk störfum þar í lok maí sl. „Sá tími er orðinn býsna langur, eða 40 ár, og þar fann ég mína hillu frá fyrsta degi. Straumhvörf urðu í mínu lífi þegar þrír samstarfsmenn mínir buðu mér að ganga inn í kaup á Hagvangi með þeim en fyrirtækið hafði verið til sölu um tíma. Ég þurfti engan umhugsunarfrest svo svarið var einfalt, já takk! Þessi 40 ár hafa verið eins og ævintýri sem hafa gefið mér ótal tækifæri, bæði í viðskiptalífinu og ekki síður í félagsstarfi, hér heima og erlendis. Þekking mín og reynsla í ráðningum hefur verið á mínu borði frá fyrsta degi og ég hef ekki tölu á hversu marga ég hef ráðið fyrir hönd Hagvangs til starfa.“

Frá 1. janúar 2003 var Katrín framkvæmdastjóri Hagvangs og hefur lifað tímana tvenna í starfi framkvæmdastjórans. „Ég hef tekist á við algjörlega breyttar forsendur í rekstri og get nefnt hrunárið mikla 2008 hjá atvinnulífinu sem og nýjan veruleika sem blasti við þegar covid skall á. Áður hafði ég kynnst sveiflóttu efnahagslífi með tilheyrandi verkföllum og verðhækkunum sem gerði atvinnu fólks ótrygga og fyrirtækin börðust í bökkum. Stöðugleikinn er mun auðveldari viðureignar í rekstri ef honum fylgir bjartsýni og hæfileg framkvæmdagleði. Ég hef fylgst með stórkostlegum framförum á Íslandi og séð fólk vaxa og dafna í sínum störfum sem er ómetanlegt.“

Katrín hefur alltaf verið orkumikil og virk í félagsstarfi, hvort sem það hefur tilheyrt hennar persónulega lífi eða atvinnu. Hún var stofnfélagi að Félagi kvenna í atvinnulífinu, FKA, 1999 og formaður félagsins 2003-2005. Hún hlaut Þakkarviðurkenningu FKA árið 2022 sem veitt er fyrir eftirtektarvert ævistarf. Hún var tæp 20 ár félagi og forseti í Rótarýklúbbnum Straumi og var einnig um tíma í Lionessuklúbbi. Einnig hefur hún tekið þátt í Samtökum verslunar og þjónustu (SVÞ) og fulltrúaráði Samtaka atvinnulífsins, starfað í nefndum s.s. dómnefnd Stjórnvísi og SVÞ, setið í tveimur tilnefningarnefndum og opinberum hæfnisnefndum. „Ég er í frábærum bókaklúbbi, nokkrum vinaklúbbum (hétu áður „Saumó“) svo eitthvað sé nefnt.

Fjölskyldan mín er mér mikilvægust og veitir mér endalausa gleði. Ég á heilsársbústað sem hefur verið vel nýttur og er mikill griðastaður. Einnig höfum við ferðast saman erlendis og það er ómetanlegt að fá tækifæri til að sjá unga fólkið vaxa og dafna inn í framtíðina. Ég er líka rík að einvalaliði ættingja og vina og vonandi gefst enn meiri tími til að hittast meira og rifja upp gamlar minningar og búa til nýjar.

Það er tilhlökkunarefni að takast á við nýjan kafla á æviskeiðinu sem hefur verið mér einkar gott og gefandi hingað til. Svo er ég orðin langamma og það er mikil gleði sem fylgir því hlutverki. Ég er því full bjartsýni að venju fyrir næstu ævintýri.“

Fjölskylda

Dóttir Katrínar og fyrrverandi eiginmanns, Steinþórs Einarssonar, f. 1952, er Lilja Kolbrún Steinþórsdóttir, f. 21.6. 1973, leikskólastjóri. Hennar maki er Bjarni Sveinsson, f. 1972, kerfisfræðingur í upplýsinga- og tæknideild Landsbanka Íslands. Þau eiga tvær dætur, Katrínu Öldu, f. 1996, meistaranema í félagsráðgjöf, og Thelmu Karen, f. 2002, stúdent. Thelma Karen á soninn Veigar Elí Natansson, f. 2022.

Systkini Katrínar: Sigríður Guðrún, f. 1948, Guðný Kristbjörg, f. 1950, Símon, f. 1951, d. 2019, Sigurbjörg, f. 1957, og Helga, f. 1960.

Foreldrar Katrínar voru hjónin Guðrún Gísladóttir, f. 27.12. 1926, d. 17.2. 2011, starfsstúlka í aðhlynningarstarfi á Hrafnistu, og Óli Runólfsson, f. 16.11. 1920, d. 20.6. 2003, verkstjóri í Reykjavík.