[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Kröfur almennings hafa breyst. Þarna verður betri aðstaða og fólki gefst meiri tími til að flokka,“ segir Jón Viggó Gunnarsson framkvæmdastjóri Sorpu. Ný móttökustöð Sorpu verður opnuð í lok árs 2024 við Lambhagaveg 14 gangi áætlanir Sorpu eftir

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Kröfur almennings hafa breyst. Þarna verður betri aðstaða og fólki gefst meiri tími til að flokka,“ segir Jón Viggó Gunnarsson framkvæmdastjóri Sorpu.

Ný móttökustöð Sorpu verður opnuð í lok árs 2024 við Lambhagaveg 14 gangi áætlanir Sorpu eftir. Stöðin verður skammt frá stórverslun Bauhaus og mun þjóna íbúum í stórum hverfum á borð við Grafarholt, Grafarvog og Úlfarsárdal. Hún kemur í stað stöðvarinnar við Sævarhöfða sem verður lokað vegna uppbyggingar á því svæði.

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum verður þessi nýja móttökustöð mun þægilegri í notkun en þær sem fólk á nú að venjast. Hún er byggð í hring og yfirbyggð að hluta. Þannig verður mun betra umferðarflæði um stöðina og skjól verður til að skila af sér úrgangi. Ekki verður vanþörf á nú þegar ríkari kröfur eru gerðar til almennings um flokkun og endurvinnslu en verið hefur.

„Þetta verður gríðarlega flott stöð og gæti orðið fyrirmynd að fleiri móttökustöðvum,“ segir Jón Viggó. Eins og kom fram í Morgunblaðinu í vikunni er skriður að komast á undirbúning fyrir byggingu nýrrar endurvinnslustöðvar Sorpu í stað stöðvarinnar sem nú stendur við Dalveg í Kópavogi. Til stendur að henni verði lokað í september á næsta ári en starfshópur á að finna heppilega staðsetningu fyrir nýja stöð. Samkvæmt því sem Jón Viggó segir gæti sú stöð, sem þjóna á Kópavogsbúum og Garðbæingum, orðið í líkingu við stöðina við Lambhagaveg.