Einar Gautur Steingrímsson
Einar Gautur Steingrímsson
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is „Miðað við þennan úrskurð er staðan sú að það er ekkert að marka neinar ákvarðanir sem sr. Agnes hefur tekið eftir 1. júlí 2022 sem heyra undir vald biskups. Allar ákvarðanir sem hún tekur og biskup einn hefur vald til að taka eru markleysa miðað við þessa niðurstöðu úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar og hafa ekkert gildi. Ef við göngum út frá því að úrskurður úrskurðarnefndarinnar sé réttur, þá er enginn biskup yfir Íslandi,“ segir Einar Gautur Steingrímsson hæstaréttarlögmaður í samtali við Morgunblaðið.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Miðað við þennan úrskurð er staðan sú að það er ekkert að marka neinar ákvarðanir sem sr. Agnes hefur tekið eftir 1. júlí 2022 sem heyra undir vald biskups. Allar ákvarðanir sem hún tekur og biskup einn hefur vald til að taka eru markleysa miðað við þessa niðurstöðu úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar og hafa ekkert gildi. Ef við göngum út frá því að úrskurður úrskurðarnefndarinnar sé réttur, þá er enginn biskup yfir Íslandi,“ segir Einar Gautur Steingrímsson hæstaréttarlögmaður í samtali við Morgunblaðið.

Álits hans var leitað á stöðu sr. Agnesar M. Sigurðardóttur í kjölfar þess að úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar komst að þeirri niðurstöðu að umboð hennar til að gegna embætti biskups yfir Íslandi hefði runnið út 1. júlí 2022.

Einar Gautur segist ekki taka afstöðu til þess hvort Agnes telji sig vinna hjá kirkjunni og megi sem slík taka ákvarðanir eins og hver annar starfsmaður. Hann bendir þó á að Agnes geti leitað til dómstóla til að fá úrskurðinn felldan úr gildi, en eigi að síður séu úrskurðir úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar endanlegir hvað kirkjuna varðar.

Þá segir Einar Gautur spurningu hvort það taki því að fara dómstólaleiðina, þar sem Agnes muni hvort eð er hætta á næsta ári, en boðað hefur verið til biskupskjörs í mars. Kjörstjórn þjóðkirkjunnar sem fer með biskupskjör, en undirbúningur slíkrar kosningar er tímafrekur og sagður taka hálfan þriðja mánuð. Ef forsætisnefnd kirkjuþings myndi óska eftir því að kosningu biskups yrði flýtt, gæti það mögulega orðið til þess að hún færi fram í janúar í stað mars ella.

– Ef Agnes myndi skjóta úrskurðinum til dómstóla, myndi það fresta réttaráhrifum hans?

„Nei,“ segir Einar Gautur. „Þessi úrskurður er bara í tilteknu máli að forminu til, en það er erfitt fyrir hana að vinna embættisverk ef úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar er búin að segja að hún sé ekki biskup. Ég sé ekki hvernig hún ætlar að fara að því að koma fram sem biskup þegar æðsta nefndin um þessi mál innan þjóðkirkjunnar er búin að segja að hún sé það ekki. Ætlar hún að segja; ég er samt biskup?,“ segir Einar Gautur.

Margvísleg áhrif möguleg

Hann bendir líka á að áhrif úrskurðarins geti haft víðtækari áhrif en á Agnesi eina.

„Afleiðingar þess að einhver þykist vera biskup sem er það ekki geta verið margvíslegar. Ef hún hefur vígt einhvern guðfræðing til prests og skipað hann í prestsembætti eftir að umboði Agnesar sleppti, þá er spurning hvort hann hafi nokkurn tímann orðið prestur. Ef hann hefur síðan gift fólk sem svo skilur, þá getur það haft áhrif á það hvort það fólk er talið hafa verið löglega gift, þannig að álitaefnin sem vakna út af þessu geta teygt sig víða. Úrskurðurinn vekur fleiri spurningar en svarað er,“ segir Einar Gautur.

Vígslubiskup getur tekið við

Samkvæmt regluverki þjóðkirkjunnar geta vígslubiskupar tekið við biskupsskyldum þegar biskup Íslands er ekki til staðar. Eins og staða þeirra mála er nú var sr. Gísli Gunnarsson, vígslubiskup á Hólum, vígður til embættis í ágúst á síðasta ári, þ.e. eftir að umboð biskups rann út. Sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti, var hins vegar vígður til embættis síns fyrir fimm árum og heldur sú vígsla gildi sínu samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, enda þótt hann hafi verið vígður á nýjan leik sl. sumar. Báðir vígslubiskuparnir voru réttilega kjörnir í kosningum innan þjóðkirkjunnar.

Fátt um svör

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær hefur Biskupsstofa greitt um 23 milljónir króna fyrir þjónustu lögfræðinga það sem af er þessu ári. Óskað hefur verið eftir því að fá þær upplýsingar sundurgreindar eftir dagsetningum og tilefnum vegna þessa árs og hins síðasta, en engin svör hafa borist frá Biskupsstofu.

Þá hefur blaðið einnig óskað eftir upplýsingum um öll embættisverk Agnesar M. Sigurðardóttur sem hún hefur unnið í nafni biskups eftir að umboð hennar til að gegna starfinu rann út 1. júlí í fyrra. Þeirri beiðni hefur heldur ekki verið svarað.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson