Meiddur Gísli Þorgeir Kristjánsson er ekki í hópnum vegna meiðsla en Arnar Freyr Arnarsson er á sínum stað.
Meiddur Gísli Þorgeir Kristjánsson er ekki í hópnum vegna meiðsla en Arnar Freyr Arnarsson er á sínum stað. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, valdi í vikunni 21 leikmann fyrir komandi vináttulandsleiki gegn Færeyjum, dagana 3. og 4. nóvember, en leikirnir fara báðir fram í Laugardalshöllinni

Handbolti

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, valdi í vikunni 21 leikmann fyrir komandi vináttulandsleiki gegn Færeyjum, dagana 3. og 4. nóvember, en leikirnir fara báðir fram í Laugardalshöllinni.

Snorri Steinn, sem er 42 ára gamall, tók við þjálfun karlalandsliðsins hinn 1. júní eftir að Guðmundur Þórður Guðmundsson hætti nokkuð óvænt með liðið um miðjan febrúar á þessu ári.

Snorri Steinn lék sjálfur 257 A-landsleiki þar sem hann skoraði 846 mörk en hann stýrði áður karlaliði Vals og gerði liðið tvívegis að Íslandsmeisturum og tvívegis að bikarmeisturum áður en hann lét af störfum eftir síðasta keppnistímabil.

„Ég er mjög ánægður með leikmannahópinn,“ sagði Snorri Steinn í samtali við Morgunblaðið í höfuðstöðvum HSÍ í Laugardalnum.

Ekki mikið af meiðslum

„Sem betur fer þá erum við ekki að glíma við mikið af meiðslum, að undanskildum Gísla Þorgeiri Kristjánssyni, en aðrir standa mér til boða. Endurhæfing Gísla hefur gengið mjög vel og ég á allt eins von á því að hann verði byrjaður að spila aftur í desember, ef allt gengur eftir og hann lendir ekki í bakslagi.

Leikmannahópurinn er vissulega í stærri kantinum en það er líka með vilja gert þar sem þetta er fyrsti hópurinn sem ég vel. Ég er spenntur að sjá þessa stráka almennilega á æfingu og í leikjum og upplifunin af því er allt önnur en að horfa á þá í símanum eða tölvunni. Það segir sig nokkuð sjálft að það munu ekki allir spila jafnmikið í þessum tveimur vináttulandsleikjum en ég vonast til þess að fá góða tilfinningu fyrir leikmönnunum í þessu verkefni,“ sagði Snorri.

Vilja vinna báða leikina

Leikirnir gegn Færeyjum verða einu heimaleikir íslenska liðsins fyrir Evrópumótið 2024 sem fram fer í Þýskalandi og hefst í janúar.

„Það stendur ekki til að spila báða leikina á sömu mönnum og ég sé fram á það að allir leikmenn fái eitthvað að spila. Ég ætla mér að nýta þessa viku með strákunum eins og best verður á kosið og ég mun leggja meiri áherslu á okkur heldur en mótherjana. Auðvitað mun ég fara í leikgreiningu á færeyska liðinu og kynna strákunum hana en aðalatriði í þessu öllu saman er íslenska landsliðið.

Ég ætla að koma mínum áherslum á framfæri og mínum gildum og svo er það leikmannanna að meðtaka þau. Það er það sem ég er að leita eftir í þessum glugga en ég geri mér líka grein fyrir því að þetta eru leikir sem við viljum og ætlum okkur að vinna því það er erfitt að byggja ofan á eitthvað ef þú ert ekki að vinna handboltaleiki.“

Ekki setið auðum höndum

Eins og áður hefur komið fram tók Snorri Steinn við þjálfun liðsins í júní en þrátt fyrir að þetta séu fyrsti landsleikir liðsins undir stjórn nýs þjálfara hefur hann ekki setið auðum höndum síðustu mánuði.

„Ég held að ég hafi aldrei horft á jafnmikið af handboltaleikjum en á sama tíma þá hefur þetta verið fínn tími fyrir mig persónulega. Það var kominn tími fyrir mig að prófa eitthvað annað og mér líður vel í þessu starfi. Ég er virkilega spenntur að fá strákana í hendurnar og byrja að vinna með þeim en ég hef klárlega ekki setið auðum höndum frá því ég tók við. Það hefur verið merkilega mikið að gera hjá mér ef ég á að vera alveg hreinskilinn.

Ég hugsa út í það á hverjum einasta degi hvað mig langar að gera með liðið og ég er með allskonar hugmyndir. Þegar þú tekur við einhverju liði þá viltu að þitt handbragð þitt sjáist á því, ég held að það sé bara mjög eðlilegt. Það er kannski ekkert himinn og haf á milli þess sem ég er að fara að gera og þess sem Guðmundur Þórður Guðmundsson var að gera en ég vil samt að fólk átti sig á því að það er nýr þjálfari í brúnni. Á sama tíma er ég ekki að fara að finna upp hjólið í handboltanum en ég ætla að reyna að keyra aðeins upp hraðann og keyra hratt á andstæðingana.“

Þarf að vera heill heilsu

Landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson sneri heim í sumar eftir 14 ár í atvinnumennsku og samdi við uppeldisfélag sitt FH en hann hefur verið að glíma við meiðsli í upphafi tímabilsins og ekki náð að sýna sínar bestu hliðar í úrvalsdeildinni enn sem komið er.

„Aron lætur vel af sér. Skrokkurinn á honum er í ágætis standi, þó hann sé að missa af einhverjum leikjum. Umræðan um hann hérna heima truflar mig ekki og það kemur mér ekki á óvart hvernig hann hefur farið af stað á tímabilinu. Það tekur á að flytja heim til Íslands eftir fjórtán ár í atvinnumennsku og það er ákveðin kúnst. Það er meira en að segja það og hann er ekki sá fyrsti sem þarf smátíma í að aðlagast nýju lífi. Það er svo mitt að geta notað hann og finna honum hlutverk í liðinu.

Hann þarf að vera heill heilsu af hann ætlar á Evrópumótið, það er alveg klárt. Auðvitað vil ég sjá meira frá honum, eins og allir, og ég held að hann viti það best sjálfur að hann getur spilað betur en hann hefur verið að gera í upphafi tímabilsins. Ég er í reglulegu sambandi við hann, þjálfarann hans og sjúkraþjálfarana í kringum hann. Við pössum okkur á því að vera allir á sömu blaðsíðu en enn sem komið er þá hef ég ekki miklar áhyggjur. Ég hlakka mikið til að sjá hann á æfingum með okkur og sjá hvernig hann funkerar þar.“

Eina leiðin að vinna leiki

Miklar væntingar eru gerðar til liðsins í dag enda leika margir af lykilmönnum landsliðsins með stærstu félögum Evrópu og er biðin eftir verðlaunum á stórmóti orðin langþráð hjá stuðningsmönnum landsliðsins.

„Eins og staðan er í dag truflar umræðan mig ekki mikið enda hefur hún ekki verið mikil. Ég geri hins vegar ráð fyrir því að hún muni aukast jafnt og þétt, eftir því sem nær dregur móti. Ég hef sagt það áður að ég hef gaman af allri umræðu en það er þannig, sérstaklega í hópíþróttum, að umræðan helst í hendur við úrslitin. Ég reyni að passa mig á því að ákveða hlutina ekki fyrirfram eða mynda mér skoðun á einhverju sem ég hef ekki upplifað sjálfur.

Þetta hefur sinn gang og mér líður vel með liðið og það sem ég ætla að gera með það. Það á eitthvað eftir að ganga vel og annað ekki, það er hluti af leiknum. Vonandi fæ ég fleiri jákvæð svör í vikunni en neikvæð og svo vinn ég út frá því. Eina leiðin fyrir mig til þess að stjórna einhverri umræðu er með því að vinna leiki og ef við skilum úrslitum í hús þá aukast vinsældirnar, þetta er ekki mjög flókið,“ bætti Snorri Steinn við í léttum tón í samtali við Morgunblaðið en leikmannahóp landsliðsins má sjá í heild sinni á mbl.is/sport/handbolti.