Virkjun Illa horfir með orkuskipti verði ekki farið af stað með virkjanir.
Virkjun Illa horfir með orkuskipti verði ekki farið af stað með virkjanir. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is „Ég fór með þetta mál inn í ríkisstjórn vegna þess að ég hef áhyggjur af stöðunni. Nýtingarflokkur heitir nýtingarflokkur vegna þess að það á að nýta það sem er í flokknum. Það er mjög mikilvægt að það raungerist. Þessi verkefni eru á höndum margra. Orkufyrirtækin eru með þessa kosti og við erum að fylgjast með því hvernig þeim málum vindur fram,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í samtali við Morgunblaðið.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Ég fór með þetta mál inn í ríkisstjórn vegna þess að ég hef áhyggjur af stöðunni. Nýtingarflokkur heitir nýtingarflokkur vegna þess að það á að nýta það sem er í flokknum. Það er mjög mikilvægt að það raungerist. Þessi verkefni eru á höndum margra. Orkufyrirtækin eru með þessa kosti og við erum að fylgjast með því hvernig þeim málum vindur fram,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í samtali við Morgunblaðið.

Orkuskipti í uppnámi

Í blaðinu í gær var greint frá minnisblaði sem ráðherrann lagði fram í ríkisstjórn þar sem fram kom að áformuð orkuskipti væru í uppnámi þar sem aðeins hefur verið sótt um virkjanaleyfi til Orkustofnunar fyrir helmingi þess afls sem áformaðar virkjanir í nýtingarflokki rammaáætlunar geta skilað. Þá séu bæði Búrfellslundur og Hvammsvirkjun í kyrrstöðu vegna afstöðu Skeiða- og Gnúpverjahrepps annars vegar og í tilviki Hvammsvirkjunar vegna úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

- Hvernig finnst þér orkufyrirtækin standa sig í þessum efnum?

„Ég hef haft það fyrir reglu að vera ekki að gagnrýna einn eða neinn. Þetta er mál okkar allra og það er alveg ljóst að við erum að eiga við stöðu sem er tilkomin vegna þess að það hefur allt of lítið verið gert í grænorkumálum í 15 ár, ekki bara í raforkumálum heldur líka í öflun jarðhita til húshitunar. Við erum að snúa þessari þróun við eins hratt og við getum.

Átak í jarðhitaleit

Samkvæmt bestu upplýsingum eru öll þau verkefni sem eru í nýtingarflokki komin af stað með einhverjum hætti. Orkufyrirtækin benda hins vegar réttilega á að það verður að einfalda leyfisveitingarferla og þess vegna erum við að vinna að því að einfalda þá,“ segir Guðlaugur Þór og bendir á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar þar sem m.a. er mælt fyrir um sameiningu stofnana til einföldunar í veitingu leyfa til orkuöflunar.

Guðlaugur Þór nefnir einnig að í skránni sé að finna mjög mörg önnur mál sem tengjast orkumálum. Búið sé að samþykkja rammaáætlun sem rauf níu ára kyrrstöðu í málaflokknum, en uppfæra ber rammaáætlun á fjögurra ára fresti. Þá sé rammaáætlun 4 á skránni og kerfisáætlun sömuleiðis. Hann nefnir einnig nýlega lagasetningu sem kveður á um að ekki þurfi að fara með fyrirætlanir um stækkun virkjana í gegnum rammaáætlun á Alþingi sem liðkar fyrir framgangi mála, sem og lagasetningu um varmadælur sem gerir fólki kleift að nýta orkuna betur.

„Nú erum við að fara í jarðhitaátak í fyrsta skipti síðan á síðustu öld. Verið er að leita að heitu vatni á köldum svæðum sem bæta mun lífsgæði fólksins sem þar býr, en að sama skapi losnar þá um raforku sem verður hægt að nota í annað en til húshitunar.

Aðalatriðið er samt það að við verðum að vera með augun á boltanum í þessum málum því við þurfum að vinna upp aðgerðaleysi síðustu áratuga. Það þurfa allir, og stjórnvöld eru þar meðtalin, að vinna að framgangi þessara mála,“ segir Guðlaugur Þór.