Reynsla Hinn reynslumikli Hörður Axel Vilhjálmsson úr Álftanesi með boltann í leiknum gegn Breiðabliki í úrvalsdeildinni í körfubolta í gær.
Reynsla Hinn reynslumikli Hörður Axel Vilhjálmsson úr Álftanesi með boltann í leiknum gegn Breiðabliki í úrvalsdeildinni í körfubolta í gær. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýliðar Álftaness unnu sinn annan sigur í röð í úrvalsdeild karla í körfubolta er liðið vann sannfærandi 91:71-útisigur á Breiðabliki í þriðju umferðinni í gærkvöldi. Álftanes náði forskoti snemma leiks og var sigurinn aldrei í hættu

Körfuboltinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Nýliðar Álftaness unnu sinn annan sigur í röð í úrvalsdeild karla í körfubolta er liðið vann sannfærandi 91:71-útisigur á Breiðabliki í þriðju umferðinni í gærkvöldi. Álftanes náði forskoti snemma leiks og var sigurinn aldrei í hættu. Er Álftanes eitt sjö liða með fjögur stig, en Breiðablik er án stiga.

Er ekki hægt að segja að um venjulega nýliða sé að ræða þegar kemur að Álftanesi, því liðið er skipað gríðarlega sterkum
íslenskum landsliðsmönnum sem eru miklir reynsluboltar í efstu deild.

Bandaríkjamaðurinn Douglas Wilson var fremstur í flokki hjá Álftanesi í gærkvöldi með 23 stig og 11 fráköst. Á eftir honum var Haukur Helgi Pálsson með 15 stig og Hörður Axel Vilhjálmsson gerði níu stig. Eru þeir Haukur og Hörður mikilvægir landsliðsmenn og í gæðaflokki sem sjaldan sést í herbúðum nýliða.

Keith Jordan var bestur hjá Breiðabliki, skoraði 25 stig og tók ellefu fráköst að auki. Everage Richarson kom þar á eftir með 14 stig og tíu fráköst.

Flautukarfa Keflavíkur

Mesta spennan í gærkvöldi var í Keflavík, því Remy Martin tryggði Keflvíkingum sigur á Valsmönnum með þriggja stiga körfu þegar ein sekúnda var eftir. Urðu lokatölur 87:86, Keflavík í vil. Varð Keflavík þar með fyrsta liðið til að sigra Valsmenn á leiktíðinni. Eru bæði lið í fjögurra stiga klúbbnum fræga.

Sigrinum var ansi vel fagnað í Keflavík í gær, enda náði Valur mest 14 stiga forskoti. Keflvíkingar sýndu hins vegar gríðarlegan styrk í að leggja ekki árar í bát og fagna sætum sigri.

Lögðu margir sitt af mörkum fyrir Keflvíkinga því Igor Maric var stigahæstur með 18 stig, áðurnefndur Martin gerði 17 og þeir Sigurður Pétursson og Marek Dolezaj gerðu 16 stig hvor. Kristófer Acox var bestur hjá Val, skoraði 20 stig og tók 14 fráköst að auki. Joshua Jefferson bætti við 16.

Tómas gríðarlega efnilegur

Þór frá Þorlákshöfn vann sinn annan sigur í röð er liðið lagði Hauka að velli í Þorlákshöfn, 84:81, í spennandi leik. Þór vann þriðja leikhlutann 27:16 og lagði með því grunninn að sigrinum. Haukar eru búnir að tapa tveimur leikjum í röð eftir sigur í fyrstu umferðinni.

Þrátt fyrir að vera aðeins átján ára gamall er Tómas Valur Þrastarson orðinn einn besti íslenski leikmaður deildarinnar, en hann gerði 21 stig í gær. Virðist aðeins tímaspursmál hvenær hann fetar í fótspor stóra bróður, Styrmis Snæs Þrastarsonar, og gerist landsliðs- og atvinnumaður.

Darwin Davis gerði 20 stig fyrir Þór. Jalen Moore skilaði 24 stigum, níu fráköstum og átta stoðsendingum fyrir Hauka.

Ægir óstöðvandi

Landsliðsmaðurinn Ægir Þór Steinarsson átti bestu frammistöðu eins leikmanns á tímabilinu til þessa er hann og liðsfélagar hans í Stjörnunni unnu sinn fyrsta leik. Stjörnumenn gerðu þá góða ferð til Hveragerðis og unnu stigalausa Hamarsmenn með tíu stigum, 90:80.

Ekkert fékk stöðvað Ægi, því hann skoraði 40 stig, tók tíu fráköst og gaf sjö stoðsendingar að auki. Hlynur Bæringsson eldist eins og gott rauðvín og skoraði landsliðsfyrirliðinn fyrrverandi níu stig og tók átta fráköst. Er lítið að hægjast á Hlyni, þrátt fyrir að vera kominn á fimmtugsaldurinn. Maurice Creek skoraði 21 stig og tók sjö fráköst fyrir Hamarsmenn.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson