Hátíðlegt Ólafur Elíasson tekur við viðurkenningunni úr hendi Hanako Tsugaru Japansprinsessu í vikunni.
Hátíðlegt Ólafur Elíasson tekur við viðurkenningunni úr hendi Hanako Tsugaru Japansprinsessu í vikunni. — Ljósmynd/The Japan Art Association/The Sankei Shimbun
Myndlistarmaðurinn Ólafur Elíasson veitti hinum alþjóðlegu verðlaunum Praemium Imperiale viðtöku á miðvikudaginn við hátíðlega athöfn í Tókýó. Aðrir verðlaunahafar Praemium Imperiale 2023 eru leikstjórinn Robert Wilson, tónlistarmaðurinn Wynton…

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

Myndlistarmaðurinn Ólafur Elíasson veitti hinum alþjóðlegu verðlaunum Praemium Imperiale viðtöku á miðvikudaginn við hátíðlega athöfn í Tókýó.

Aðrir verðlaunahafar Praemium Imperiale 2023 eru leikstjórinn Robert Wilson, tónlistarmaðurinn Wynton Marsalis, listmálarinn Vija Celmins og arkitektinn Diebedo Francis Kere. Hljóta þau verðlaunin fyrir afrek sín á listasviðinu og áhrif á listsköpun á heimsvísu, að því er segir á vef verðlaunanna. Hver verðlaunahafi hlýtur 15 milljónir japanskra jena, sem samsvarar um 13,7 milljónum ísl. kr.

Í kynningu á verðlaunahöfunum er á það bent að upplifun Ólafs af íslenskri náttúru í æsku sé honum mikilvægur innblástur þegar hann í verkum sínum fjallar um aðkallandi umhverfismál:

„Litur, ljós, vatn, ís eru aðeins nokkur af þeim fyrirbrigðum náttúrunnar sem Ólafur Elíasson notar í listaverkum sínum, verkum sem eru hönnuð til að hreyfa við skynjun okkar og vekja okkur til umhugsunar um undur lífs og náttúru. Verk hans eru á ýmsum stærðarskala og í margvíslegum miðlum svo sem skúlptúr, innsetningum, málverkum, ljósmyndum og myndbandsgerð. Innblástur sækir Ólafur til æskuáranna í Danmörku og á Íslandi sérstaklega sem veitir honum listrænan hvata til að ögra alþjóðlegri umræðu um umhverfismál.“

Á blaðamannafundi þakkaði Ólafur fyrir heiðurinn og sagði m.a.:

„Þegar ég var að stíga mín fyrstu spor sem listamaður í Danmörku var ég hugfanginn af japanskri list og sér í lagi listaverkum sem reyndu að fanga hverfulleika lífsins. Það sem japönsk menning hefur kennt mér er að manneskjunni mætti líkja við garð þar sem veröldin er garðyrkjumaðurinn. En þegar maður verður fyrir innblæstri snúast hlutverkin við.“

Fjallað verður um Ólaf Elíasson og sýninguna Verðurverkefnið í Sunnudagsblaðinu en 20 ár eru liðin frá opnun sýningarinnar í Tate Modern í London.