Hringborðið Fjölmenni var í Hörpu í gær vegna þings Hringborðs norðurslóða, en rúmlega 2.000 manns taka þátt í störfum þess í dag og á morgun.
Hringborðið Fjölmenni var í Hörpu í gær vegna þings Hringborðs norðurslóða, en rúmlega 2.000 manns taka þátt í störfum þess í dag og á morgun. — Morgunblaðið/Hákon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ársþing Hringborðs norðurslóða (e. Arctic Circle) var sett í tíunda sinn í Hörpu í gærmorgun og mun það standa fram til laugardags. Var margt um manninn í Hörpu vegna þingsins, en áætlað er að rúmlega 2.000 manns frá u.þ.b

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Ársþing Hringborðs norðurslóða (e. Arctic Circle) var sett í tíunda sinn í Hörpu í gærmorgun og mun það standa fram til laugardags. Var margt um manninn í Hörpu vegna þingsins, en áætlað er að rúmlega 2.000 manns frá u.þ.b. 70 löndum taki þátt í því.

Þingið samanstendur af rúmlega 200 málstofum með um 700 ræðumönnum, en það hefur fest sig í sessi sem stærsti alþjóðlegi vettvangurinn fyrir málefni tengd norðurslóðum. Þar koma saman þjóðarleiðtogar, stjórnendur vísindastofnana og fyrirtækja, sérfræðingar í umhverfismálum, fulltrúar frumbyggja og frumkvöðlar víðs vegar að úr heiminum.

Á meðal þeirra sem taka þátt í þinginu að þessu sinni eru Katrín Jakobdóttir forsætisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. Einnig mæta utanríkisráðherrar Noregs og Danmerkur, Anniken Huitfeldt og Lars Lökke Rasmussen, ásamt Sultan Al Jaber, forseta Loftslagsþings Sameinuðu þjóðanna, COP28.

Auknar áskoranir í heiminum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti ræðu við setningu þingsins, þar sem hún lagði ríka áherslu á samstöðu þjóðanna þegar kemur að því að mæta auknum áskorunum vegna loftslagsbreytinga og annarra hörmunga sem eru að eiga sér stað í heiminum. Þá sagðist hún vona að þingið í ár yrði góður undirbúningur fyrir COP28, loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna, sem haldið verður í lok nóvember í Dubai.

Forsætisráðherra minnti á að mikilvægi norðurslóða fælist í þeim víðtæku áhrifum sem svæðið hefði á heiminn, en að það sem gerðist annars staðar í heiminum hefði einnig áhrif á norðurslóðir. Því skipti það miklu máli fyrir heiminn allan og norðurslóðir þ. á m. að vinna að friðsælum lausnum og afvopnun í stríðsátökum sem geisa því miður allt of víða.

„Staðan í heiminum er að verða alvarlegri með hverjum deginum. Árás Rússa í Úkraínu var ekki einungis hörmuleg í sjálfu sér heldur setti hún hættulegt fordæmi í alþjóðasamskiptum. Þeir hræðilegu hlutir sem eiga sér nú stað í Ísrael og Palestínu eru enn ein áminningin um að þessi hringrás stríða og átaka bitnar ávallt mest á saklausu fólki,“ sagði Katrín m.a. í ræðu sinni.

Þá sagði hún heiminn standa frammi fyrir „hnattrænni suðu“, þar sem áhrif loftslagsbreytinga væru nú að koma fram og það með meiri hraða á norðurslóðum en annars staðar í heiminum, á sama tíma og ákveðið bakslag hefði átt sér stað í umræðunni um loftslagsmál.

Tími aðgerða er núna

Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra Danmerkur sagði í setningarræðu sinni að þótt sýn þjóða gæti verið mismunandi þá væru markmiðin sameiginleg. Sagði hann þingið afar mikilvægan vettvang fyrir fólk að koma saman en gott væri að eiga sanna vini sem styddu hver annan.

Hann sagði veröldina hafa breyst mikið eftir innrás Rússa í Úkraínu sem hefði haft mikil áhrif á samvinnu á vettvangi Norðurheimskautsráðs. Þá sagði hann að tími aðgerða væri núna ef við vildum koma í veg fyrir frekari flóð, elda og aðrar náttúruhamfarir.

Með hækkandi hitastigi yrðu norðurslóðir fyrir barðinu á loftslagsbreytingum en hann sagðist trúa því að með sameiginlegu átaki væri hægt að bregðast við þessum breytingum. „Við verðum að forgangsraða og megum ekki taka neinu sem sjálfsögðum hlut,“ sagði hann og bætti við að áskorununum fylgdu líka tækifæri.