Hanna Katrín Friðriksson
Hanna Katrín Friðriksson
Ég tilheyri kynslóð sem óx úr grasi án internetsins. Foreldrar mínir gengu til dæmis ekki frá fjármálum sínum í gegnum símann heldur sátu um hver mánaðamót við eldhúsborðið og breiddu úr reikningunum

Ég tilheyri kynslóð sem óx úr grasi án internetsins. Foreldrar mínir gengu til dæmis ekki frá fjármálum sínum í gegnum símann heldur sátu um hver mánaðamót við eldhúsborðið og breiddu úr reikningunum. Svo var reiknað. Eitt árið náðu þau að reikna fjölskylduna í sumarfrí til Spánar. Ég man ekki til þess að seðlabankastjóri eða stjórnvöld hafi haft sérstaka skoðun á því. Og þó var óðaverðbólga og allt of sveiflukennt efnahagsástand líka ríkur þáttur æsku minnar.

Það kemur stjórnvöldum auðvitað ekkert við hvað fólk gerir í sumarfríinu sínu. Það er hins vegar verkefni þeirra að búa svo um hnútana að fólk geti ráðið málum sínum þannig að það eigi þess kost að fara í frí. Að tryggja að allur þorri almennings sjái ekki peningana sína brenna til ösku á verðbólgubálinu eða hverfa vegna séríslenskrar glórulausrar vaxtabyrði. Ég held að það sé ekki um það deilt að núverandi ríkisstjórn fær enga toppeinkunn fyrir það verkefni. Hagfræði eldhússborðsins hefur ekki verið þeim ofarlega í huga. Hver hefur enda tíma fyrir slíkt í miðjum stólaleik? Þegar það þarf að búa til glærur til að hæðast að samráðherrum með skeytum sem missa reyndar algjörlega marks. Eða þegar það þarf að rífast innbyrðis en samt mjög opinberlega um hvalveiðar. Rífast um orkumál. Um málefni innflytjenda. Og svo framvegis.

Á meðan heldur fólk áfram að sinna sínu. Reynir að standa við skuldbindingar sínar á allan mögulegan máta. Hlustar á ráðleggingar seðlabankastjóra og stjórnvalda um að lengja bara í lánum, spara við sig, ganga á sparnað, vera nægjusöm, þolinmóð og þæg. Vinna meira og sleppa Tene.

Stjórnmálin verða að eiga eitthvað annað í pokahorninu. Til að bregðast við þeim bráðavanda sem fjöldi heimila stendur frammi fyrir núna og ekki síst til að koma í veg fyrir að vaxtaokrið og verðbólgubrjálæðið endurtaki sig aftur og aftur. Engri ríkisstjórn íslensku krónunnar hefur tekist að finna raunveruleg svör. Endalausar tilraunir til þess hafa hins vegar reynst heimilum landsins og flestum fyrirtækjum dýrkeyptar.

Það er fráleitt að hunsa það að núverandi staða er síendurtekin afleiðing þess að hér hefur ekki verið brugðist við með skýrri sýn á hvernig við tryggjum mikilvægan stöðugleika í efnahagslífinu til lengri tíma. Risasveiflurnar sem íslenskum heimilum er boðið upp á aftur og aftur eru ekki náttúrulögmál. Það er íslenska krónan sannarlega ekki heldur. Þetta þarf alls ekki að vera svona.

Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar. hannakatrin@althingi.is