Ingibjörg Tómasdóttir fæddist í Teigagerði við Reyðarfjörð 26. október 1940. Hún lést á Landspítala Fossvogi 8. október 2023.

Foreldrar hennar voru Anna Sigríður Sigfúsdóttir og Tómas Bjarnason. Ingibjörg var næstelst af sex systkinum. Hin eru í aldursröð: Anna María, f. 1939, Bjarni, f. 1941, Inga Þorgerður, f. 1943, Sigfús, f. 1944, d. 2018, og Ásgeir, f. 1954.

Ingibjörg giftist 26. október 1961 Haraldi Haraldssyni, f. 10. júlí 1936, d. 9. mars 2010, frá Kolfreyjustað í Fáskrúðsfirði. Foreldrar hans voru Guðrún Valborg Haraldsdóttir og séra Haraldur Jónasson.

Börn Ingibjargar og Haraldar eru: 1) Anna Ragnheiður, f. 15. september 1961, gift Grími Kolbeinssyni. Hún á einn son, Hólmar Frey, sem er í sambúð með Fanneyju Kristjánsdóttur og eiga þau saman Emmu Dögg en áður átti Fanney Ölmu Dögg. Grímur á þrjú börn, Hrefnu, Guðrúnu og Kolbein, og tvö barnabörn. 2) Inga Margrét, f. 9. maí 1967, gift Karli Péturssyni og eiga þau tvo syni, Pétur og Orra Karl. Pétur er kvæntur Kristínu Huldu Björnsdóttur og eiga þau Viktor Orra, Maren Ýri og Aron Elvar. Orri Karl er í sambúð með Írisi Dóru Halldórsdóttur og eiga þau Elmar Halldór og Erni Inga. 3) Haraldur Óskar, f. 28. september 1970, kvæntur Guðrúnu Pétursdóttur og eiga þau eina dóttur, Erlu Björgu.

Áður en Ingibjörg kynntist Haraldi eignaðist hún son andvana fæddan 6. maí 1959.

Ingibjörg og Haraldur hófu búskap sinn á Höfn í Hornafirði en fluttu til Reykjavíkur, þar sem þau bjuggu meðal annars í Skipasundi og Bólstaðarhlíð en árið 1968 byggðu þau sér heimili í Hraunbæ 17. Þar bjuggu þau í 26 ár. Árið 1994 fluttu þau á Eyktarhæð 7 í Garðabæ. Eftir andlát Haraldar flutti Ingibjörg í Sóleyjarima 19 í Reykjavík.

Ingibjörg og Haraldur höfðu mikla unun af því að ferðast og þau ferðuðust til yfir 40 landa saman og fóru í fjölmargar siglingar. Eftir fráfall Haraldar hélt hún ótrauð áfram að ferðast eins lengi og hún hafði heilsu til.

Ingibjörg flutti ung að heiman en hún fór í Húsmæðraskólann á Hallormsstað. Hún vann ýmis störf; við fiskvinnslu, hótelstörf en aðallega vann hún í eldhúsum, m.a. í Árbæjarskóla, á Hótel Esju og á Rannsóknastofnun landbúnaðarins svo eitthvað sé nefnt.

Að mestu helgaði hún sig börnum sínum og annarra. Þegar barnabörnin fæddust, eitt af öðru, hætti hún að vinna og tók að sér að hugsa um þau þar til þau komust á leikskóla.

Útför fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 20. október 2023, klukkan 13.

Við systkinin viljum í nokkrum orðum minnast mömmu okkar.

Mamma flutti ung að heiman og fór í Húsmæðraskólann á Hallormsstað, þar sem hún naut þess að vera í skólanum og kynntist fjölmörgum samferðakonum sínum. Nám mömmu við Húsmæðraskólann nýttist henni vel út ævina. Hún hafði gaman af því að vera í eldhúsinu og starfaði við matseld á ýmsum stöðum um ævina. Saumaskapur átti vel við hana og saumaði hún ófáar flíkurnar á okkur systkinin þegar við vorum yngri. Hún var boðin og búin að aðstoða okkur við alla hluti og hún sýndi áhuga og stuðning í öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur í lífinu. Hún var einstaklega barngóð og þótti ekkert betra en að hugsa um barnabörnin þegar þau voru ung og fannst sjálfsagt að gera hlé á vinnu til að sinna þeim. Allir voru velkomnir í pössun og dekur til ömmu og afa.

Mamma og pabbi höfðu gaman af að ferðast, sérstaklega að fara í siglingar á skemmtiferðaskipum. Mamma heimsótti yfir 40 lönd á lífsleiðinni, flestöll með pabba, og skrifaði samviskusamlega niður hvaða staði hún hafði heimsótt. Hún naut þess að skoða sögulega staði og las sér vel til áður en hún heimsótti nýjan stað. Kanaríeyjarnar voru nær árlegur áfangastaður hjá mömmu og pabba en þangað fóru þau til að hvíla sig og liggja í sólinni. Mamma hélt ótrauð áfram að ferðast eftir fráfall pabba meðan hún hafði orku og getu til.

Mamma og pabbi voru einnig mjög dugleg að ferðast innanlands, sérstaklega var hálendi Íslands í uppáhaldi hjá þeim. Í þeim ferðum var Ferðahandbókin við höndina og mikið lesin.

Mamma missti mikið við fráfall pabba. Þau höfðu verið félagar í gegnum lífið og áttu frábært líf saman.

Elsku mamma, það er erfitt og sárt að kveðja þig. Við erum þakklát fyrir þig, samfylgdina í lífinu og allt sem þú gerðir fyrir okkur. Við vitum að pabbi tekur vel á móti þér í sumarlandinu.

Anna Ragnheiður,
Inga Margrét og Haraldur Óskar.