Það leit út fyrir í gærmorgun að repúblikanar hefðu komist að niðurstöðu um að koma fulltrúadeildinni til starfa með málamiðlunarlausn þar sem bráðabirgðaforsetinn Patrick T. McHenry yrði áfram og kosningu forseta deildarinnar yrði frestað

Það leit út fyrir í gærmorgun að repúblikanar hefðu komist að niðurstöðu um að koma fulltrúadeildinni til starfa með málamiðlunarlausn þar sem bráðabirgðaforsetinn Patrick T. McHenry yrði áfram og kosningu forseta deildarinnar yrði frestað. Jim Jordan tjáði blaðamönnum í gærmorgun að hann hygðist ekki sækjast eftir þriðju kosningu til forseta um sinn.

Hitafundur í gær

Eftir mikinn hitafund í þingflokknum ákvað Jordan að skipta um skoðun. Tilkynnti hann blaðamönnum strax eftir fundinn að hann myndi sækjast eftir kosningu til þingforseta í þriðja sinn, sem gæti þá jafnvel farið fram um kvöldið, en hann myndi fyrst tala við þá 22 repúblikana sem studdu hann ekki á miðvikudaginn.

Styrinn stendur nú milli tveggja fylkinga innan flokksins og vilja þeir sem eru nær miðjunni finna lausn strax en hægri armur flokksins er ekki til í neitt samkrull með demókrötum, sem styðja hugmyndina um McHenry. Talið er að Steve Scalise, Tom Emmer og Elise Stefanik hafi verið mótfallin því að færa McHenry meiri völd, en þessi staða varaforseta, sem aldrei hefur verið nýtt, var búin til eftir hryðjuverkin 2001 ef forsetaembætti deildarinnar yrði snögglega ómannað.

Elise Stefanik skrifaði á samfélagsmiðilinn X að hún myndi ekki styðja neinar tilraunir til að vinna með demókrötum að lausn í þessu máli. „Við verðum að sameina repúblikana til þess að bjarga Bandaríkjunum,“ skrifaði hún á X.

Bent hefur verið á af lögfróðum að allar ákvarðanir teknar af fulltrúadeildinni án réttkjörins þingforseta gætu verið vefengdar fyrir rétti, en þessi staða hefur aldrei komið upp áður í fulltrúadeildinni.